Sólin Sólin Rís 06:34 • sest 20:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:29 • Sest 19:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:24 • Síðdegis: 15:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:34 • sest 20:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:29 • Sest 19:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:24 • Síðdegis: 15:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?

Róbert H. Haraldsson

Upphafleg spurning var sem hér segir:
Nietzsche sagði að Guð væri dáinn; hvernig getur Guð verið dáinn ef Guð fæddist aldrei, hvernig getur eithvað dáið sem aldrei hefur öðlast líf?
Ýmsir hafa brotið heilann um þessa spurningu en tvær ólíkar forsendur kunna að liggja henni til grundvallar. Annars vegar má hugsa sér að trúaður maður undrist hvernig hægt sé að halda því fram að eitthvað eilíft og óumbreytanlegt, nefnilega Guð almáttugur, geti fæðst og dáið. Hins vegar má hugsa sér að spurt sé hvernig trúleysingi á borð við Nietzsche fái haldið því fram að eitthvað sem aldrei hefur verið til geti dáið. Margir heimspekingar sögunnar hefðu vafalítið áhuga á leggja fyrri spurninguna fyrir Nietzsche en spyrjandinn virðist hafa í huga seinni skilninginn og verður svarið í samræmi við það.

Eitt mögulegt svar er að ekki beri að taka setninguna „Guð er dáinn" bókstaflega líkt og staðhæfinguna „Elvis Presley er dáinn". Hún lýsi frekar breytingum sem orðið hafa á trúar- og menningarlífi Vesturlandabúa undanfarnar aldir. Því er haldið fram að á fyrri öldum hafi trúin verið lifandi hluti af menningu, heimsmynd og hversdagslífi almennings. Hugtök á borð við guðrækni, synd, blessun, köllun, himnaríki og helvíti hafi verið hluti af virkum orðaforða fólks. Nú sé öldin önnur. Við lifum á tímum afhelgunar og sífellt færri taka alvarlega hið trúarlega tungutak og siði. Í þessum skilningi sé Guð líkur dauðri myndlíkingu. Náskylt þessu svari er hitt að setningin láti í ljós þá skoðun að trúin á Guð sé dauð, fólk trúi ekki lengur á tilvist Guðs. Enn önnur algeng túlkun er að setningin hafi þá merkingu að grundvöllur allra gilda, ekki síst siðferðilegra gilda, sé brostinn. Hér kemur fram skyldleiki við fleyga setningu Dostojevskíjs, „Ef Guð er ekki til, er allt leyfilegt".

Þetta eru vafalífið algengustu túlkanir á orðum Nietzsches en ekki þær einu sem eru mögulegar eða líklegar. Eitt sem vert er að hafa í huga hér er að Kristur er sagður hafa dáið á krossinum. Sú trú sem flestir Íslendingar játa við fermingu felur þannig í sér hugmynd um krossfestan, dáinn og upprisinn mannguð. Í því samhengi þarf setning Nietzsches ef til vill ekki að koma á óvart. Enn önnur túlkun á orðum Nietzsches er sú að setningin vísi til þess að einn Guð hafi náð þvílíkri einokunarstöðu í heimi guðanna að allir hinir guðirnir hafi liðið undir lok. Fljótt á litið virðist þessi hugmynd ekki fela í sér dauða Guðs heldur þvert á móti fæðingu eins voldugs Guðs. En ef maður leggur til grundvallar þá forsendu að guðdómurinn felist í því að til eru margir guðir en ekki bara einn þá er hægt að lýsa þessum einokunartilburðum sem dauðateygjum guðdómsins. Hinn ráðríki Guð hafi – er hann fyrirskipaði mönnum að hafa eigi aðra guði en sig – ekki aðeins eytt hinum guðunum heldur og grafið sjálfum sér gröf.

En hvað á Nietzsche sjálfur við með setningunni? Ekki er auðvelt að túlka verk Nietzsches og best að menn glími við þau af eigin mætti. Gagnlegt er að lesa fyrsta hlutann af Svo mælti Zaraþústra. Einnig er hjálplegt að rýna í Hin hýru vísindi. Ekki er ólíklegt að Nietzsche hafi einkum haft síðastnefndu túlkunina í huga og samræmist það vel annarri gagnrýni hans til dæmis á siðferði og sannleikshugtakið. Hvað sem því líður eru margar leiðir til að útleggja setninguna án þess að gera ráð fyrir því að Guð hafi bókstaflega fæðst, lifað og síðan dáið. En ekki má gleyma því að hægt er að taka setninguna bókstaflega. Ófá trúarbrögð hafa hugmyndir um fæðingu og dauða guða og goða. Við Íslendingar eigum til dæmis orðið „ragnarök", sem merkir skapadægur goðanna.

Sjá einnig:

Svar sama höfundar við spurningunni Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks?

Svar Hauks Más Helgasonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni: Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum?

Svar Bjarna Randvers Sigurvinssonar við spurningu um Erich von Däniken.

Svar Hjalta Hugasonar við spurningunni: Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?

Höfundur

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

21.6.2000

Spyrjandi

Arnar Sigurður Ellertsson, f. 1984

Efnisorð

Tilvísun

Róbert H. Haraldsson. „Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2000, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=559.

Róbert H. Haraldsson. (2000, 21. júní). Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=559

Róbert H. Haraldsson. „Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2000. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=559>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?
Upphafleg spurning var sem hér segir:

Nietzsche sagði að Guð væri dáinn; hvernig getur Guð verið dáinn ef Guð fæddist aldrei, hvernig getur eithvað dáið sem aldrei hefur öðlast líf?
Ýmsir hafa brotið heilann um þessa spurningu en tvær ólíkar forsendur kunna að liggja henni til grundvallar. Annars vegar má hugsa sér að trúaður maður undrist hvernig hægt sé að halda því fram að eitthvað eilíft og óumbreytanlegt, nefnilega Guð almáttugur, geti fæðst og dáið. Hins vegar má hugsa sér að spurt sé hvernig trúleysingi á borð við Nietzsche fái haldið því fram að eitthvað sem aldrei hefur verið til geti dáið. Margir heimspekingar sögunnar hefðu vafalítið áhuga á leggja fyrri spurninguna fyrir Nietzsche en spyrjandinn virðist hafa í huga seinni skilninginn og verður svarið í samræmi við það.

Eitt mögulegt svar er að ekki beri að taka setninguna „Guð er dáinn" bókstaflega líkt og staðhæfinguna „Elvis Presley er dáinn". Hún lýsi frekar breytingum sem orðið hafa á trúar- og menningarlífi Vesturlandabúa undanfarnar aldir. Því er haldið fram að á fyrri öldum hafi trúin verið lifandi hluti af menningu, heimsmynd og hversdagslífi almennings. Hugtök á borð við guðrækni, synd, blessun, köllun, himnaríki og helvíti hafi verið hluti af virkum orðaforða fólks. Nú sé öldin önnur. Við lifum á tímum afhelgunar og sífellt færri taka alvarlega hið trúarlega tungutak og siði. Í þessum skilningi sé Guð líkur dauðri myndlíkingu. Náskylt þessu svari er hitt að setningin láti í ljós þá skoðun að trúin á Guð sé dauð, fólk trúi ekki lengur á tilvist Guðs. Enn önnur algeng túlkun er að setningin hafi þá merkingu að grundvöllur allra gilda, ekki síst siðferðilegra gilda, sé brostinn. Hér kemur fram skyldleiki við fleyga setningu Dostojevskíjs, „Ef Guð er ekki til, er allt leyfilegt".

Þetta eru vafalífið algengustu túlkanir á orðum Nietzsches en ekki þær einu sem eru mögulegar eða líklegar. Eitt sem vert er að hafa í huga hér er að Kristur er sagður hafa dáið á krossinum. Sú trú sem flestir Íslendingar játa við fermingu felur þannig í sér hugmynd um krossfestan, dáinn og upprisinn mannguð. Í því samhengi þarf setning Nietzsches ef til vill ekki að koma á óvart. Enn önnur túlkun á orðum Nietzsches er sú að setningin vísi til þess að einn Guð hafi náð þvílíkri einokunarstöðu í heimi guðanna að allir hinir guðirnir hafi liðið undir lok. Fljótt á litið virðist þessi hugmynd ekki fela í sér dauða Guðs heldur þvert á móti fæðingu eins voldugs Guðs. En ef maður leggur til grundvallar þá forsendu að guðdómurinn felist í því að til eru margir guðir en ekki bara einn þá er hægt að lýsa þessum einokunartilburðum sem dauðateygjum guðdómsins. Hinn ráðríki Guð hafi – er hann fyrirskipaði mönnum að hafa eigi aðra guði en sig – ekki aðeins eytt hinum guðunum heldur og grafið sjálfum sér gröf.

En hvað á Nietzsche sjálfur við með setningunni? Ekki er auðvelt að túlka verk Nietzsches og best að menn glími við þau af eigin mætti. Gagnlegt er að lesa fyrsta hlutann af Svo mælti Zaraþústra. Einnig er hjálplegt að rýna í Hin hýru vísindi. Ekki er ólíklegt að Nietzsche hafi einkum haft síðastnefndu túlkunina í huga og samræmist það vel annarri gagnrýni hans til dæmis á siðferði og sannleikshugtakið. Hvað sem því líður eru margar leiðir til að útleggja setninguna án þess að gera ráð fyrir því að Guð hafi bókstaflega fæðst, lifað og síðan dáið. En ekki má gleyma því að hægt er að taka setninguna bókstaflega. Ófá trúarbrögð hafa hugmyndir um fæðingu og dauða guða og goða. Við Íslendingar eigum til dæmis orðið „ragnarök", sem merkir skapadægur goðanna.

Sjá einnig:

Svar sama höfundar við spurningunni Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks?

Svar Hauks Más Helgasonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni: Skapaði Guð mennina eða urðu þeir til af öpum?

Svar Bjarna Randvers Sigurvinssonar við spurningu um Erich von Däniken.

Svar Hjalta Hugasonar við spurningunni: Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?...