Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig svarað spurningu Jóns E. Jónssonar: Er guð (æðri máttarvöld) til?
Ein frægasta sönnun á tilvist Guðs, hin svokallaða verufræðilega sönnun, gerir einmitt ráð fyrir því að sé Guð til í hausnum á fólki þá hljóti hann einnig að vera til í raunveruleikanum. Þessi sönnun er einföld og glæsileg. Kjarni hennar er sá að ef Guð er hin alfullkomnasta vera sem hægt er að hugsa sér og ef hann er einungis til sem hugmynd í hausnum á fólki þá komi fram mótsögn. Mótsögnin felst í því að þá er hægt að hugsa sér fullkomnari Guð, nefnilega þann Guð sem ekki er einvörðungu til í hausnum á fólki heldur líka í veruleikanum.
Ekki er víst að lesandinn sporðrenni svona sönnun. Vera má að hann finni veilur í henni eða telji jafnvel allar sannanir fyrir tilvist Guðs markleysu. Þó hafa slíkar sannanir lengi gegnt veigamiklu hlutverki í sögu heimspekinnar, og sjaldan hefur verið eins mikið skrifað um þær og einmitt nú um stundir. Önnur ástæða þess að lesandinn sættir sig ef til vill ekki við ofangreinda sönnun er að hann kann að telja að maðurinn hafi skapað Guð í sinni mynd en ekki öfugt. Guð sé því einungis tilbúningur mannsins.
Vert er að huga að því að jafnvel þótt maðurinn hafi búið til Guð þá kann Guð að vera til í raunveruleikanum og vera öflugri en maðurinn og varanlegri í tíma og rúmi. Mennirnir hafa til dæmis búið til Reykjavík en hún er til annars staðar en í hausnum á okkur. Hún er raunveruleg, varanleg og öflugri en einstaklingarnir. Sama gildir um Internetið.
Þegar sagt er að Guð sé einungis til í hausnum á fólki er væntanlega átt við að guðshugmyndin sé blekking, nokkurs konar hugarburður. En hvað einkennir hugarburð? Eitt er að við skýrum hugarburð ekki með því að vísa á það sem hugarburðurinn er um heldur annarlegar ástæður hugarburðshafans. Hægt er að skýra hugmyndina um norn án þess að vísa á tilvist norna. Hér nægir ef til vill að vísa á kreddur, ótta og vanþekkingu fólks. Hugarburðir eru hugmyndir sem standa ekki fyrir neitt, eiga sér ekkert hlutlægt viðfang. Þessu er öfugt farið með „hlutlægar" hugmyndir. Hugmyndin um sólina verður til dæmis tæpast skýrð nema með tilvísun til sólarinnar.
Margar skýringar hafa verið settar fram á guðstrúnni sem ekki vísa á tilvist Guðs. Ein er sú að mannsbarnið sé sífellt að leita að handleiðslu föður eftir að það vex úr grasi og yfirgefur heimili foreldra sinna. Guð kemur því þá í föðurstað. Önnur skýringartilraun er sú að guðshugmyndin sé bráðabirgðalausn, tilraun til að fylla í þær eyður sem eru í þekkingarvef okkar á hverjum tíma. Maðurinn eigi erfitt með að búa við óvissu og efa, auk þess sem hann þarfnist huggunar og handleiðslu í þessum harða og miskunnarlausa heimi.
Deila má um slíkar skýringar. Mikilvægt er að átta sig á því að engin ein einföld skýring liggur að baki öllum ólíkum guðshugmyndum manna. Sumir af fróðustu og sjálfstæðustu andans mönnum þessarar aldar hafa trúað á Guð og sumir af fáfróðustu og ósjálfstæðustu mönnum sömu aldar hafa ekki trúað á Guð. Og vissulega mætti líka snúa þessum formerkjum við. Einnig er rétt að hafa hugfast að margir hugsuðir sögunnar hafa trúað á guði sem ekki báru föðurlega umhyggju fyrir mönnum og létu sig hlutskipti þeirra litlu varða.
Sjá einnig:
Svar sama höfundar við spurningunni Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?
Svar Hauks Más Helgasonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni: Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum?
Svar Bjarna Randvers Sigurvinssonar við spurningu um Erich von Däniken.
Svar Hjalta Hugasonar við spurningunni: Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?
Róbert H. Haraldsson. „Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2000, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=558.
Róbert H. Haraldsson. (2000, 21. júní). Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=558
Róbert H. Haraldsson. „Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2000. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=558>.