Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvers vegna erum við til?

Atli Harðarson

Þessi spurning er tvíræð. Sé hún skilin svo að spurt sé um orsakir þess að menn eru til þá geta líffræðingar veitt nokkuð ítarleg svör með tilvísun til þróunarkenningarinnar. Sé hún á hinn bóginn skilin svo að spurt sé um tilgang mannlífsins eða hvers vegna það sé þess virði að lifa því, þá verður fátt um svör.

Með þróunarkenningu Darwins, sem kom fram um miðja síðustu öld, urðu alger þáttaskil í hugmyndum manna um ríki lífsins. Fyrir daga Darwins skildi enginn hvernig jafnflókið skipulag og lífið á jörðinni gæti orðið til af náttúrulegum orsökum. Hugmyndir manna á fyrri öldum um tilurð lífsins byggðu því meir á goðsögnum og trúarkenningum en vísindalegum rökum.

Það er eitt af einkennum trúarlegra skýringa á náttúrufyrirbærum að þær flétta saman hugmyndum um orsakir og tilgang. Þeir sem trúa sköpunarsögum Biblíunnar álíta til dæmis flestir að þær segi ekki aðeins frá tilurð mannanna heldur gefi líka einhverja vísbendingu um tilgang mannlífsins og hvers vegna það sé þess virði að lifa því.

Goðsagnir geta búið yfir miklum töfrum og í þeim felst oft skáldlegur innblástur og innsýn í tilfinningalíf og tilvistarvanda mannfólksins. Ég held samt að goðsögulegar og trúarlegar kenningar, sem reyna í senn að svara því af hvaða orsökum menn eru til og hver sé tilgangur mannlífsins, styðjist ekki við sterk rök.

Þótt líffræði og önnur vísindi geti ekki beinlínis svarað spurningum um tilgang lífsins getur vísindaleg þekking ef til vill skýrt hvers vegna menn álíta lífið dýrmætt og þykir það hafa tilgang. Þekking í ýmsum greinum eins og læknisfræði, sálarfræði og félagsfræði getur líka varpað ljósi á orsakir þess að menn gefast upp á lífinu og telja það einskis virði. Vísindin geta hjálpað okkur að takast á við áföll, erfiðleika og mótlæti og upplýst okkur um hvaða lífshættir leiða helst til hamingju og farsældar. En spyrji menn lengra og vilji þeir vita hvort sú takmarkaða hamingja, sem þeir geta notið á sinni stuttu ævi, sé á endanum nokkurs virði, þá veita vísindin engin svör. Sumir álíta að hér taki trúarbrögðin við og fylli í eyður vísindalegrar þekkingar. Þetta held ég að sé óskhyggja og það sem trúarbrögðin hafa til málanna að leggja sé ekki þekking heldur skáldskapur og hugarburður og hyggilegast sé að sætta sig við óvissu um hinstu rök tilverunnar.

Höfundur

heimspekingur og kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Útgáfudagur

26.6.2000

Spyrjandi

Sólveig Pétursdóttir

Tilvísun

Atli Harðarson. „Hvers vegna erum við til?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=571.

Atli Harðarson. (2000, 26. júní). Hvers vegna erum við til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=571

Atli Harðarson. „Hvers vegna erum við til?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=571>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna erum við til?
Þessi spurning er tvíræð. Sé hún skilin svo að spurt sé um orsakir þess að menn eru til þá geta líffræðingar veitt nokkuð ítarleg svör með tilvísun til þróunarkenningarinnar. Sé hún á hinn bóginn skilin svo að spurt sé um tilgang mannlífsins eða hvers vegna það sé þess virði að lifa því, þá verður fátt um svör.

Með þróunarkenningu Darwins, sem kom fram um miðja síðustu öld, urðu alger þáttaskil í hugmyndum manna um ríki lífsins. Fyrir daga Darwins skildi enginn hvernig jafnflókið skipulag og lífið á jörðinni gæti orðið til af náttúrulegum orsökum. Hugmyndir manna á fyrri öldum um tilurð lífsins byggðu því meir á goðsögnum og trúarkenningum en vísindalegum rökum.

Það er eitt af einkennum trúarlegra skýringa á náttúrufyrirbærum að þær flétta saman hugmyndum um orsakir og tilgang. Þeir sem trúa sköpunarsögum Biblíunnar álíta til dæmis flestir að þær segi ekki aðeins frá tilurð mannanna heldur gefi líka einhverja vísbendingu um tilgang mannlífsins og hvers vegna það sé þess virði að lifa því.

Goðsagnir geta búið yfir miklum töfrum og í þeim felst oft skáldlegur innblástur og innsýn í tilfinningalíf og tilvistarvanda mannfólksins. Ég held samt að goðsögulegar og trúarlegar kenningar, sem reyna í senn að svara því af hvaða orsökum menn eru til og hver sé tilgangur mannlífsins, styðjist ekki við sterk rök.

Þótt líffræði og önnur vísindi geti ekki beinlínis svarað spurningum um tilgang lífsins getur vísindaleg þekking ef til vill skýrt hvers vegna menn álíta lífið dýrmætt og þykir það hafa tilgang. Þekking í ýmsum greinum eins og læknisfræði, sálarfræði og félagsfræði getur líka varpað ljósi á orsakir þess að menn gefast upp á lífinu og telja það einskis virði. Vísindin geta hjálpað okkur að takast á við áföll, erfiðleika og mótlæti og upplýst okkur um hvaða lífshættir leiða helst til hamingju og farsældar. En spyrji menn lengra og vilji þeir vita hvort sú takmarkaða hamingja, sem þeir geta notið á sinni stuttu ævi, sé á endanum nokkurs virði, þá veita vísindin engin svör. Sumir álíta að hér taki trúarbrögðin við og fylli í eyður vísindalegrar þekkingar. Þetta held ég að sé óskhyggja og það sem trúarbrögðin hafa til málanna að leggja sé ekki þekking heldur skáldskapur og hugarburður og hyggilegast sé að sætta sig við óvissu um hinstu rök tilverunnar....