Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um heimspekinginn Francis Bacon?

Geir Sigurðsson

Spyrjandi bætir við:

Hefur eitthvað verið þýtt eftir hann?

Ekkert virðist hafa verið þýtt eftir Francis Bacon á íslensku en um þennan forvitnilega heimspeking er ýmislegt að segja. Hann fæddist árið 1561 á miklum uppgangstímum í Englandi. Stjórnarfarið var stöðugt, menningin stóð í blóma og landið var á góðri leið með að verða heims- og nýlenduveldi. Eins og margir hugsuðir endurreisnarinnar hafði Bacon ástríðufullan áhuga á vísindum og þróun þeirra, og var fyrstur til að benda á hinar gífurlegu breytingar sem uppgötvun áttavitans, byssupúðursins og prentlistarinnar höfðu í för með sér fyrir evrópsk samfélög. Það sem auðkenndi hann sérstaklega var hversu mikla áherslu hann lagði á hagnýtingu vísindanna og hversu lítinn áhuga hann sýndi frumspekilegum vangaveltum um eðli Guðs, heims og manna.

Lífshlaup Bacons er á margan hátt áhugavert. Hann átti í megnustu erfiðleikum með að gera upp við sig hvort hann ætti að helga líf sitt stjórnmálum eða heimspeki. Sjálfur taldi hann sig þó geta gert samfélaginu meira gagn sem stjórnmálamaður. Eftir að hafa útskrifast með lagapróf úr Cambridge-háskóla aðeins 14 ára gamall eyddi hann nokkrum árum í París en hélt svo aftur til Englands og komst þá á þing. Hann reis til mikilla metorða á vettvangi stjórnmála og gegndi fjölmörgum mikilvægum embættum fyrir ensku krúnuna. Samtímis reyndi hann að ástunda vísindi og heimspeki en eins og geta má nærri gafst honum lítill tími til slíkrar iðju. Honum tókst þó að finna tíma til þess síðustu æviár sín. Árið 1621 var hann nefnilega ásakaður fyrir spillingu og mútuþægni og í kjölfarið vikið úr embætti. Þá dró hann sig í hlé og helgaði sig ritstörfum þar til hann lést árið 1626.


Francis Bacon (f. 1561, d. 1626).

Bacon var sporgöngumaður hinnar svokölluðu bresku reynsluhyggju eða raunhyggju um öflun þekkingar sem átti eftir að vera og er enn ráðandi viðhorf á meðal vísindamanna og fjölmargra, einkum breskra, heimspekinga. Á ensku heitir þessi stefna empiricism og er orðið dregið af gríska orðinu empeiros sem merkir að „hafa reynslu“ eða „vera reyndur“. Raunhyggjan er að vissu leyti afsprengi nafnhyggju (e. nominalism) miðalda sem lagði áherslu á að hið eina sem sé raunverulega til séu hinir einstöku efnislegu hlutir sem fólk skynjar og getur haft reynslu af. Raunhyggjan er nánari útlistun þessa viðhorfs. Samkvæmt henni ber að leita vísindalegrar þekkingar með rannsóknum á hinum skynjanlega veruleika.

Heimspeki Bacons er mjög víðtæk en líka mjög brotakennd. Hann setti markið hátt, kannski of hátt, og fyrir honum vakti hvorki meira né minna en að setja fram vísindaheimspeki sem myndi hafa í för með sér algera endurnýjun vísindanna í heild. Þessu verki tókst honum ekki að ljúka. En þó gerði hann kröfur um vísindalega nákvæmni og kerfisbindingu sem nú þykja sjálfsagður þáttur í allri vísindastarfsemi og setti fram ýmsar framsýnar hugmyndir um aðferðir og markmið vísindanna. Hann stakk til dæmis upp á því að sett yrði á stofn eins konar alþjóðleg vísindastofnun sem safnaði saman niðurstöðum vísindamanna um heim allan. Auk þess lagði hann áherslu á að einstakar vísindagreinar þyrftu á heimspeki að halda til að skýra markmið vísindagreinanna sjálfra. Þetta gætu þær ekki sjálfar gert: „Það er ekki hægt að ljúka kapphlaupi með góðu móti þegar sjálft endamarkið er óljóst.“

Bacon beitti gjarnan skemmtilegum myndlíkingum til að skýra hvað hann átti við. Til dæmis líkti hann aðferðum vísindanna við hegðun skordýra. Hann gagnrýndi suma vísindamenn fyrir að hegða sér annað hvort eins og maurar eða köngulær.

Maurar safna saman alls kyns dóti, nánast hverju sem er, og skella því svo saman í hrúgu til að mynda mauraþúfu. Þessa óreiðukenndu leið sagði Bacon minna á aðferðir flestra vísindamanna á hans tíma sem einfaldlega söfnuðu saman alls kyns vitneskju og dembdu henni svo saman í óskipulega heild eða hrúgu. Þessa aðferð taldi hann með öllu óhæfa því hún útilokar kerfisbundna yfirsýn yfir vísindalega þekkingu.


Frumspekilegar kenningar eru eins og köngulóarvefur: Fallegar á að líta en í litlum tengslum við veruleikann.

Hvað þá um köngulærnar? Köngulær eru raunar mjög kerfisbundnar og vandvirkar. Þær spinna gullfallegan og reglulegan vef. Vandinn er hins vegar sá að vefurinn er í afar litlum tengslum við veruleikann, heldur tengist honum aðeins á örfáum stöðum (veggjum, trjágreinum, grindverkum, o.s.frv.). Köngulær eru þannig eins og frumspekingar sem smíða flóknar og flottar kenningar án þess að hafa gert neinar rannsóknir á veruleikanum. Slík vísindi, sagði Bacon, eru gagnslaus.

Fyrirmynd vísindamanna í skordýraheiminum, sagði Bacon, ættu að vera býflugur. Býflugnabú eru mjög reglulega byggð og samsett úr fjölda lítilla hólfa. Einmitt þannig ættu vísindamenn að standa að uppbyggingu vísindanna: Kerfisbundið, reglulega og með skýrum og aðgreindum hólfum.

Myndir

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

17.1.2006

Spyrjandi

Örn Wíborg Úlriksson

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hvað getið þið sagt mér um heimspekinginn Francis Bacon?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2006. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5570.

Geir Sigurðsson. (2006, 17. janúar). Hvað getið þið sagt mér um heimspekinginn Francis Bacon? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5570

Geir Sigurðsson. „Hvað getið þið sagt mér um heimspekinginn Francis Bacon?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2006. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5570>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um heimspekinginn Francis Bacon?
Spyrjandi bætir við:

Hefur eitthvað verið þýtt eftir hann?

Ekkert virðist hafa verið þýtt eftir Francis Bacon á íslensku en um þennan forvitnilega heimspeking er ýmislegt að segja. Hann fæddist árið 1561 á miklum uppgangstímum í Englandi. Stjórnarfarið var stöðugt, menningin stóð í blóma og landið var á góðri leið með að verða heims- og nýlenduveldi. Eins og margir hugsuðir endurreisnarinnar hafði Bacon ástríðufullan áhuga á vísindum og þróun þeirra, og var fyrstur til að benda á hinar gífurlegu breytingar sem uppgötvun áttavitans, byssupúðursins og prentlistarinnar höfðu í för með sér fyrir evrópsk samfélög. Það sem auðkenndi hann sérstaklega var hversu mikla áherslu hann lagði á hagnýtingu vísindanna og hversu lítinn áhuga hann sýndi frumspekilegum vangaveltum um eðli Guðs, heims og manna.

Lífshlaup Bacons er á margan hátt áhugavert. Hann átti í megnustu erfiðleikum með að gera upp við sig hvort hann ætti að helga líf sitt stjórnmálum eða heimspeki. Sjálfur taldi hann sig þó geta gert samfélaginu meira gagn sem stjórnmálamaður. Eftir að hafa útskrifast með lagapróf úr Cambridge-háskóla aðeins 14 ára gamall eyddi hann nokkrum árum í París en hélt svo aftur til Englands og komst þá á þing. Hann reis til mikilla metorða á vettvangi stjórnmála og gegndi fjölmörgum mikilvægum embættum fyrir ensku krúnuna. Samtímis reyndi hann að ástunda vísindi og heimspeki en eins og geta má nærri gafst honum lítill tími til slíkrar iðju. Honum tókst þó að finna tíma til þess síðustu æviár sín. Árið 1621 var hann nefnilega ásakaður fyrir spillingu og mútuþægni og í kjölfarið vikið úr embætti. Þá dró hann sig í hlé og helgaði sig ritstörfum þar til hann lést árið 1626.


Francis Bacon (f. 1561, d. 1626).

Bacon var sporgöngumaður hinnar svokölluðu bresku reynsluhyggju eða raunhyggju um öflun þekkingar sem átti eftir að vera og er enn ráðandi viðhorf á meðal vísindamanna og fjölmargra, einkum breskra, heimspekinga. Á ensku heitir þessi stefna empiricism og er orðið dregið af gríska orðinu empeiros sem merkir að „hafa reynslu“ eða „vera reyndur“. Raunhyggjan er að vissu leyti afsprengi nafnhyggju (e. nominalism) miðalda sem lagði áherslu á að hið eina sem sé raunverulega til séu hinir einstöku efnislegu hlutir sem fólk skynjar og getur haft reynslu af. Raunhyggjan er nánari útlistun þessa viðhorfs. Samkvæmt henni ber að leita vísindalegrar þekkingar með rannsóknum á hinum skynjanlega veruleika.

Heimspeki Bacons er mjög víðtæk en líka mjög brotakennd. Hann setti markið hátt, kannski of hátt, og fyrir honum vakti hvorki meira né minna en að setja fram vísindaheimspeki sem myndi hafa í för með sér algera endurnýjun vísindanna í heild. Þessu verki tókst honum ekki að ljúka. En þó gerði hann kröfur um vísindalega nákvæmni og kerfisbindingu sem nú þykja sjálfsagður þáttur í allri vísindastarfsemi og setti fram ýmsar framsýnar hugmyndir um aðferðir og markmið vísindanna. Hann stakk til dæmis upp á því að sett yrði á stofn eins konar alþjóðleg vísindastofnun sem safnaði saman niðurstöðum vísindamanna um heim allan. Auk þess lagði hann áherslu á að einstakar vísindagreinar þyrftu á heimspeki að halda til að skýra markmið vísindagreinanna sjálfra. Þetta gætu þær ekki sjálfar gert: „Það er ekki hægt að ljúka kapphlaupi með góðu móti þegar sjálft endamarkið er óljóst.“

Bacon beitti gjarnan skemmtilegum myndlíkingum til að skýra hvað hann átti við. Til dæmis líkti hann aðferðum vísindanna við hegðun skordýra. Hann gagnrýndi suma vísindamenn fyrir að hegða sér annað hvort eins og maurar eða köngulær.

Maurar safna saman alls kyns dóti, nánast hverju sem er, og skella því svo saman í hrúgu til að mynda mauraþúfu. Þessa óreiðukenndu leið sagði Bacon minna á aðferðir flestra vísindamanna á hans tíma sem einfaldlega söfnuðu saman alls kyns vitneskju og dembdu henni svo saman í óskipulega heild eða hrúgu. Þessa aðferð taldi hann með öllu óhæfa því hún útilokar kerfisbundna yfirsýn yfir vísindalega þekkingu.


Frumspekilegar kenningar eru eins og köngulóarvefur: Fallegar á að líta en í litlum tengslum við veruleikann.

Hvað þá um köngulærnar? Köngulær eru raunar mjög kerfisbundnar og vandvirkar. Þær spinna gullfallegan og reglulegan vef. Vandinn er hins vegar sá að vefurinn er í afar litlum tengslum við veruleikann, heldur tengist honum aðeins á örfáum stöðum (veggjum, trjágreinum, grindverkum, o.s.frv.). Köngulær eru þannig eins og frumspekingar sem smíða flóknar og flottar kenningar án þess að hafa gert neinar rannsóknir á veruleikanum. Slík vísindi, sagði Bacon, eru gagnslaus.

Fyrirmynd vísindamanna í skordýraheiminum, sagði Bacon, ættu að vera býflugur. Býflugnabú eru mjög reglulega byggð og samsett úr fjölda lítilla hólfa. Einmitt þannig ættu vísindamenn að standa að uppbyggingu vísindanna: Kerfisbundið, reglulega og með skýrum og aðgreindum hólfum.

Myndir

...