Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju falla snjóflóð?

Harpa Grímsdóttir

Aðrir spyrjendur eru:
Pálmi Þorgeir Jóhannsson, Hjalti Snær, Hákon Gunnarsson, Ingibjörg Egilsdóttir, Eva Sandra og Unnur Rún Sveinsdóttir.

Snjóflóðum er gjarnan skipt í tvo flokka: Lausasnjóflóð og flekaflóð. Bæði lausa- og flekaflóð orsakast af því að skerspenna (tog undan halla samsíða hlíðinni vegna þyngdarafls) er nálægt því að vera jöfn eða meiri en skerstyrkurinn í snjónum. Snjór bregst við spennu með því að aflagast. Ef spennan verður of mikil og aflögunin of hröð brestur hann. Skerstyrkurinn ræðst aðallega af samloðun og núningsmótstöðu.

Lausasnjóflóð byrja nálægt yfirborði í einum punkti eða á litlu svæði og dreifa úr sér og mynda nokkurs konar blævæng þegar snjórinn fellur niður hlíðina. Laus snjór einkennist af lítilli samloðun og lausasnjóflóð geta verið bæði vot og þurr. Þau eru oftast lítil, en vot lausasnjóflóð geta þó stundum orðið töluvert stór. Grundvallarforsendur eru þær að halli lands sé yfir þeim mörkum sem eru nauðsynleg til að snjórinn komist á hreyfingu. Það fer eftir gerð snævarins hver þessi mörk eru. Lausasnjóflóð fara oftast af stað vegna þess að lítil samloðun verður í snjónum á ákveðnu svæði vegna myndbreytingar snjókristalla, eða fyrir áhrif sólar eða rigningar. Í blautum snjó eru kristallarnir umflotnir vatni og samloðun því lítil.

Flekaflóð eru alla jafna mun hættulegri en lausasnjóflóð og langflest þeirra flóða sem hafa valdið slysum og tjóni hér á Íslandi hafa verið flekaflóð. Snjóþekjan samanstendur venjulega af mismunandi lögum vegna þess að þegar snjór fellur hafa veðurþættir eins og vindstyrkur, vindátt og hiti áhrif á eiginleika lagsins sem snjókornin mynda. Snjóþekjan heldur síðan áfram að þróast, hún sígur og þéttist og kristallarnir ummyndast. Veður getur einnig haft áhrif á efsta lag snjóþekjunnar. Til dæmis geta vaxið kristallar sem kallast yfirborðshrím ofan á snjóþekjunni á köldum og heiðskírum nóttum. Ef hiti fer yfir frostmark í einhvern tíma og síðan frýs aftur, myndast gjarnan skaralag.



Snjóflóð í Bow Summit í Banff þjóðgarðinum í Kanada.

Snjófleki er snjólag með hlutfallslega mikla samloðun með veikara lagi undir. Snjófleki verður að flekaflóði ef stykki brotnar úr flekanum og slitnar frá undirlaginu. Þá myndast svokallað brotstál efst þar sem flekinn brotnaði frá snjónum sem ekki fór af stað. Flekaflóð eru því tengd mikilli samloðun, en lausasnjóflóð lítilli.

Flekaflóð eiga sér venjulega upptök í 25°-55° halla. Ef halli er minni en 25° er skerspennan og skeraflögunin ekki næg til að flekinn bresti. Í brattari brekkum (>55°) myndast yfirleitt ekki fleki heldur hrynur snjórinn niður í kögglum og litlum lausasnjóflóðum.

Til þess að flekaflóð fari af stað þarf skerspennan að nálgast skerstyrkinn í veika laginu og aflögunin þarf að vera nægilega hröð til að lagið bresti.

Náttúruleg orsök snjóflóða getur verið hröð þyngdaraukning, til dæmis vegna mikillar úrkomu eða skafrennings. Þá verður aflögun í snjónum svo hröð að hann nær ekki að jafna sig og brestur. Önnur algeng náttúruleg orsök er skyndileg aukning á vatnsinnihaldi vegna bráðnunar í hlýindum eða mikilli rigningu en þá getur samloðunin í veika laginu minnkað skyndilega.

Snjóflóð geta einnig farið af stað af mannavöldum. Flest snjóflóðaóhöpp í óbyggðum verða vegna þess að göngu-, skíða- eða vélsleðamenn koma af stað flekaflóði. Þegar þungi manns eða vélsleða nær að aflaga snjófleka þannig að það hafi áhrif á veika lagið fyrir neðan getur það hrunið saman á stóru svæði, og flekinn brotnað frá þar sem hann er veikastur fyrir. Þess vegna geta menn komið af stað snjóflóði töluvert fyrir ofan staðinn sem þeir eru staddir á.

Til gamans má geta þess að hljóð (til dæmis í þyrlum, flugvélum eða vélsleðum) getur ekki komið af stað snjóflóði, öfugt við það sem oft er haldið fram.

Heimild og myndir:
  • Dave McClung og Peter Schaerer, 1993: The Avalanche Handbook, Seattle, Bandaríkin.
  • The Banff Centre - ljósmyndari Clair Israelson

Höfundur

Harpa Grímsdóttir

forstöðumaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands

Útgáfudagur

10.2.2006

Spyrjandi

Baldvin Jóhannsson

Tilvísun

Harpa Grímsdóttir. „Af hverju falla snjóflóð?“ Vísindavefurinn, 10. febrúar 2006, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5635.

Harpa Grímsdóttir. (2006, 10. febrúar). Af hverju falla snjóflóð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5635

Harpa Grímsdóttir. „Af hverju falla snjóflóð?“ Vísindavefurinn. 10. feb. 2006. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5635>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju falla snjóflóð?
Aðrir spyrjendur eru:

Pálmi Þorgeir Jóhannsson, Hjalti Snær, Hákon Gunnarsson, Ingibjörg Egilsdóttir, Eva Sandra og Unnur Rún Sveinsdóttir.

Snjóflóðum er gjarnan skipt í tvo flokka: Lausasnjóflóð og flekaflóð. Bæði lausa- og flekaflóð orsakast af því að skerspenna (tog undan halla samsíða hlíðinni vegna þyngdarafls) er nálægt því að vera jöfn eða meiri en skerstyrkurinn í snjónum. Snjór bregst við spennu með því að aflagast. Ef spennan verður of mikil og aflögunin of hröð brestur hann. Skerstyrkurinn ræðst aðallega af samloðun og núningsmótstöðu.

Lausasnjóflóð byrja nálægt yfirborði í einum punkti eða á litlu svæði og dreifa úr sér og mynda nokkurs konar blævæng þegar snjórinn fellur niður hlíðina. Laus snjór einkennist af lítilli samloðun og lausasnjóflóð geta verið bæði vot og þurr. Þau eru oftast lítil, en vot lausasnjóflóð geta þó stundum orðið töluvert stór. Grundvallarforsendur eru þær að halli lands sé yfir þeim mörkum sem eru nauðsynleg til að snjórinn komist á hreyfingu. Það fer eftir gerð snævarins hver þessi mörk eru. Lausasnjóflóð fara oftast af stað vegna þess að lítil samloðun verður í snjónum á ákveðnu svæði vegna myndbreytingar snjókristalla, eða fyrir áhrif sólar eða rigningar. Í blautum snjó eru kristallarnir umflotnir vatni og samloðun því lítil.

Flekaflóð eru alla jafna mun hættulegri en lausasnjóflóð og langflest þeirra flóða sem hafa valdið slysum og tjóni hér á Íslandi hafa verið flekaflóð. Snjóþekjan samanstendur venjulega af mismunandi lögum vegna þess að þegar snjór fellur hafa veðurþættir eins og vindstyrkur, vindátt og hiti áhrif á eiginleika lagsins sem snjókornin mynda. Snjóþekjan heldur síðan áfram að þróast, hún sígur og þéttist og kristallarnir ummyndast. Veður getur einnig haft áhrif á efsta lag snjóþekjunnar. Til dæmis geta vaxið kristallar sem kallast yfirborðshrím ofan á snjóþekjunni á köldum og heiðskírum nóttum. Ef hiti fer yfir frostmark í einhvern tíma og síðan frýs aftur, myndast gjarnan skaralag.



Snjóflóð í Bow Summit í Banff þjóðgarðinum í Kanada.

Snjófleki er snjólag með hlutfallslega mikla samloðun með veikara lagi undir. Snjófleki verður að flekaflóði ef stykki brotnar úr flekanum og slitnar frá undirlaginu. Þá myndast svokallað brotstál efst þar sem flekinn brotnaði frá snjónum sem ekki fór af stað. Flekaflóð eru því tengd mikilli samloðun, en lausasnjóflóð lítilli.

Flekaflóð eiga sér venjulega upptök í 25°-55° halla. Ef halli er minni en 25° er skerspennan og skeraflögunin ekki næg til að flekinn bresti. Í brattari brekkum (>55°) myndast yfirleitt ekki fleki heldur hrynur snjórinn niður í kögglum og litlum lausasnjóflóðum.

Til þess að flekaflóð fari af stað þarf skerspennan að nálgast skerstyrkinn í veika laginu og aflögunin þarf að vera nægilega hröð til að lagið bresti.

Náttúruleg orsök snjóflóða getur verið hröð þyngdaraukning, til dæmis vegna mikillar úrkomu eða skafrennings. Þá verður aflögun í snjónum svo hröð að hann nær ekki að jafna sig og brestur. Önnur algeng náttúruleg orsök er skyndileg aukning á vatnsinnihaldi vegna bráðnunar í hlýindum eða mikilli rigningu en þá getur samloðunin í veika laginu minnkað skyndilega.

Snjóflóð geta einnig farið af stað af mannavöldum. Flest snjóflóðaóhöpp í óbyggðum verða vegna þess að göngu-, skíða- eða vélsleðamenn koma af stað flekaflóði. Þegar þungi manns eða vélsleða nær að aflaga snjófleka þannig að það hafi áhrif á veika lagið fyrir neðan getur það hrunið saman á stóru svæði, og flekinn brotnað frá þar sem hann er veikastur fyrir. Þess vegna geta menn komið af stað snjóflóði töluvert fyrir ofan staðinn sem þeir eru staddir á.

Til gamans má geta þess að hljóð (til dæmis í þyrlum, flugvélum eða vélsleðum) getur ekki komið af stað snjóflóði, öfugt við það sem oft er haldið fram.

Heimild og myndir:
  • Dave McClung og Peter Schaerer, 1993: The Avalanche Handbook, Seattle, Bandaríkin.
  • The Banff Centre - ljósmyndari Clair Israelson
...