Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi?

Rúnar Helgi Andrason og Engilbert Sigurðsson

Við þekkjum öll að lundin getur verið breytileg frá einum tíma til annars. Stundum liggur illa á okkur og við finnum til leiða og jafnvel depurðar. Slík tímabundin niðursveifla er í flestum tilfellum eðlileg. Fari sveiflurnar hins vegar að ganga út fyrir ákveðin mörk og fara að hafa áhrif á daglegt líf dögum eða vikum saman er líklegt að um sjúklegt ástand sé að ræða. Slíkt gerist hjá einstaklingum sem eiga við þunglyndi að stríða.

Þunglyndi felur þó ekki einungis í sér dapra lund heldur einnig ýmsar breytingar á hugsun, hegðun og líkamsheilsu. Eftir því sem einkennin verða fleiri og tíðari hafa þau snarari áhrif á daglegt líf. Þunglyndi eykur líkur á vinnutapi, erfiðleikum í samböndum og skipbroti í námi eða vinnu. Það gerir horfur þeirra sem eiga við líkamleg veikindi að etja verri (öll endurhæfing verður til dæmis erfiðari) og ýtir oft undir ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Hætta á ofnotkun verkjalyfja, svefnlyfja og róandi lyfja eykst einnig.

Þótt einkenni þunglyndis séu margvísleg og að vissu marki einstaklingsbundin má greina þau í nokkra meginflokka:

Breytt atferli: Þunglyndir kvarta oft um ýmislegt, til dæmis um peningaleysi, vinnuna, hávaða, umhverfið, einsemd, skort á ást og umhyggju og verri einbeitingu en áður. Einnig verða þeir óvirkir; draga gjarnan úr samskiptum við aðra, mæta verr í vinnu, eiga í erfiðleikum með að tjá sig og tala við aðra, hafa tilhneigingu til þess að liggja fyrir uppi í rúmi, kynlífslöngun minnkar og þeir vanrækja eigið útlit. Lítil ánægja fer að fylgja því sem áður var gaman. Þá eru sjálfsvígshótanir og sjálfsvígstilraunir einnig nokkuð algengar hjá einstaklingum með þunglyndi, einkum ef þeir sem eiga í hlut neyta áfengis eða annarra vímugjafa reglulega. Sjálfsvígshugsanir eru mjög algengar í langvinnu eða alvarlegu þunglyndi og endurspegla iðulega vonleysi og/eða sektarkennd. Stundum eru slíkar hótanir þó einkum til marks um reiði í garð ættingja og vina.

Breytt tilfinningaviðbrögð: Þeir sem stríða við þunglyndi finna oft fyrir tómleika og depurð. Sumir upplifa frekar dofnar tilfinningar en aðrir finna sárari og áleitnari tilfinningar en áður. Þreyta er algeng, einnig kvíði, spenna, eirðarleysi, leiði, áhugaleysi, aukin sektarkennd, vantraust á eigin getu, aukin viðkvæmni og tíðari grátur en áður.

Skert hæfni: Við þunglyndi skerðist félagshæfni, fólk hefur minna skopskyn en áður, verri skipulagshæfni og minnkaða getu til þess að leysa vandamál daglegs lífs.

Breytt viðhorf: Þunglyndi einkennist af lakara sjálfstrausti, neikvæðari sjálfsmynd, svartsýni, vonleysi og hjálparleysi. Fólk á von á hinu versta, ásakar sjálft sig og gagnrýnir sig, og sjálfsvígshugsanir geta skotið upp kollinum. Algengt er að finnast sem aðrir hafi yfirgefið mann eða séu að gefast upp á samskiptum við mann. Þessu fylgir minnkaður áhugi á samskiptum við aðra, kynlífi, mat, drykk, tónlist og hverju því sem venjulega vekur áhuga fólks.

Líkamleg einkenni: Þunglynt fólk á oft í erfiðleikum með svefn; það á erfitt með að sofna, sefur of mikið eða vaknar of snemma. Kynhvöt minnkar, matarlyst breytist (getur bæði aukist og minnkað), fólk þyngist eða léttist, fær meltingartruflanir, hægðatregðu, höfuðverki, svima, sársauka og aðra álíka kvilla eða einkenni.

Eins og lesanda er væntanlega ljóst eru þær margvíslegu breytingar sem lýst er hér að ofan hamlandi á öllu sviðum mannlegs lífs og leiða iðulega af sér ómældar þjáningar hins veika og hans nánustu. Það er því mikilvægt að þunglyndir leiti sér hjálpar, til að mynda hjá klínískum sálfræðingum eða geðlæknum, til að vinna bug á meinum sínum.


Þetta svar er stytt og örlítið breytt útgáfa greinar sem birtist upphaflega á vefsetrinu Persóna.is, og birtist hér með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Hægt er að nálgast heildarútgáfu greinarinnar hér.


Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

Höfundar

sálfræðingur

Engilbert Sigurðsson

prófessor í geðlæknisfræði við HÍ og yfirlæknir á LSH

Útgáfudagur

27.1.2006

Spyrjandi

Andri Andrason

Tilvísun

Rúnar Helgi Andrason og Engilbert Sigurðsson. „Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2006. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5595.

Rúnar Helgi Andrason og Engilbert Sigurðsson. (2006, 27. janúar). Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5595

Rúnar Helgi Andrason og Engilbert Sigurðsson. „Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2006. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5595>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er hin almenna skilgreining á þunglyndi?
Við þekkjum öll að lundin getur verið breytileg frá einum tíma til annars. Stundum liggur illa á okkur og við finnum til leiða og jafnvel depurðar. Slík tímabundin niðursveifla er í flestum tilfellum eðlileg. Fari sveiflurnar hins vegar að ganga út fyrir ákveðin mörk og fara að hafa áhrif á daglegt líf dögum eða vikum saman er líklegt að um sjúklegt ástand sé að ræða. Slíkt gerist hjá einstaklingum sem eiga við þunglyndi að stríða.

Þunglyndi felur þó ekki einungis í sér dapra lund heldur einnig ýmsar breytingar á hugsun, hegðun og líkamsheilsu. Eftir því sem einkennin verða fleiri og tíðari hafa þau snarari áhrif á daglegt líf. Þunglyndi eykur líkur á vinnutapi, erfiðleikum í samböndum og skipbroti í námi eða vinnu. Það gerir horfur þeirra sem eiga við líkamleg veikindi að etja verri (öll endurhæfing verður til dæmis erfiðari) og ýtir oft undir ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Hætta á ofnotkun verkjalyfja, svefnlyfja og róandi lyfja eykst einnig.

Þótt einkenni þunglyndis séu margvísleg og að vissu marki einstaklingsbundin má greina þau í nokkra meginflokka:

Breytt atferli: Þunglyndir kvarta oft um ýmislegt, til dæmis um peningaleysi, vinnuna, hávaða, umhverfið, einsemd, skort á ást og umhyggju og verri einbeitingu en áður. Einnig verða þeir óvirkir; draga gjarnan úr samskiptum við aðra, mæta verr í vinnu, eiga í erfiðleikum með að tjá sig og tala við aðra, hafa tilhneigingu til þess að liggja fyrir uppi í rúmi, kynlífslöngun minnkar og þeir vanrækja eigið útlit. Lítil ánægja fer að fylgja því sem áður var gaman. Þá eru sjálfsvígshótanir og sjálfsvígstilraunir einnig nokkuð algengar hjá einstaklingum með þunglyndi, einkum ef þeir sem eiga í hlut neyta áfengis eða annarra vímugjafa reglulega. Sjálfsvígshugsanir eru mjög algengar í langvinnu eða alvarlegu þunglyndi og endurspegla iðulega vonleysi og/eða sektarkennd. Stundum eru slíkar hótanir þó einkum til marks um reiði í garð ættingja og vina.

Breytt tilfinningaviðbrögð: Þeir sem stríða við þunglyndi finna oft fyrir tómleika og depurð. Sumir upplifa frekar dofnar tilfinningar en aðrir finna sárari og áleitnari tilfinningar en áður. Þreyta er algeng, einnig kvíði, spenna, eirðarleysi, leiði, áhugaleysi, aukin sektarkennd, vantraust á eigin getu, aukin viðkvæmni og tíðari grátur en áður.

Skert hæfni: Við þunglyndi skerðist félagshæfni, fólk hefur minna skopskyn en áður, verri skipulagshæfni og minnkaða getu til þess að leysa vandamál daglegs lífs.

Breytt viðhorf: Þunglyndi einkennist af lakara sjálfstrausti, neikvæðari sjálfsmynd, svartsýni, vonleysi og hjálparleysi. Fólk á von á hinu versta, ásakar sjálft sig og gagnrýnir sig, og sjálfsvígshugsanir geta skotið upp kollinum. Algengt er að finnast sem aðrir hafi yfirgefið mann eða séu að gefast upp á samskiptum við mann. Þessu fylgir minnkaður áhugi á samskiptum við aðra, kynlífi, mat, drykk, tónlist og hverju því sem venjulega vekur áhuga fólks.

Líkamleg einkenni: Þunglynt fólk á oft í erfiðleikum með svefn; það á erfitt með að sofna, sefur of mikið eða vaknar of snemma. Kynhvöt minnkar, matarlyst breytist (getur bæði aukist og minnkað), fólk þyngist eða léttist, fær meltingartruflanir, hægðatregðu, höfuðverki, svima, sársauka og aðra álíka kvilla eða einkenni.

Eins og lesanda er væntanlega ljóst eru þær margvíslegu breytingar sem lýst er hér að ofan hamlandi á öllu sviðum mannlegs lífs og leiða iðulega af sér ómældar þjáningar hins veika og hans nánustu. Það er því mikilvægt að þunglyndir leiti sér hjálpar, til að mynda hjá klínískum sálfræðingum eða geðlæknum, til að vinna bug á meinum sínum.


Þetta svar er stytt og örlítið breytt útgáfa greinar sem birtist upphaflega á vefsetrinu Persóna.is, og birtist hér með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Hægt er að nálgast heildarútgáfu greinarinnar hér.


Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

...