Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?

Heiða María Sigurðardóttir

Upphaflega voru spurningarnar þessar:

  • Hvað er lóbótómía? (Ingibjörg)
  • Hvað var lóbótómía, til hvers var hún notuð og virkaði sú aðferð? (Þórhildur)

Lóbótómía (e. lobotomy), sem nefnist á góðri íslensku hvítuskurður eða geiraskurður, er skurðaðgerð þar sem hluti heilans er annað hvort skemmdur eða fjarlægður. Yfirleitt er átt við skurðaðgerð á fremsta hluta heilans í ennisgeira (sem einnig nefnist ennisblöð) og kallast þá ennisgeiraskurður (e. prefrontal lobotomy; nákvæmari þýðing væri reyndar forennisgeiraskurður en orðið er heldur óþjált). Ennisgeiraskurður getur stundum linað andlegar þjáningar fólks en veldur líka miklum og oft alvarlegum persónuleikabreytingum.

Sálskurðlækningar, þar sem reynt er að hafa áhrif á hugarástand fólks með skurðaðgerðum, hafa tíðkast í mörg þúsund ár. Elsta dæmið er um svokallaða kúpuborun (e. trepanning, trephining, trephination) þar sem borað var í gegnum höfuðkúpu fólks, hugsanlega til þess að hleypa út illum öndum sem talið var að orsökuðu geðtruflanir.

Á heimsráðstefnu taugafræðinga árið 1935 kynnti Portúgalinn Egaz Moniz fyrst hugmyndir sínar um ennisgeiraskurð. Moniz hafði heyrt af rannsókn þar sem ennisgeiraskurður breytti ofbeldisfullri apaynju í hinn mesta ljúfling. Sömuleiðis vissi hann af annarri rannsókn sem gaf til kynna að aðgerðin orsakaði ekki greindarskerðingu hjá fólki. Moniz taldi því lítið því til fyrirstöðu að freista þess að lækna andlega vanheilt fólk með því að skadda eða fjarlægja hluta af ennisblöðum þess.


Dr. Walter Freeman gerir ennisgeiraskurð.

Í samstarfi við taugaskurðlækninn Almeida Lima hóf Moniz að þróa aðferð til að gera ennisgeiraskurð á fólki og prófaði hana á yfir 100 manns. Fyrir þessar rannsóknir sínar fékk hann að lokum Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1949. Aðrir þróuðu svo aðferðir Limas og Moniz enn frekar. Ein aðferðin var að reka oddhvassan prjón upp í heila á milli augans og augnloksins og „hræra“ í. Þessi fremur ógeðfellda aðgerð var framkvæmd á að minnsta kosti 2.500 manns.

Þótt ótrúlegt megi virðast voru áhrif ennisgeiraskurðar að sumu leyti jákvæð. Aðgerðin gat dregið úr kvíða, hræðslu, áráttuhegðun og þráhyggjuhugsunum. Smám saman fór þó að koma í ljós að þessu fylgdu mjög alvarlegar aukaverkanir. Við ennisgeiraskurð hurfu nefnilega ekki bara óæskileg tilfinningaviðbrögð heldur breyttust eða hurfu einnig aðrar tilfinningar. Aðgerðin leiddi sömuleiðis til róttækra persónuleikabreytinga þannig að fólk gat orðið ofurkærulaust, barnalegt og dómgreindarlaust. Í sumum tilfellum gat aðgerðin jafnvel leitt til flogaveiki, sýkinga og dauða.

Vaxandi vitneskja um neikvæð áhrif ennisgeiraskurðar, óánægja almennings með slíkar aðgerðir ásamt byltingarkenndum framförum í gerð geðlyfja varð til þess að tíðni sálskurðlækninga á borð við ennisgeiraskurð snarminnkaði. Sálskurðlækningar eru enn stundaðar, en eru nú yfirleitt smærri í sniðum og aðeins gerðar á fólki með alvarlegar og illviðráðanlegar raskanir.

Heimildir og mynd

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

23.3.2006

Spyrjandi

Ingibjörg Elísabet Sigurðardóttir, f. 1986
Þórhildur Kristjánsdóttir, f. 1986

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2006, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5729.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 23. mars). Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5729

Heiða María Sigurðardóttir. „Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2006. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5729>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?
Upphaflega voru spurningarnar þessar:

  • Hvað er lóbótómía? (Ingibjörg)
  • Hvað var lóbótómía, til hvers var hún notuð og virkaði sú aðferð? (Þórhildur)

Lóbótómía (e. lobotomy), sem nefnist á góðri íslensku hvítuskurður eða geiraskurður, er skurðaðgerð þar sem hluti heilans er annað hvort skemmdur eða fjarlægður. Yfirleitt er átt við skurðaðgerð á fremsta hluta heilans í ennisgeira (sem einnig nefnist ennisblöð) og kallast þá ennisgeiraskurður (e. prefrontal lobotomy; nákvæmari þýðing væri reyndar forennisgeiraskurður en orðið er heldur óþjált). Ennisgeiraskurður getur stundum linað andlegar þjáningar fólks en veldur líka miklum og oft alvarlegum persónuleikabreytingum.

Sálskurðlækningar, þar sem reynt er að hafa áhrif á hugarástand fólks með skurðaðgerðum, hafa tíðkast í mörg þúsund ár. Elsta dæmið er um svokallaða kúpuborun (e. trepanning, trephining, trephination) þar sem borað var í gegnum höfuðkúpu fólks, hugsanlega til þess að hleypa út illum öndum sem talið var að orsökuðu geðtruflanir.

Á heimsráðstefnu taugafræðinga árið 1935 kynnti Portúgalinn Egaz Moniz fyrst hugmyndir sínar um ennisgeiraskurð. Moniz hafði heyrt af rannsókn þar sem ennisgeiraskurður breytti ofbeldisfullri apaynju í hinn mesta ljúfling. Sömuleiðis vissi hann af annarri rannsókn sem gaf til kynna að aðgerðin orsakaði ekki greindarskerðingu hjá fólki. Moniz taldi því lítið því til fyrirstöðu að freista þess að lækna andlega vanheilt fólk með því að skadda eða fjarlægja hluta af ennisblöðum þess.


Dr. Walter Freeman gerir ennisgeiraskurð.

Í samstarfi við taugaskurðlækninn Almeida Lima hóf Moniz að þróa aðferð til að gera ennisgeiraskurð á fólki og prófaði hana á yfir 100 manns. Fyrir þessar rannsóknir sínar fékk hann að lokum Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1949. Aðrir þróuðu svo aðferðir Limas og Moniz enn frekar. Ein aðferðin var að reka oddhvassan prjón upp í heila á milli augans og augnloksins og „hræra“ í. Þessi fremur ógeðfellda aðgerð var framkvæmd á að minnsta kosti 2.500 manns.

Þótt ótrúlegt megi virðast voru áhrif ennisgeiraskurðar að sumu leyti jákvæð. Aðgerðin gat dregið úr kvíða, hræðslu, áráttuhegðun og þráhyggjuhugsunum. Smám saman fór þó að koma í ljós að þessu fylgdu mjög alvarlegar aukaverkanir. Við ennisgeiraskurð hurfu nefnilega ekki bara óæskileg tilfinningaviðbrögð heldur breyttust eða hurfu einnig aðrar tilfinningar. Aðgerðin leiddi sömuleiðis til róttækra persónuleikabreytinga þannig að fólk gat orðið ofurkærulaust, barnalegt og dómgreindarlaust. Í sumum tilfellum gat aðgerðin jafnvel leitt til flogaveiki, sýkinga og dauða.

Vaxandi vitneskja um neikvæð áhrif ennisgeiraskurðar, óánægja almennings með slíkar aðgerðir ásamt byltingarkenndum framförum í gerð geðlyfja varð til þess að tíðni sálskurðlækninga á borð við ennisgeiraskurð snarminnkaði. Sálskurðlækningar eru enn stundaðar, en eru nú yfirleitt smærri í sniðum og aðeins gerðar á fólki með alvarlegar og illviðráðanlegar raskanir.

Heimildir og mynd

...