Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er seiðskratti?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Orðið seiðskratti hefur stundum verið notað um fjölkunnuga menn, þá sem kunnu að efla (fremja, gera eða magna) seið. Seiður er gamalt orð yfir ákveðið afbrigði fjölkynngi (forneskju). Hann er víða nefndur í íslenskum miðaldabókmenntum og hefur jafnan verið tengdur hinum heiðna guði Óðni, sem nefndur hefur verið „galdurs faðir“. Oft virðist lítill munur á hugtökunum galdri og seið; ef til vill hefur galdur stundum verið notað sem einhvers konar yfirhugtak (samanber orðið seiðgaldur), og væntanlega hafa hugtökin tvö oft og tíðum skarast. Í Ynglinga sögu Snorra Sturlusonar frá 13. öld segir:

Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, ok framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt. (Ynglinga saga, bls. 19)

Auk þess sem hér er lýst átti Óðinn að geta blindað óvini sína og deyft vopn þeirra, og valdið berserksgangi eigin stríðsmanna. Samkvæmt Snorra voru berserkir hans galnir, en lýsingarorðið galinn er komið af sagnorðinu gala, það er að syngja (flytja) eins konar töfrasöng. Á þann hátt stendur það í nánu samhengi við galdur. Þá gat Óðinn slökkt elda með orðum sínum einum saman og snúið vindum, jafnframt því sem hann tók hamskiptum, það er hann var fær um að taka sér líki/ham annars fólks eða dýra.


Óðinn var fjölkunnugur og gat brugðið sér í allra kvikinda líki.

Finnur Jónsson, sem skrifaði um galdur og seið undir lok 19. aldar, taldi að flestar af „seiðkindum“ hafi haft þann eiginleika að geta brugðið sér í allra kvikinda líki. Hann segir:

... þeir sem þetta gátu, hjetu alment hamhleypur, og vóru nefndir eigi einhamir, að hamast er sama sem að hleypa ham, leggja niður sinn eiginn lík-ham (líkam) og taka á sig annan. (Finnur Jónsson, bls. 21)

Hamskipti af þessu tagi, auk ógæfusendinga og spádómshæfileika – að sjá fyrir óorðna hluti – eru meðal algengustu eiginleika seiðfólks.

Samkvæmt lýsingum af seið sátu iðkendur hans, oft svonefndar völur (völvur), á þar til gerðum seiðhjalli, eða upphækkuðum palli. Sums staðar er gert ráð fyrir að völurnar og/eða raddlið þeirra, hafi farið með eða galað galdra- eða töfraþulur, samanber hinar frægu Varðlok(k)ur, sem getið er um í Eiríks sögu rauða, þar sem söngfólkið slær hring í kringum völuna. Hvort tveggja hringurinn og söngurinn hefur þá átt að hjálpa völunni að komast í einhvers konar leiðsluástand. Sumir vilja gera greinarmun á völum og seiðkonum, og telja að völurnar einbeiti sér nær eingöngu að einni hlið seiðsins, spádómunum.

Þótt seiðurinn felist fyrst og fremst í andlegri iðkun, eru dæmi um að seiðfólk notfæri sér áhöld eða hjálpargripi. Meðal slíkra gripa eru seiðstafir, í Eiríks sögu rauða segir að slíkir stafir séu lagðir steinum og málmi, og einnig seiðtrommur og dýrafeldir. Þá er seiður alloft tengdur blóti, það er dýrkun heiðinna goða, eða fórnarathöfnum tengdum henni. Stundum virðist seiður beinast gegn ákveðnum mönnum, þar sem talað er um að efla seið gegn einhverjum, eða síða að mönnum ógæfu. Seiður minnir að mörgu leyti á sjamanisma eins og hann var stundaðar meðal Sama til forna, en þó er óvarlegt að setja samansemmerki á milli þessara tveggja fornu afbrigða fjölkynngi.


Seiðfólk klæddist stundum dýrafeldum og barði bumbur.

Samkvæmt miðaldabókmenntum okkar hefur seiðfólk verið fjölskrúðugur hópur; margt af því er nafngreint, en líklega eru enn fleiri ónafngreindir. Af þekktu seiðfólki má nefna Heiði í Völuspá, Þorbjörgu lítilvölvu í Eiríks sögu rauða, Gunnhildi drottningu í Egils sögu, Heiði og Skuld drottningu í Hrólfs sögu kraka og Þorgrím nef í Gísla sögu Súrssonar.

Eins og fram kom hér að ofan segir Snorri seiðinn vera kvennaíþrótt, og á þar líklega við að hann hafi einkum verið framinn af konum, enda taldi hann vanagyðjuna Freyju fyrsta hafa kynnt seið fyrir ásum. Samkvæmt Fornaldarsögum Norðurlanda, sem einkum voru skráðar á 13. og 14. öld, eru karlar þó engir aukvisar þegar kemur að seiðmögnun, enda eru orðin seiðmaður og seiðkarl okkur vel kunn, ekki síður en seiðkona eða seiðkerling.

Að jafnaði virðist hafa verið borin virðing fyrir seiðkonum, að minnsta kosti völunum, þótt að vísu megi finna undantekningar frá þessu. Minni virðing var hins vegar borin fyrir karlmönnum sem iðkuðu seið, samanber tilvitnuð orð Snorra um ergi. Þá felur „starfsheitið“ seiðskratti í sér niðrandi merkingu. Orðið er, svo vitað sé, fyrst notað um hinn fjölkunnuga Þorgrím nef í Gísla sögu Súrssonar, sem varðveitt er í handritum frá 14. öld og síðar. Orðið skratti kemur þó einnig fyrir eitt og sér – hér og í skyldum tungumálum – í merkingunni galdrakarl. Seiðskratti merkir samkvæmt því „seiðgaldrakarl“.

Heimildir og myndir

  • Dillmann, François-Xavier. „Seiður og Shamanismi í Íslendingasögum.“ Skáldskaparmál 2, 1992.
  • Finnur Jónsson. „Um galdra, seið, seiðmenn og völur.“ Þrjár ritgjörðir, sendar og tileinkaðar herra Páli Melsteð ... Finnur Jónsson, Valtýr Guðmundsson og Bogi Th. Melsteð. Kaupmannahöfn, 1892.
  • Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000.
  • Strömbäck, Dag. Sejd. Levin & Munksgaard, København, 1935.
  • Ynglinga saga. Heimskringla I. Íslenzk fornrit XXVI. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1941.
  • Fyrri myndin er af Jan P. Krasny: SFGallery.
  • Seinni myndin er af The paradise2012 shamanism page.

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

16.1.2006

Spyrjandi

Sævar Óli Valdimarsson, f. 1996

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað er seiðskratti?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2006, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5565.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2006, 16. janúar). Hvað er seiðskratti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5565

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað er seiðskratti?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2006. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5565>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er seiðskratti?
Orðið seiðskratti hefur stundum verið notað um fjölkunnuga menn, þá sem kunnu að efla (fremja, gera eða magna) seið. Seiður er gamalt orð yfir ákveðið afbrigði fjölkynngi (forneskju). Hann er víða nefndur í íslenskum miðaldabókmenntum og hefur jafnan verið tengdur hinum heiðna guði Óðni, sem nefndur hefur verið „galdurs faðir“. Oft virðist lítill munur á hugtökunum galdri og seið; ef til vill hefur galdur stundum verið notað sem einhvers konar yfirhugtak (samanber orðið seiðgaldur), og væntanlega hafa hugtökin tvö oft og tíðum skarast. Í Ynglinga sögu Snorra Sturlusonar frá 13. öld segir:

Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, ok framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt. (Ynglinga saga, bls. 19)

Auk þess sem hér er lýst átti Óðinn að geta blindað óvini sína og deyft vopn þeirra, og valdið berserksgangi eigin stríðsmanna. Samkvæmt Snorra voru berserkir hans galnir, en lýsingarorðið galinn er komið af sagnorðinu gala, það er að syngja (flytja) eins konar töfrasöng. Á þann hátt stendur það í nánu samhengi við galdur. Þá gat Óðinn slökkt elda með orðum sínum einum saman og snúið vindum, jafnframt því sem hann tók hamskiptum, það er hann var fær um að taka sér líki/ham annars fólks eða dýra.


Óðinn var fjölkunnugur og gat brugðið sér í allra kvikinda líki.

Finnur Jónsson, sem skrifaði um galdur og seið undir lok 19. aldar, taldi að flestar af „seiðkindum“ hafi haft þann eiginleika að geta brugðið sér í allra kvikinda líki. Hann segir:

... þeir sem þetta gátu, hjetu alment hamhleypur, og vóru nefndir eigi einhamir, að hamast er sama sem að hleypa ham, leggja niður sinn eiginn lík-ham (líkam) og taka á sig annan. (Finnur Jónsson, bls. 21)

Hamskipti af þessu tagi, auk ógæfusendinga og spádómshæfileika – að sjá fyrir óorðna hluti – eru meðal algengustu eiginleika seiðfólks.

Samkvæmt lýsingum af seið sátu iðkendur hans, oft svonefndar völur (völvur), á þar til gerðum seiðhjalli, eða upphækkuðum palli. Sums staðar er gert ráð fyrir að völurnar og/eða raddlið þeirra, hafi farið með eða galað galdra- eða töfraþulur, samanber hinar frægu Varðlok(k)ur, sem getið er um í Eiríks sögu rauða, þar sem söngfólkið slær hring í kringum völuna. Hvort tveggja hringurinn og söngurinn hefur þá átt að hjálpa völunni að komast í einhvers konar leiðsluástand. Sumir vilja gera greinarmun á völum og seiðkonum, og telja að völurnar einbeiti sér nær eingöngu að einni hlið seiðsins, spádómunum.

Þótt seiðurinn felist fyrst og fremst í andlegri iðkun, eru dæmi um að seiðfólk notfæri sér áhöld eða hjálpargripi. Meðal slíkra gripa eru seiðstafir, í Eiríks sögu rauða segir að slíkir stafir séu lagðir steinum og málmi, og einnig seiðtrommur og dýrafeldir. Þá er seiður alloft tengdur blóti, það er dýrkun heiðinna goða, eða fórnarathöfnum tengdum henni. Stundum virðist seiður beinast gegn ákveðnum mönnum, þar sem talað er um að efla seið gegn einhverjum, eða síða að mönnum ógæfu. Seiður minnir að mörgu leyti á sjamanisma eins og hann var stundaðar meðal Sama til forna, en þó er óvarlegt að setja samansemmerki á milli þessara tveggja fornu afbrigða fjölkynngi.


Seiðfólk klæddist stundum dýrafeldum og barði bumbur.

Samkvæmt miðaldabókmenntum okkar hefur seiðfólk verið fjölskrúðugur hópur; margt af því er nafngreint, en líklega eru enn fleiri ónafngreindir. Af þekktu seiðfólki má nefna Heiði í Völuspá, Þorbjörgu lítilvölvu í Eiríks sögu rauða, Gunnhildi drottningu í Egils sögu, Heiði og Skuld drottningu í Hrólfs sögu kraka og Þorgrím nef í Gísla sögu Súrssonar.

Eins og fram kom hér að ofan segir Snorri seiðinn vera kvennaíþrótt, og á þar líklega við að hann hafi einkum verið framinn af konum, enda taldi hann vanagyðjuna Freyju fyrsta hafa kynnt seið fyrir ásum. Samkvæmt Fornaldarsögum Norðurlanda, sem einkum voru skráðar á 13. og 14. öld, eru karlar þó engir aukvisar þegar kemur að seiðmögnun, enda eru orðin seiðmaður og seiðkarl okkur vel kunn, ekki síður en seiðkona eða seiðkerling.

Að jafnaði virðist hafa verið borin virðing fyrir seiðkonum, að minnsta kosti völunum, þótt að vísu megi finna undantekningar frá þessu. Minni virðing var hins vegar borin fyrir karlmönnum sem iðkuðu seið, samanber tilvitnuð orð Snorra um ergi. Þá felur „starfsheitið“ seiðskratti í sér niðrandi merkingu. Orðið er, svo vitað sé, fyrst notað um hinn fjölkunnuga Þorgrím nef í Gísla sögu Súrssonar, sem varðveitt er í handritum frá 14. öld og síðar. Orðið skratti kemur þó einnig fyrir eitt og sér – hér og í skyldum tungumálum – í merkingunni galdrakarl. Seiðskratti merkir samkvæmt því „seiðgaldrakarl“.

Heimildir og myndir

  • Dillmann, François-Xavier. „Seiður og Shamanismi í Íslendingasögum.“ Skáldskaparmál 2, 1992.
  • Finnur Jónsson. „Um galdra, seið, seiðmenn og völur.“ Þrjár ritgjörðir, sendar og tileinkaðar herra Páli Melsteð ... Finnur Jónsson, Valtýr Guðmundsson og Bogi Th. Melsteð. Kaupmannahöfn, 1892.
  • Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000.
  • Strömbäck, Dag. Sejd. Levin & Munksgaard, København, 1935.
  • Ynglinga saga. Heimskringla I. Íslenzk fornrit XXVI. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1941.
  • Fyrri myndin er af Jan P. Krasny: SFGallery.
  • Seinni myndin er af The paradise2012 shamanism page.
...