Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvernig fiskar eru barrakúðar?

Jón Már Halldórsson

Barrakúðar eru fiskar af ættbálki borra (Perciformes) og tilheyra ættinni Sphyraenidae. Alls eru tegundir barrakúða um 18 og teljast þær allar til Sphyraena-ættkvíslarinnar. Kunnasta tegundin er líklega stóri barrakúði (Sphyraena barracuda), en aðrar tegundir eru til dæmis:
  • miðjarðarhafs-barrakúðinn (Sphyraena sphyraena)
  • indlandshafs-barrakúðinn (Sphyraena jello)
  • brúni barrakúðinn (Sphyraena pinguis)
  • kyrrahafs-barrakúðinn (Sphyraena argentea)
  • gulranda barrakúðinn (Sphyraena flavicauda)


Hópur svartugga barrakúða (Sphyraena qeni).

Heimkynni barrakúða eru aðallega bundin við hitabeltissjó en þó finnast nokkrar tegundir í heittempruðum sjó. Barrakúðar eru afar hraðsyndir og búa yfir geysilegri snerpu. Þeir eru kjaftstórir og í skoltinum eru fjölmargar stórar og oddhvassar tennur. Stærð þeirra er nokkuð breytileg á milli tegunda, frá tiltölulega litlum fiskum upp í allt að 180 cm langa fiska.

Barrakúðar eru fyrst og fremst fiskætur á öllum lífsstigum. Helst éta þeir tegundir á borð við ansjósur, tegundir af röndungaætt (Mugilidae) og rýtara eða ropfiska.

Eins og nafnið gefur til kynna er stóri barrakúðinn stærstur allra barrakúða. Fiskar af þessari tegund verða allt að 180 cm langir og vega að meðaltali um 40 kg. Stóri barrakúði finnst í nær öllum hitabeltissjó umhverfis jörðina, frá Indlandshafi um Kyrrahaf og í Atlantshafi. Hann hefur einnig fundist í Rauðahafinu. Nyrst er vitað um stóra barrakúða undan ströndum Massachusetts í Bandaríkjunum.

Fullorðnir barrakúðar halda aðallega til í og við kóralrif þar sem nóg er af æti. Lirfurnar og seiðin halda hins vegar til í ármynnum og árósum, oft í þangi þar sem æti er nægt og gott skjól fyrir afræningjum. Stóri barrakúði er yfirleitt einfari á fullorðinsstigum, sérstaklega á nóttunni, en vísindamenn hafa séð hann í stórum hópum yfir daginn, hundruð eða jafnvel nokkur þúsund fiska saman. Sennilega eru þeir þá að veiða saman eða mynda hóp til þess að verjast afræningjum.Stóri barrakúði (Sphyraena barracuda).

Stóri barrakúði getur reynst köfurum afar hættulegur þar sem bit hans geta verið slæm. Höfundi er þó ekki kunnugt um að stórir barrakúðar hafi orðið mönnum að bana. Reynslan sýnir að barrakúðar ráðast sjaldnast á menn af tilefnislausu heldur eru flestar árásirnar í kjölfar þess að þeim hefur verið ögrað á einhvern hátt.

Barrakúðar eru vinsælir hjá sportveiðimönnum enda eru þeir kraftmiklir og hafa mikið úthald. Víða í Bandaríkjunum er kjöt smávaxinna barrakúða borðað og þykir herramannsmatur. Neysla stórra barakúða er hins vegar ekki hættulaus vegna eitrunareinkenna sem komið geta fram. Þau geta verið allt frá flökurleika með tilheyrandi uppköstum og niðurgangi til tímabundinnar lömunar og jafnvel dauða. Ástæða þessarar eitrunar er sú að barrakúðar éta fiska sem meðal annars lifa á smáum þörungum sem geta innihaldið eitur. Eitur þetta, sem á ensku nefnist ‘ciguatoxin’, safnast fyrir í lífverum og verður sterkara eftir því sem ofar kemur í fæðukeðjuna. Vísindamenn hafa fundið út að líkur á eitrun aukast eftir því sem stóru barrakúðarnir eru stærri. Vegna hættu á þessari eitrun er ólöglegt að selja kjöt af stóra barrakúðanum.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

2.2.2006

Spyrjandi

Bjarki Þorsteinsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig fiskar eru barrakúðar?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2006. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5610.

Jón Már Halldórsson. (2006, 2. febrúar). Hvernig fiskar eru barrakúðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5610

Jón Már Halldórsson. „Hvernig fiskar eru barrakúðar?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2006. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5610>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig fiskar eru barrakúðar?
Barrakúðar eru fiskar af ættbálki borra (Perciformes) og tilheyra ættinni Sphyraenidae. Alls eru tegundir barrakúða um 18 og teljast þær allar til Sphyraena-ættkvíslarinnar. Kunnasta tegundin er líklega stóri barrakúði (Sphyraena barracuda), en aðrar tegundir eru til dæmis:

  • miðjarðarhafs-barrakúðinn (Sphyraena sphyraena)
  • indlandshafs-barrakúðinn (Sphyraena jello)
  • brúni barrakúðinn (Sphyraena pinguis)
  • kyrrahafs-barrakúðinn (Sphyraena argentea)
  • gulranda barrakúðinn (Sphyraena flavicauda)


Hópur svartugga barrakúða (Sphyraena qeni).

Heimkynni barrakúða eru aðallega bundin við hitabeltissjó en þó finnast nokkrar tegundir í heittempruðum sjó. Barrakúðar eru afar hraðsyndir og búa yfir geysilegri snerpu. Þeir eru kjaftstórir og í skoltinum eru fjölmargar stórar og oddhvassar tennur. Stærð þeirra er nokkuð breytileg á milli tegunda, frá tiltölulega litlum fiskum upp í allt að 180 cm langa fiska.

Barrakúðar eru fyrst og fremst fiskætur á öllum lífsstigum. Helst éta þeir tegundir á borð við ansjósur, tegundir af röndungaætt (Mugilidae) og rýtara eða ropfiska.

Eins og nafnið gefur til kynna er stóri barrakúðinn stærstur allra barrakúða. Fiskar af þessari tegund verða allt að 180 cm langir og vega að meðaltali um 40 kg. Stóri barrakúði finnst í nær öllum hitabeltissjó umhverfis jörðina, frá Indlandshafi um Kyrrahaf og í Atlantshafi. Hann hefur einnig fundist í Rauðahafinu. Nyrst er vitað um stóra barrakúða undan ströndum Massachusetts í Bandaríkjunum.

Fullorðnir barrakúðar halda aðallega til í og við kóralrif þar sem nóg er af æti. Lirfurnar og seiðin halda hins vegar til í ármynnum og árósum, oft í þangi þar sem æti er nægt og gott skjól fyrir afræningjum. Stóri barrakúði er yfirleitt einfari á fullorðinsstigum, sérstaklega á nóttunni, en vísindamenn hafa séð hann í stórum hópum yfir daginn, hundruð eða jafnvel nokkur þúsund fiska saman. Sennilega eru þeir þá að veiða saman eða mynda hóp til þess að verjast afræningjum.Stóri barrakúði (Sphyraena barracuda).

Stóri barrakúði getur reynst köfurum afar hættulegur þar sem bit hans geta verið slæm. Höfundi er þó ekki kunnugt um að stórir barrakúðar hafi orðið mönnum að bana. Reynslan sýnir að barrakúðar ráðast sjaldnast á menn af tilefnislausu heldur eru flestar árásirnar í kjölfar þess að þeim hefur verið ögrað á einhvern hátt.

Barrakúðar eru vinsælir hjá sportveiðimönnum enda eru þeir kraftmiklir og hafa mikið úthald. Víða í Bandaríkjunum er kjöt smávaxinna barrakúða borðað og þykir herramannsmatur. Neysla stórra barakúða er hins vegar ekki hættulaus vegna eitrunareinkenna sem komið geta fram. Þau geta verið allt frá flökurleika með tilheyrandi uppköstum og niðurgangi til tímabundinnar lömunar og jafnvel dauða. Ástæða þessarar eitrunar er sú að barrakúðar éta fiska sem meðal annars lifa á smáum þörungum sem geta innihaldið eitur. Eitur þetta, sem á ensku nefnist ‘ciguatoxin’, safnast fyrir í lífverum og verður sterkara eftir því sem ofar kemur í fæðukeðjuna. Vísindamenn hafa fundið út að líkur á eitrun aukast eftir því sem stóru barrakúðarnir eru stærri. Vegna hættu á þessari eitrun er ólöglegt að selja kjöt af stóra barrakúðanum.

Heimildir og myndir:...