Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var heilagur Tómas af Aquino?

Geir Sigurðsson

Lífshlaup Tómasar

Tómas af Aquino var merkasti heimspekingur miðalda og raunar einn af mestu heimspekingum Vesturlanda. Kaþólska kirkjan tók hann í dýrlingatölu og þess vegna er oft einnig vísað til hans sem „heilags“ Tómasar.

Tómas fæddist árið 1225 í kastala nokkrum að nafni Roccasecca sem liggur miðja vegu á milli Rómar og Napolí. Fjölskylda hans var mjög efnuð og sendi hann snemma í háskólann í Napolí. Þar hugðist Tómas ganga í munkareglu dómíníkana en fjölskylda hans var andvíg því og lokaði hann inni í rúmt ár. Þá tókst honum að flýja og hélt til Kölnar til að halda áfram námi sínu undir handleiðslu Alberts mikla þar sem hann lagði sérstaka áherslu á heimspeki Aristótelesar. Stuttu síðar fór hann til Parísar, útskrifaðist þaðan með meistaragráðu og hóf feril sinn sem kennari. Að loknum fáeinum árum í París sneri Tómas aftur til Ítalíu og komst þá í kynni við nýjar þýðingar á verkum Aristótelesar sem voru mun nákvæmari en þær sem áður hafði verið stuðst við.

Ferill Tómasar náði líklega hámarki á árunum 1269-1272 þegar hann dvaldi á ný í París. Þá hafði hann öðlast þvílíkan virðingarsess að sóst var eftir úrskurði hans í öllum mikilvægari ágreiningsefnum. Hann hlaut á þessum tíma viðurnefnið Doctor angelicus eða „doktor engill“ vegna þess hversu ljúflyndur hann var og hreinlífur. Eftir dvölina í París lá leiðin aftur til Napolí þar sem honum var gert að koma á almennu guðfræðinámi við háskólann. Árið 1274 hafði páfinn kallað hann til þátttöku í kirkjuþinginu í Lyon en á leiðinni þangað varð Tómas bráðkvaddur.


Heilagur Tómas af Aquino. Mynd eftir Joos van Ghent.

Líkt og kennari hans, Albert mikli, skrifaði Tómas fjöldann allan af heimspekilegum og guðfræðilegum verkum. Fyrsta heildarútgáfan kom út í Róm og Feneyjum á 16. öld og fyllti þá 17 bindi. Heildstæðari útgáfa sem út kom í Frakklandi í lok 19. aldar var svo í hvorki meira né minna en 34 bindum.

Þekktasta verk Tómasar heitir Summa theologiae, sem honum raunar tókst ekki að ljúka við að fullu. Summa merkir „alhliða samantekt“ og theologiae merkir „guðfræði“. Titillinn merkir þar með Alhliða samantekt guðfræðinnar. Þetta er eins konar alfræðibók sem fjallar um veruleikann í heild sinni þar sem efsta stig hans er að sjálfsögðu hið guðlega. Síðan árið 1879 hefur heimspeki Tómasar verið opinber heimspeki hinnar kaþólsku kirkju og þar leikur þetta verk langmikilvægasta hlutverkið.

Um verk Tómasar

Á meðal mikilvægari þátta í heimspeki Tómasar var hin skýra aðgreining sem hann gerði á trú og þekkingu. Þessi aðgreining skipti sköpum fyrir aukið sjálfstæði vísindanna frá kennisetningum kirkjunnar á seinni hluta miðalda og í upphafi endurreisnarinnar. Tómas lagði áherslu á að efnisveruleikinn lúti lögmálum og unnt sé að öðlast öruggan skilning á þeim fyrir tilstilli mannlegrar skynjunar og skynsemi. Hið platonska vantraust á skilningarvitunum – sjón, heyrn, bragði, lykt og snertingu – hafði leitt til þess að ýmsir höfðu sett fram hugmyndir um að fólk sé læst í eigin huglægan skynjunarhátt og að allir skynji því veruleikann með mismunandi hætti eftir því hvernig skilningarvitum þeirra er háttað. Þessu hafnaði Tómas með öllu og sagði að þar með væri búið að kippa undirstöðunni undan sannleiksgildi og hlutlægni vísindanna. Hlutlægni í þessum skilningi – sem Tómas tekur frá Aristótelesi – merkir að þekking sú sem vísindin afla sé örugg og lýsi því eða skýri hvernig hlutirnir eru í raun og veru.

Tökum dæmi frá Tómasi sjálfum: Ef skynjun er óháð hlutunum sem við skynjum og á sér einungis stað í okkur sjálfum þá myndi sá sem finnur súrt bragð af hunangi hafa jafn rétt fyrir sér og sá sem finnur af því sætt bragð. En er vit í því? Tómas taldi það með öllu fráleitt, því þar með hefði sannleikur ekki neina merkingu. Þegar við finnum sætt bragð af hunangi erum við að skynja eiginleika hunangsins sjálfs og þá er bragðskyn okkar heilbrigt. Ef við finnum af því súrt bragð er eitthvað í ólagi. Annað hvort er hunangið skemmt eða bragðskyn okkar brenglað. Með sama hætti búa allir þættir veruleikans yfir ákveðnum eiginleikum sem við getum uppgötvað fyrir víst.


Tómas af Aquino skrifaði bæði guðfræðileg og heimspekileg verk. Hluti altaristöflu eftir Carlo Crivelli.

En þekkingin á sér takmörk og þar tekur trúin við. Ekki er hægt að öðlast þekkingu á öllum þáttum veruleikans með mannleg skynsemi og skynjun. Leyndardóma trúarinnar, til að mynda „einingu heilagrar þrenningar“, getum við ekki beitt skynseminni til að skilja. Hér, sagði Tómas, verðum við einfaldlega að fallast á hina guðlegu opinberun sem skrásett er í Biblíunni. Hvað þetta varðar er hann nokkuð frábrugðinn fyrri miðaldaheimspekingum sem flestir leituðust við að setja fram skynsamlegar skýringar á kreddum kristninnar. Tómas á þó ekki við að þessar kreddur séu í trássi við skynsemina, að þær séu and-skynsamlegar, heldur að þær séu yfir mannlega skynsemi hafnar, að þær séu ofur-skynsamlegar. Þannig er nauðsynlegt, kvað Tómas, að fallast einfaldlega á þá þætti trúarinnar sem okkur er ekki auðið að öðlast skilning á.

Tómas lagði sérstaka áherslu á að allt eins og ekki sé unnt að sanna kreddur kirkjunnar með skynseminni sé heldur ekki hægt að beita skynseminni til að afsanna þær. Eitt af mikilvægari hlutverkum heimspekinnar sé einmitt að sýna andmælendum kristninnar fram á að rök þeirra gegn henni fái ekki staðist. Þannig er ákveðin togstreita í hugsun Tómasar um heimspekina. Annars vegar frelsar hann hana að nokkru undan klafa guðfræðinnar með hugmyndum sínum um sjálfstæði þekkingar, en hins vegar tekur hann fram skýrast af öllum að heimspekin eigi þrátt fyrir allt að vera „vinnukona“ guðfræðinnar.

Í siðfræði sinni og stjórnmálaheimspeki tók Tómas mikið úr grískri hugsun, einkum frá Aristótelesi. Hann var til dæmis sammála honum um hlutverk dygða, að skynsemi manneskjunnar sé henni eðlislæg og að hún sé í eðli sínu félagsvera. En Tómas gekk skrefi lengra til að samræma hugmyndir Aristótelesar og kristna hugsun. Þannig bætti hann við kristnum dygðum um æðra líf með Guði og hélt því fram að kirkjan ætti að ráða yfir ríkinu vegna þess hlutverks hennar að stýra manneskjunni í átt til æðsta markmiðs lífsins: Að hljóta náð fyrir augum Guðs.

Myndir

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

13.1.2006

Spyrjandi

Svava Bjarnadóttir

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hver var heilagur Tómas af Aquino?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2006, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5563.

Geir Sigurðsson. (2006, 13. janúar). Hver var heilagur Tómas af Aquino? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5563

Geir Sigurðsson. „Hver var heilagur Tómas af Aquino?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2006. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5563>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var heilagur Tómas af Aquino?
Lífshlaup Tómasar

Tómas af Aquino var merkasti heimspekingur miðalda og raunar einn af mestu heimspekingum Vesturlanda. Kaþólska kirkjan tók hann í dýrlingatölu og þess vegna er oft einnig vísað til hans sem „heilags“ Tómasar.

Tómas fæddist árið 1225 í kastala nokkrum að nafni Roccasecca sem liggur miðja vegu á milli Rómar og Napolí. Fjölskylda hans var mjög efnuð og sendi hann snemma í háskólann í Napolí. Þar hugðist Tómas ganga í munkareglu dómíníkana en fjölskylda hans var andvíg því og lokaði hann inni í rúmt ár. Þá tókst honum að flýja og hélt til Kölnar til að halda áfram námi sínu undir handleiðslu Alberts mikla þar sem hann lagði sérstaka áherslu á heimspeki Aristótelesar. Stuttu síðar fór hann til Parísar, útskrifaðist þaðan með meistaragráðu og hóf feril sinn sem kennari. Að loknum fáeinum árum í París sneri Tómas aftur til Ítalíu og komst þá í kynni við nýjar þýðingar á verkum Aristótelesar sem voru mun nákvæmari en þær sem áður hafði verið stuðst við.

Ferill Tómasar náði líklega hámarki á árunum 1269-1272 þegar hann dvaldi á ný í París. Þá hafði hann öðlast þvílíkan virðingarsess að sóst var eftir úrskurði hans í öllum mikilvægari ágreiningsefnum. Hann hlaut á þessum tíma viðurnefnið Doctor angelicus eða „doktor engill“ vegna þess hversu ljúflyndur hann var og hreinlífur. Eftir dvölina í París lá leiðin aftur til Napolí þar sem honum var gert að koma á almennu guðfræðinámi við háskólann. Árið 1274 hafði páfinn kallað hann til þátttöku í kirkjuþinginu í Lyon en á leiðinni þangað varð Tómas bráðkvaddur.


Heilagur Tómas af Aquino. Mynd eftir Joos van Ghent.

Líkt og kennari hans, Albert mikli, skrifaði Tómas fjöldann allan af heimspekilegum og guðfræðilegum verkum. Fyrsta heildarútgáfan kom út í Róm og Feneyjum á 16. öld og fyllti þá 17 bindi. Heildstæðari útgáfa sem út kom í Frakklandi í lok 19. aldar var svo í hvorki meira né minna en 34 bindum.

Þekktasta verk Tómasar heitir Summa theologiae, sem honum raunar tókst ekki að ljúka við að fullu. Summa merkir „alhliða samantekt“ og theologiae merkir „guðfræði“. Titillinn merkir þar með Alhliða samantekt guðfræðinnar. Þetta er eins konar alfræðibók sem fjallar um veruleikann í heild sinni þar sem efsta stig hans er að sjálfsögðu hið guðlega. Síðan árið 1879 hefur heimspeki Tómasar verið opinber heimspeki hinnar kaþólsku kirkju og þar leikur þetta verk langmikilvægasta hlutverkið.

Um verk Tómasar

Á meðal mikilvægari þátta í heimspeki Tómasar var hin skýra aðgreining sem hann gerði á trú og þekkingu. Þessi aðgreining skipti sköpum fyrir aukið sjálfstæði vísindanna frá kennisetningum kirkjunnar á seinni hluta miðalda og í upphafi endurreisnarinnar. Tómas lagði áherslu á að efnisveruleikinn lúti lögmálum og unnt sé að öðlast öruggan skilning á þeim fyrir tilstilli mannlegrar skynjunar og skynsemi. Hið platonska vantraust á skilningarvitunum – sjón, heyrn, bragði, lykt og snertingu – hafði leitt til þess að ýmsir höfðu sett fram hugmyndir um að fólk sé læst í eigin huglægan skynjunarhátt og að allir skynji því veruleikann með mismunandi hætti eftir því hvernig skilningarvitum þeirra er háttað. Þessu hafnaði Tómas með öllu og sagði að þar með væri búið að kippa undirstöðunni undan sannleiksgildi og hlutlægni vísindanna. Hlutlægni í þessum skilningi – sem Tómas tekur frá Aristótelesi – merkir að þekking sú sem vísindin afla sé örugg og lýsi því eða skýri hvernig hlutirnir eru í raun og veru.

Tökum dæmi frá Tómasi sjálfum: Ef skynjun er óháð hlutunum sem við skynjum og á sér einungis stað í okkur sjálfum þá myndi sá sem finnur súrt bragð af hunangi hafa jafn rétt fyrir sér og sá sem finnur af því sætt bragð. En er vit í því? Tómas taldi það með öllu fráleitt, því þar með hefði sannleikur ekki neina merkingu. Þegar við finnum sætt bragð af hunangi erum við að skynja eiginleika hunangsins sjálfs og þá er bragðskyn okkar heilbrigt. Ef við finnum af því súrt bragð er eitthvað í ólagi. Annað hvort er hunangið skemmt eða bragðskyn okkar brenglað. Með sama hætti búa allir þættir veruleikans yfir ákveðnum eiginleikum sem við getum uppgötvað fyrir víst.


Tómas af Aquino skrifaði bæði guðfræðileg og heimspekileg verk. Hluti altaristöflu eftir Carlo Crivelli.

En þekkingin á sér takmörk og þar tekur trúin við. Ekki er hægt að öðlast þekkingu á öllum þáttum veruleikans með mannleg skynsemi og skynjun. Leyndardóma trúarinnar, til að mynda „einingu heilagrar þrenningar“, getum við ekki beitt skynseminni til að skilja. Hér, sagði Tómas, verðum við einfaldlega að fallast á hina guðlegu opinberun sem skrásett er í Biblíunni. Hvað þetta varðar er hann nokkuð frábrugðinn fyrri miðaldaheimspekingum sem flestir leituðust við að setja fram skynsamlegar skýringar á kreddum kristninnar. Tómas á þó ekki við að þessar kreddur séu í trássi við skynsemina, að þær séu and-skynsamlegar, heldur að þær séu yfir mannlega skynsemi hafnar, að þær séu ofur-skynsamlegar. Þannig er nauðsynlegt, kvað Tómas, að fallast einfaldlega á þá þætti trúarinnar sem okkur er ekki auðið að öðlast skilning á.

Tómas lagði sérstaka áherslu á að allt eins og ekki sé unnt að sanna kreddur kirkjunnar með skynseminni sé heldur ekki hægt að beita skynseminni til að afsanna þær. Eitt af mikilvægari hlutverkum heimspekinnar sé einmitt að sýna andmælendum kristninnar fram á að rök þeirra gegn henni fái ekki staðist. Þannig er ákveðin togstreita í hugsun Tómasar um heimspekina. Annars vegar frelsar hann hana að nokkru undan klafa guðfræðinnar með hugmyndum sínum um sjálfstæði þekkingar, en hins vegar tekur hann fram skýrast af öllum að heimspekin eigi þrátt fyrir allt að vera „vinnukona“ guðfræðinnar.

Í siðfræði sinni og stjórnmálaheimspeki tók Tómas mikið úr grískri hugsun, einkum frá Aristótelesi. Hann var til dæmis sammála honum um hlutverk dygða, að skynsemi manneskjunnar sé henni eðlislæg og að hún sé í eðli sínu félagsvera. En Tómas gekk skrefi lengra til að samræma hugmyndir Aristótelesar og kristna hugsun. Þannig bætti hann við kristnum dygðum um æðra líf með Guði og hélt því fram að kirkjan ætti að ráða yfir ríkinu vegna þess hlutverks hennar að stýra manneskjunni í átt til æðsta markmiðs lífsins: Að hljóta náð fyrir augum Guðs.

Myndir

...