Margir hafa gert að umtalsefni örar samfélagsbreytingar nútímans, upplýsingatækni í skólastarfi, upplýsingaöldina og menntun á 21. öldinni. Hvernig má búast við að menntun breytist á næstu árum eða áratugum og hvaða áhrif gætu þær breytingar haft á kennslu og nám?
Í fyrsta lagi mun nemendum fjölga í skólum; í háskólum og hvers konar framhaldsnámi jafnt sem símenntun. Þar með má reikna með að hæfni og áhugasvið nemenda í skóla verði breiðara en verið hefur til þessa þar sem stærri hluti þegna samfélagsins verður í skóla. Gera má ráð fyrir að námsmenn vilji eiga kost á sveigjanleika í námi, að þeir muni reikna með að geta nýtt sér upplýsingatækni í því skyni og að þeir geri miklar kröfur jafnt til kennara sinna og námsins sjálfs. Foreldrar eru líklegir til að gera kröfur fyrir hönd barna sinna í auknum mæli. Námsmennirnir munu ef að líkum lætur lifa í samfélagi sem gerir kröfur um mikla færni jafnt sem þekkingu og alþjóðasamfélagi sem stjórnast að miklu leyti af hnattvæðingu og markaðshagsmunum. Sumt er þegar vitað að verði miklsvægt, svo sem að kunna að nýta sér upplýsingatækni og að geta unnið með öðru fólki.

Skólar munu leggja mikla áherslu á upplýsingatækni.
Þær breytingar sem hér hafa verið reifaðar gera miklar kröfur til kennara og þeir þurfa góða menntun til að standa undir þeim kröfum. Þeir þurfa í auknum mæli að vera færir um að vinna teymisvinnu sem snertir hvers konar inntak og skipulag náms og geta notað til þess margs konar miðla. Forystu og sýn sem ræður stefnu í menntamálum, sérstaklega hvað varðar stefnumörkun, þyrfti að dreifa á margar menntastofnanir; þar þyrftu kennarar að gegna lykilhlutverki. Þróun skólans sem stofnunar verður mikilvæg.
Niðurstöður menntarannsókna, nýjar stefnur í menntamálum og ný tækni leiða ekki sjálfkrafa til þess að kennarar og skólar breytist. Rannsóknir á breytingum benda til þess að kennarar breyti ekki svo glatt hefðbundnum kennsluháttum og taki upp nýja ef nýjungarnar eru ekki í samræmi við reynslu þeirra og trú á hvað reynist vel í skólastarfi.
Það sem er og hefur lengi virkað í skólum er að kenna eftir stundatöflu þar sem námsefninu er skipað niður eftir námsgreinum og kennarar eru sérfræðingar hver í sinni grein. Flestir kenna heilum bekkjum og geta þannig stjórnað námsframvindunni. Færnismiðuð nálgun sem leggur áherslu á einstaklingsmiðaðar þarfir kallar á annars konar námskrá, öðruvísi kennsluaðferðir og nýjan forystustíl. Stjórnskipulagið og valdakerfi innan skólanna og samkomulag um hvað skuli kenna breyta því á hvern hátt kennarar vinna og þróast í starfi.
Að lokum komum við aftur að nemendunum sjálfum. Finna verður leiðir til að nota nýja tækni og breytta kennsluhætti til að vekja áhuga nemenda og stuðla að því að trú þeirra á eigin dug til náms eflist. Líklegt er að námsmenn framtíðarinnar muni lifa og starfa í heimi þar sem togstreita verður milli væntinga sem gerðar eru til þeirra, þar sem hagkerfið tekur örum breytingum, þar sem merking hugtaka eins og vinnu og frítíma, fjölskyldu og samfélags er breytingum undirorpin. Brýnasta markmið menntunar verður að mennta fólk sem treystir sér og hefur hæfileika til að takast á við breytileg viðfangsefni, ber virðingu fyrir öðrum og getur lagt sitt af mörkun til samfélagsins.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Getur maður einhvern tímann orðið fullmenntaður? eftir Atla Harðarson.
- Hvers vegna gengur sumum betur í námi en öðrum? eftir Erlu Kristjánsdóttur.
- Hvers vegna þurfum við að fara í skólann ef við viljum það ekki? eftir Hauk Má Helgason.
- Mynd af bókasafni er af Logoweb. UMDNJ.
- Mynd af stelpum að vinna í tölvum er af Virtual tour. Walthamstow Hall.
- Mynd af kennara og nemanda er af Purdue news. Purdue University.