Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eiga skólar að sjá um uppeldi?

Svarið við spurningunni er ekki eins einfalt og einhver kynni að ætla í fyrstu. Í skólasamfélagi nútímans er lögð mikil áhersla á samvinnu heimilis og skóla. Jákvætt viðhorf foreldra og kennara til skóla og menntunar skilar sér í jákvæðara viðhorfi nemenda til náms og skólaumhverfisins.

Þar sem mörg börn og unglingar koma saman, eins og í skólastofnun, fer óhjákvæmilega fram félagslegt uppeldi og þar þarf aga. Jákvæð samskipti og samvinna eru þættir sem skólinn leggur áherslu á. Aginn kemur þó einnig frá heimilunum; skólinn er ekki í tómarúmi. Foreldrar hafa samt áhyggjur af agaleysi í skólum samkvæmt niðurstöðum ýmissa foreldrakannana. Líklega hafa kennarar einnig áhyggjur af agaleysi á heimilum svo sem hvað varðar svefn og mataræði. Í stað þess að leita að einhverjum til að kenna um agaleysi nemenda er farsælla að leita lausna á hvernig hægt er að vinna saman að bættum aga.


Kennarar og foreldrar þurfa að vinna saman að uppeldi nemenda.

Foreldrar verða að geta treyst því að börn þeirra séu örugg í skólanum og á skólalóðinni. Einelti á sér oftast stað á leið í og úr skóla eða í búningsklefum íþróttahúsa, en stundum líka í gegnum tölvur og ýmis gagnvirk tæki. Skólayfirvöld og foreldrar þurfa að vinna saman að því að sporna við einelti. Kennarar og skólastjórnendur þurfa að taka á virðingarleysi nemenda gagnvart samnemendum, kennurum og eigum annarra á skólatíma. Notkun tölva er líka yfirleitt undir ströngu eftirliti í skólastarfi. Hins vegar verða foreldrar að gæta barna sinna þegar heim er komið. Þar kemur að eftirlitshlutverki foreldranna.

Foreldrar þurfa vitanlega ekki að vera sérfræðingar til þess að geta átt barn í grunnskóla. Ef upp kemur vandamál, til dæmis námsörðugleikar, eiga þeir að geta leitað til starfsfólks skólanna. Heimanám er til að mynda samvinnuverkefni heimilis og skóla. Margir foreldrar þurfa leiðsögn og upplýsingar til að geta tekist á við heimanám barna sinna. Þar eru kennarar í lykilhlutverki. Hins vegar þekkja foreldrar börnin sín best og geta lagt mikið af mörkum við farsæla lausn mála.

Það er barninu fyrir bestu að skóli og heimili standi saman í uppeldinu. Foreldrar bera ábyrgð á ýmsum grundvallarþáttum sem börnin koma með í veganesti að heiman. Skólinn ber síðan ábyrgð á þeim þáttum sem gerast innan veggja hans og á skólalóðinni. Samræmi verður að vera í uppeldinu og enginn má skorast undan ábyrgð.

Mynd: TwinAgent.

Útgáfudagur

21.3.2006

Spyrjandi

Katrín Jónsdóttir

Höfundur

M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræðum

Tilvísun

Hildigunnur Gunnarsdóttir. „Eiga skólar að sjá um uppeldi?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2006. Sótt 16. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5720.

Hildigunnur Gunnarsdóttir. (2006, 21. mars). Eiga skólar að sjá um uppeldi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5720

Hildigunnur Gunnarsdóttir. „Eiga skólar að sjá um uppeldi?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2006. Vefsíða. 16. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5720>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Daníel Þór Ólason

1967

Daníel Þór Ólason er prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og deildarforseti Sálfræðideildar. Rannsóknir Daníels hafa fyrst og fremst verið á sviði hegðunarfíkna en einnig hefur hann fengist við rannsóknir í próffræði og persónuleikasálfræði.