Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spyrjandi bætir við: „Hvar er mesta þörfin á aðstoð?“
Fátæktarstuðull er mismunandi eftir löndum en yfirleitt er talað um að fólk með afkomu undir meðallaunum í hverju landi sé fátækt (e. relative poverty). Samkvæmt útreikningum Sameinuðu þjóðanna er talið að 1,2 milljarður manna þurfi að lifa á innan við einum Bandaríkjadal á dag og búi því við sárafátækt ef miðað er við skilgreiningu Alþjóðabankans. Þeir sem lifa á einum til tveimur Bandaríkjadölum á dag eru sagðir búa við miðlungsfátækt (e. moderate poverty).
Samkvæmt skilgreiningunni hefur sárafátækt fólk ekki ráð á grundvallarnauðsynjum til að tryggja afkomu sína. Miðlungsfátækir geta rétt svo mætt grundvallarþörfum fjölskyldunnar en verða að neita sér um aðra hluti eins og menntun barna og heilsugæslu, nokkuð sem okkur á Íslandi þykir sjálfsögð mannréttindi. Við slíkar aðstæður má ekkert fara úr skorðum til að það ógni ekki lífsafkomu einstaklinganna.
Á hverju ári deyja yfir átta milljónir manna um allan heim vegna fátæktar og á hverju kvöldi fara jafn margir að sofa með tóman maga.
Allt of margir hafa hvorki í sig né á.
Ef maður tæki frá tíu krónur á dag þá jafngilti það 3.650 krónum á ári. Einn Bandaríkjadalur er í dag (febrúar 2006) um 63 krónur og því gæfi maður um það bil 58 Bandaríkjadali á ári. Þó svo að tíu krónur séu ekki mikill peningur er þetta upphæð sem skipti máli fyrir fátæka, sérstaklega þá sem verst eru settir. Samkvæmt skilgreiningunni að ofan myndi þessi upphæð ef til vill gera sárafátækum kleift að mæta grundvallarþörfum til að lifa af, svo framarlega sem ekki komi upp veikindi eða annars konar áföll.
Langflestir íbúar jarðarinnar búa í þróunarlöndum, eða rúmlega 4,7 milljarðar manna sem er um það bil 72% af heildarmannfjölda heimsins. Þróunarlönd eru hins vegar afar ólík að stærð og gerð og erfitt að skilgreina í stuttu máli hvar þörfin er mest. Fátækt er samt útbreiddust í sunnanverðri Afríku, og ólíkt Asíu og Suður-Ameríku hefur ekki dregið þar úr fátækt og hungri. Það má því segja að þörfin sé hvað mest í þessari heimsálfu.
Við sem búum við betri kost en íbúar fátækari landa heims erum flest aflögufær um framlög til ýmissa góðgerða- og þróunarmála, Minni framlögum yrði líklegast best varið til hjálparstofnana og félagasamtaka sem starfa í viðkomandi löndum. Það er líka mikilvægt framlag til betri heims að við sem neytendur verðum meðvituð um stöðu þróunarlanda. Til að mynda er í vaxandi mæli hægt að kaupa vörur sem eru framleiddar í þróunarlöndum, í samvinnu við heimafólk sem nýtur góðs af, og hluti ágóðans rennur aftur til þessara hópa. Einnig má velta fyrir sér við hvernig aðstæður vörur eru framleiddar en oft og tíðum fær starfsfólk alþjóðlegra fyrirtækja í þróunarlöndum lág laun og vinnur við ósanngjörn kjör. Með meiri þekkingu um starfshætti fyrirtækja í þróunarlöndum er líka hægt að gera upp við sig við hverja við viljum versla og hverja ekki. Með því erum við að senda skilaboð um að neytendur líði ekki mannréttindabrot og brot á umhverfislögum í þróunarlöndum.
Frekara lesefni og mynd
Hrund Gunnsteinsdóttir. „Hversu mikið myndi það bæta lífsgæði fólks í þróunarlöndum ef maður tæki frá 10 krónur á dag?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2006, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5643.
Hrund Gunnsteinsdóttir. (2006, 15. febrúar). Hversu mikið myndi það bæta lífsgæði fólks í þróunarlöndum ef maður tæki frá 10 krónur á dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5643
Hrund Gunnsteinsdóttir. „Hversu mikið myndi það bæta lífsgæði fólks í þróunarlöndum ef maður tæki frá 10 krónur á dag?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2006. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5643>.