- Hvað er vitað um offjölgun Candida albicans í líkama (gersveppasýking)?
- Hver er orsök og meðferð við sveppasýkingar í munni?
- Hvað er gersveppasýking?
Algengt er að sveppasýking sé af völdum svepps af tegundinni Candida albicans en hann er til staðar í flestum einstaklingum. Hann er einkum að finna í munni, meltingarfærum og leggöngum og sumir eru einnig með hann á húðinni. Þessi sveppur lifir á líkama okkar í jafnvægi við aðrar örverur eins og bakteríur og gerir okkur alla jafna ekkert mein. Hann gerir meira að segja sennilega gagn með því að halda öðrum óæskilegri sveppum frá á svipaðan hátt og þarmabakteríur (kólíbakteríur) halda öðrum bakteríum í skefjum. Ef eitthvað fer úrskeiðis geta kólíbakteríur valdið sýkingum eða við fáum sveppasýkingu einhvers staðar í líkamanum. Sveppasýkingar, oftast af völdum candida, hafa fengið vaxandi athygli á undanförnum árum og ástæðurnar eru nokkrar. Nú er auðveldara að greina sveppasýkingar en áður, mikil notkun breiðvirkra sýklalyfja eykur tíðni sveppasýkinga og fjöldi einstaklinga með skert ónæmiskerfi hefur farið vaxandi. Þetta síðastnefnda stafar bæði af lyfjum sem hamla starfsemi ónæmiskerfisins og alnæmi. Sumir telja að mikil sykurneysla stuðli að sýkingum af candida en það er ósannað. Smábörn fá oft þrusku (sveppasýkingu) í munn, einkum ef þeim er gefinn sykur. Sveppasýkingar af völdum candida eru algengastar í munni (þruska), leggöngum og vélinda en þær geta komið nánast hvar sem er. Yfirleitt gengur vel að lækna sveppasýkingar með lyfjum og menn verða jafngóðir á eftir.
Í þröngum hópum fólks hefur því verið haldið fram að sýkingar af völdum candida séu orsök margs konar sjúkdóma eða jafnvel flestra sjúkdóma. Þetta endurspeglar viðleitni þessara hópa til þess að einfalda hlutina þannig að flestir sjúkdómar eigi sér sameiginlega orsök og þar með sé hægt að finna eitt lyf eða einhver einföld ráð til að lækna alla þessa sjúkdóma. Heimurinn er hins vegar yfirleitt mun flóknari en við höldum og þessar kenningar byggja ekki á vísindalegum rökum. Nánar er fjallað um þetta efni í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju stafar gersveppaóþol? sem finna má á heimasíðu hans. Á Doktor.is geta áhugasamir lesið um mismunandi sveppasýkingar, bæði af völdum candida og annarra sveppategunda:
- Sveppasýkingar á kynfærum
- Sveppasýking í meltingarvegi
- Naglsveppur
- Fótasveppur
- Sveppasýking í hársverði/hári
- Munnsveppasýking