Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er það satt að líkur sæki líkan heim?

Já, menn dragast að jafnaði fremur að þeim sem svipar til þeirra sjálfra (Byrne, Ervin og Lamberth, 1970). Fólki líkar best við aðra á sama aldri, af sama kynþætti og með svipaða hæfileika og það sjálft í listum, íþróttum og bóknámi. Sömuleiðis er fólk líklegra til að velja sér maka sem er svipaður í útliti og það sjálft, af sama kynþætti, jafnmenntaður, í sömu þjóðfélagsstöðu, með álíka há laun, sem kemur úr svipaðri fjölskyldu, með sömu trúarafstöðu, sem er jafn félagslyndur og hefur svipaða afstöðu til stjórnmála, reykinga og áfengisdrykkju (Buss, 1985).Fólki líkar best við þá sem líkjast þeim sjálfum mest.

Hvers vegna sækir líkur líkan heim? Makaval á þessum forsendum er ekki með öllu tilgangslaust því margt bendir til þess að hjón sem líkjast hvort öðru skilji síður en önnur hjón. Það verður líka að teljast sennilegt að sameiginlegir eiginleikar treysti sambönd fólks; hafi fólk til að mynda sömu viðhorf minnkar það líkur á alvarlegu ósætti sem leitt gæti til hjónaskilnaðar, og sameiginleg áhugamál ýta undir að hjón geri eitthvað saman og leggi þannig rækt við hjónabandið.

Svo má auðvitað ekki gleyma þeirri augljósu staðreynd að fólk er einfaldlega líklegra til að hitta þá sem svipar til þeirra sjálfra heldur en aðra, þar sem líkt fólk sækir gjarnan í sömu aðstæður (Price og Vandenberg, 1980). Þannig má gera ráð fyrir að listaspírur hitti oft aðrar listaspírur, að íþróttafólk hitti annað íþróttafólk og svo framvegis. Að auki er vitað að mönnum líkar best við það sem þeir þekkja vel, hvort sem það eru auglýsingar, popplög – eða annað fólk. Það fólk sem maður hittir dagsdaglega er því það fólk sem manni líkar best við, og svo vill til að það er yfirleitt það fólk sem einnig líkist manni hvað mest.

Heimildir:
  • Buss, D. M. (1985) Human mate selection. American Scientist, 73(1), 47-51.
  • Byrne, D., Ervin, C. R. og Lamberth, J. (1970). Continuity between the experimental study of attraction and real-life computer dating. Journal of Personality and Social Psychology, 16(1), 157-165.
  • Price, R. A. og Vandenberg, S. G. (1980). Spouse similarity in American and Swedish couples. Behavior genetics, 10(1), 59-71.

Mynd:

Útgáfudagur

15.3.2006

Spyrjandi

Berglind Sveinbjörnsdóttir

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

doktor í taugavísindum

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er það satt að líkur sæki líkan heim?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2006. Sótt 21. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=5708.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 15. mars). Er það satt að líkur sæki líkan heim? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5708

Heiða María Sigurðardóttir. „Er það satt að líkur sæki líkan heim?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2006. Vefsíða. 21. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5708>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gísli Pálsson

1949

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni.