Sólin Sólin Rís 10:42 • sest 15:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:00 • Síðdegis: 20:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:20 í Reykjavík

Hefur úrdráttur og útdráttur sömu merkingu?

Ívar Daði Þorvaldsson

Hugtökin útdráttur og úrdráttur hafa löngum vafist fyrir mönnum enda einungis einn stafur sem skilur orðin að og auðvelt að skilja þau bæði á sama hátt. Þau hafa hins vegar gjörólíka merkingu.

Útdráttur felur í sér styttingu á texta þannig að aðalatriði eru dregin fram. Mikilvægt er að lykilsetningar upprunalega textans séu tengdar saman þannig að útdrátturinn verði í eðlilegu samfelldu máli. Þannig verður að forðast allar málalengingar og flóknari útskýringar.

Úrdráttur er hins vegar allt annar hlutur. Hann gegnir hlutverki stílbragðs í bókmenntum þar sem notuð eru veikari orð en efni standa til; þannig er athygli lesandans vakin enn frekar. Andstæðan við úrdrátt væri ýkjur en þá er einmitt sagt meira en efni standa til, oftar en ekki í háði en auk þess til að vekja sérstaka athygli á því eins og með úrdráttinn. Úrdráttur er víða notaður en þó hvergi jafnmikið og í Íslendingasögunum. Um þá Sigtrygg snarfara og Hallvarð harðfara í Egils sögu er sagt: „[...] ekki voru þeir vingaðir alþýðu manns, en konungur mat þá mikils [...].“ Þeir höfðu farið erinda konungs, hvort sem það var að taka menn af lífi eða taka fé af þeim. Tvöföld neitun fellur einnig undir úrdrátt en þar kemst Egill Skalla-Grímsson vel að orði í Sonatorreki er hann syrgir látinn son sinn:

Veit eg það sjalfur
að í syni mínum
vara ills þegns
efni vaxið.

Í þriðju línu kemur fyrir neitandi viðskeyti í orðinu vara, það er var ekki en ills þegns væri þá vondur maður. Hann er því ekki efni í vondan mann, það er prýðismannsefni.Egill orti Sonatorrek vegna dauða Böðvars og Gunnars sona sinna. Hér sést höggmynd af Agli með lík Böðvars sonar síns.

Hina tvöföldu neitun getur verið skemmtilegt að nota í daglegu tali en gæta verður þess að neitunin verði ekki þreföld (í raun einföld). Til dæmis væri hægt að segja að eitthvað væri ekki ómerkilegt og þá væri það í raun merkilegt. En þegar menn segja að eitthvað sé ekki óvitlaust, þá er það í rauninni vitlaust. Ekki er því hægt að segja að það sé ekki óvitlaus hugmynd að fara í bæinn vilji menn raunverulega kíkja í bæinn! Hins vegar væri hægt að segja að það sé ekki vitlaust en þá er það einmitt óvitlaust.

Í happdrætti má nota orðin útdrátt og úrdrátt jöfnum höndum. Hins vegar er fremur mælt með því að nota útdrátt í því samhengi.

Heimildir:
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa aukin og endurbætt. Mörður Árnason ritstjóri. Edda, Reykjavík 2002.
 • Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. 2006. Handbók um ritun og frágang. Mál og menning, Reykjavík.
 • Bragi Halldórsson og Knútur S. Hafsteinsson. 2005. Ljóðamál. Mál og menning, Reykjavík.
 • Egils saga á vefsetri Netútgáfunnar, kafli 18.
 • Bragi Halldórsson, Knútur S. Hafsteinsson og Ólafur Oddsson. 2005. Ormurinn langi; Sonatorrek. Bjartur, Reykjavík.
 • Málfarsbanki Íslenskrar málstöðvar.

Mynd:

Höfundur

Ívar Daði Þorvaldsson

M.Sc. í hugbúnaðarverkfræði og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

13.8.2010

Spyrjandi

Ingólfur Eðvarðsson

Tilvísun

Ívar Daði Þorvaldsson. „Hefur úrdráttur og útdráttur sömu merkingu?“ Vísindavefurinn, 13. ágúst 2010. Sótt 30. nóvember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=56653.

Ívar Daði Þorvaldsson. (2010, 13. ágúst). Hefur úrdráttur og útdráttur sömu merkingu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=56653

Ívar Daði Þorvaldsson. „Hefur úrdráttur og útdráttur sömu merkingu?“ Vísindavefurinn. 13. ágú. 2010. Vefsíða. 30. nóv. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=56653>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur úrdráttur og útdráttur sömu merkingu?
Hugtökin útdráttur og úrdráttur hafa löngum vafist fyrir mönnum enda einungis einn stafur sem skilur orðin að og auðvelt að skilja þau bæði á sama hátt. Þau hafa hins vegar gjörólíka merkingu.

Útdráttur felur í sér styttingu á texta þannig að aðalatriði eru dregin fram. Mikilvægt er að lykilsetningar upprunalega textans séu tengdar saman þannig að útdrátturinn verði í eðlilegu samfelldu máli. Þannig verður að forðast allar málalengingar og flóknari útskýringar.

Úrdráttur er hins vegar allt annar hlutur. Hann gegnir hlutverki stílbragðs í bókmenntum þar sem notuð eru veikari orð en efni standa til; þannig er athygli lesandans vakin enn frekar. Andstæðan við úrdrátt væri ýkjur en þá er einmitt sagt meira en efni standa til, oftar en ekki í háði en auk þess til að vekja sérstaka athygli á því eins og með úrdráttinn. Úrdráttur er víða notaður en þó hvergi jafnmikið og í Íslendingasögunum. Um þá Sigtrygg snarfara og Hallvarð harðfara í Egils sögu er sagt: „[...] ekki voru þeir vingaðir alþýðu manns, en konungur mat þá mikils [...].“ Þeir höfðu farið erinda konungs, hvort sem það var að taka menn af lífi eða taka fé af þeim. Tvöföld neitun fellur einnig undir úrdrátt en þar kemst Egill Skalla-Grímsson vel að orði í Sonatorreki er hann syrgir látinn son sinn:

Veit eg það sjalfur
að í syni mínum
vara ills þegns
efni vaxið.

Í þriðju línu kemur fyrir neitandi viðskeyti í orðinu vara, það er var ekki en ills þegns væri þá vondur maður. Hann er því ekki efni í vondan mann, það er prýðismannsefni.Egill orti Sonatorrek vegna dauða Böðvars og Gunnars sona sinna. Hér sést höggmynd af Agli með lík Böðvars sonar síns.

Hina tvöföldu neitun getur verið skemmtilegt að nota í daglegu tali en gæta verður þess að neitunin verði ekki þreföld (í raun einföld). Til dæmis væri hægt að segja að eitthvað væri ekki ómerkilegt og þá væri það í raun merkilegt. En þegar menn segja að eitthvað sé ekki óvitlaust, þá er það í rauninni vitlaust. Ekki er því hægt að segja að það sé ekki óvitlaus hugmynd að fara í bæinn vilji menn raunverulega kíkja í bæinn! Hins vegar væri hægt að segja að það sé ekki vitlaust en þá er það einmitt óvitlaust.

Í happdrætti má nota orðin útdrátt og úrdrátt jöfnum höndum. Hins vegar er fremur mælt með því að nota útdrátt í því samhengi.

Heimildir:
 • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa aukin og endurbætt. Mörður Árnason ritstjóri. Edda, Reykjavík 2002.
 • Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. 2006. Handbók um ritun og frágang. Mál og menning, Reykjavík.
 • Bragi Halldórsson og Knútur S. Hafsteinsson. 2005. Ljóðamál. Mál og menning, Reykjavík.
 • Egils saga á vefsetri Netútgáfunnar, kafli 18.
 • Bragi Halldórsson, Knútur S. Hafsteinsson og Ólafur Oddsson. 2005. Ormurinn langi; Sonatorrek. Bjartur, Reykjavík.
 • Málfarsbanki Íslenskrar málstöðvar.

Mynd:...