Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig nýtist tilfinningagreind stjórnendum fyrirtækja? (Sigrún Grímsdóttir)
Aðrir spyrjendur eru: Ingimar Guðmundsson, Davíð Þorgeirsson, Silja Baldursdóttir og Þórður Grímsson.
Tilfinningagreind (e. emotional intelligence) er hugtak sem á rætur sínar að rekja til starfa tveggja bandarískra sálfræðinga, þeirra Johns Mayers við Háskólann í New Hampshire og Peters Saloveys við Yale-háskóla. Samkvæmt þeim vísar tilfinningagreind meðal annars til hæfni fólks til að þekkja, skilja og hafa áhrif á eigin tilfinningar. Mayer og Salovey settu kenningu sína upphaflega fram í greininni Emotional intelligence sem birtist árið 1990 í tímaritinu Imagination, Cognition, and Personality. Greinin vakti á sínum tíma fremur litla athygli almennings og fræðimanna.
Þá kemur til sögunnar sálfræðingur að nafni Daniel Goleman sem vann á þessum tíma við að skrifa fréttir um vísindi í dagblaðið New York Times. Hann hreifst af hugtakinu tilfinningagreind og samdi við Mayer og Salovey um að fá það lánað. Goleman virtist þó hafa haft lítinn áhuga á rannsóknum og hugmyndum Mayers og Saloveys og mótaði í raun nýtt hugtak sem hann nefndi þessu sama nafni, tilfinningagreind. Í kjölfarið skrifaði Goleman bókina Tilfinningagreind: Hvers vegna hún getur skipt meira máli en greindarvísitala (e. Emotional intelligence: Why it can matter more than IQ). Sú bók sló í gegn og vakti heimsathygli. Bókin hefur nú selst í meira en fimm milljónum eintaka um allan heim.
Tilfinningagreind Golemans
Tilfinningagreind er samkvæmt Goleman samsett úr fimm lykilþáttum:
Hæfni til að þekkja og nefna réttilega eigin tilfinningar ásamt skilningi á tengslum hugsana, tilfinninga og hegðunar.
Hæfni til að stjórna eigin tilfinningum, til dæmis til að bæta eigin líðan.
Hæfni til að setja sig inn í ákveðið tilfinningalegt ástand ásamt vilja til að ná árangri.
Hæfni til að skynja, þekkja og taka tillit til tilfinninga annarra.
Hæfni í mannlegum samskiptum.
Í tilfinningagreind Golemans felst meðal annars að geta lesið í tilfinningar annarra.
Eins og sést á undirtitli bókar hans er Goleman alls óhræddur við að setja fram yfirlýsingar og fullyrðir meðal annars að mælingar á tilfinningagreind geti verið mikilvægari og réttmætari en hefðbundin greindarpróf. Goleman bendir réttilega á að niðurstöður greindarprófa spái alls ekki fullkomlega fyrir um árangur fólks í skóla, í vinnu eða í lífinu almennt. Hann heldur því þá fram að hugtak hans, tilfinningagreind, geti að minnst kosti í sumum tilvikum spáð betur fyrir um árangur fólks en greindarvísitala.
Þar sem hugtak hans er yfirgripsmikið mætti alveg búast við að finna mætti ákveðin störf þar sem góð mæling á tilfinningagreind spái betur fyrir um árangur en hefðbundið greindarpróf. Greindarpróf eru til dæmis ekki sérlega næmur mælikvarði á samskiptahæfni en skilgreining Goleman á tilfinningagreind felur einmitt í sér slíkt. Einfalt starf sem fælist í því að vera viðkunnanlegur og lipur í samskiptum en reyndi ekki sérlega mikið á skilning, rökhugsun eða dómgreind kynni að vera dæmi um starf sem tilfinningagreind ætti að spá betur fyrir um árangur í en greindarvísitala. Þó skortir enn rannsóknir sem sýna fram á að svo sé.
Gagnrýni: Skilgreining hugtaksins og skortur á rannsóknargögnum
Mörgum fræðimönnum þykir skilgreining Golemans á tilfinningagreind heldur óskýr. Sjálfir hafa þeir Mayer og Salovey gagnrýnt Goleman þar sem þeim finnst hann blanda tilfinningagreind, í upphaflegum skilningi hugtaksins (hæfni til að þekkja og hafa áhrif á tilfinningar sínar), saman við persónuleikaþætti (vilja til að ná árangri, hæfni til að taka tillit til tilfinninga annarra) og félagsfærni (hæfni í mannlegum samskiptum). Þeir telja því að Goleman skelli alls óskyldum hugsmíðum saman í eitt risastórt hugtak. Miklu æskilegra væri að rannsaka áhrif hvers þessara þátta sérstaklega fremur en allra í einu. Þetta hefur reyndar verið gert með ágætum árangri, og það löngu áður en Goleman setti fram sína útgáfu af tilfinningagreind. Margir telja því að Goleman sé alls ekki að búa til neitt nýtt heldur aðeins að hræra saman gömlum hugtökum í einn stóran graut. Að auki finnst mörgum sem Goleman (og raunar Mayer og Salovey) fari skringilega með orðið greind, þar sem alls ekki sé augljóst að um greind sé að ræða.
Goleman hefur einnig verið gagnrýndur harðlega fyrir að raunprófa ekki kenninguna sína. Stundum hefur hann að vísu reynt að nýta rannsóknir annarra máli sínu til stuðnings. Ein slík var gerð á verkfræðingum hjá rannsóknarstofunni Bell Laboratory þar sem í ljós kom að enginn munur var á greindarvísitölu þeirra verkfræðinga sem stóðu sig best í starfi og annarra verkfræðinga fyrirtækisins. Þetta fullyrti Goleman að væri vegna þess að bestu verkfræðingarnir hefðu meiri tilfinningagreind. Sú fullyrðing var úr lausu lofti gripin þar sem í raun var engin mæling á tilfinningagreind viðhöfð í rannsókninni.
Hefðbundin greindarvísitala enn mikilvægust
Þó svo að rannsóknir á áhrifum tilfinningagreindar á frammistöðu í starfi og skóla skorti, hafa vissulega verið gerðar margar rannsóknir á persónuleikaþáttum sem svipa mjög til skilgreiningar Goleman á tilfinningagreind. Hér má nefna þætti á borð við viðkunnanleika (e. agreeableness) og mannblendni (e. extraversion). Þessir persónuleikaþættir eru samsettir úr nokkrum undirþáttum sem fara oft saman hjá fólki og eru sennilega að einhverju leyti skyldir hver öðrum. Undirþættirnir eru meðal annarra traust, samhygð, hreinskilni, hógværð, hlýja, samviskusemi, jákvæðni, metnaður, virkni og staðfesta; eiginleikar sem vel mætti fella undir skilgreiningu Goleman á tilfinningagreind.
Teknar hafa verið saman 117 rannsóknir, með samanlagt úrtak upp á 23.994 manns, þar sem þessir persónuleikaþættir voru mældir og athugað hvort þeir spái fyrir um árangur í ýmsum störfum. Í ljós hefur komið að þættirnir hafa minni fylgni við starfsárangur en margir ætla, meira að segja í störfum sem krefjast mikilla mannlegra samskipta eins og sölumennsku og stjórnun. Viðkunnanleiki og mannblendni hafa því lítið að segja um hvernig fólki gengur í vinnunni. Almennt er viðurkennt að greindarvísitala hafi mun sterkari fylgni við starfsárangur og sé því mikilvægari mæling en tilfinningagreind þegar segja á fyrir um árangur í starfi.
Greindarvísitala tengist ýmsu, til dæmis giftingar- og skilnaðartíðni.
Greindarpróf voru upphaflega hönnuð til að spá fyrir um árangur barna í skóla en ekki um árangur í starfi og því síður í lífinu almennt. Engu að síður hefur greindarvísitala reynst afar sterkur mælikvarði á margt annað en skólahæfni. Fjölmargar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að þeir sem hafa háa greindarvísitölu fá almennt hærri einkunnir í skóla, eru líklegri til að afla sér góðrar menntunar, standa sig betur í vinnunni, eru líklegri til að giftast og ólíklegri til að skilja, eru sjaldnar atvinnulausir, ólíklegri til að lifa undir fátæktarmörkum, ólíklegri til að verða fangelsaðir og eru almennt hærra settir og betur launaðir en aðrir. Það er því afar erfitt að finna annað hugtak, hvort sem það er tilfinningagreind eða eitthvað annað, sem er í einhverjum skilningi mikilvægara en greindarvísitala. Enda er ljóst, þrátt fyrir fullyrðingar Golemans um annað, að það hefur ekki tekist enn.
Þess má geta að Mayer og Salovey hafa haldið áfram rannsóknum á tilfinningagreind eins og þeir skilgreindu hugtakið upphaflega. Þær rannsóknir eru áhugaverðar í sjálfu sér en hafa vakið frekar litla athygli og umræðu samanborið við kenningar Golemans.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Orri Smárason. „Hvað er tilfinningagreind? Er hún mikilvæg?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2006, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5550.
Orri Smárason. (2006, 10. janúar). Hvað er tilfinningagreind? Er hún mikilvæg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5550
Orri Smárason. „Hvað er tilfinningagreind? Er hún mikilvæg?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2006. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5550>.