Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 18:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:24 • Sest 09:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:32 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:29 • Síðdegis: 14:44 í Reykjavík

Er karlinn í tunglinu til?

Símon Jón Jóhannsson

Í evrópskri þjóðtrú er oft minnst á karlinn í tunglinu. Hér á landi er til þjóðsaga um karlinn og hann sagður hafa verið bóndi nokkur sem hafi bundið hey sitt á sunnudegi. Guð ákvað að refsa honum fyrir að vinna á hvíldardaginn með því að setja hann upp í tunglið. Í Noregi ber samsvarandi karl hrís í körfu á bakinu sem refsingu fyrir syndir sínar. Samkvæmt þjóðsögum frá Norður-Evrópu hafði karlinn í tunglinu með sér tjörufötu; hann tjargaði yfirborð tunglsins svo enn má sjá leifar tjöruslettnanna.

Karlinn í tunglinu er líka stundum sagður vera Júdas, sendur þangað í refsiskyni fyrir svik sín. Aðrir segja að í tunglinu sjáist andlitsmynd Adams eða Kains. Í Panama er karlinn uppi í tunglinu vegna sifjaspella.

Í öðrum heimshlutum eru myndir sem birtast á yfirborði tunglsins oft taldar vera froskur eða héri. Sagan segir að Búdda hafi verið héri í einu af fyrri lífum sínum og fórnað sjálfum sér guðinum Sakka. Sakka málaði mynd af héra á tunglið til eilífrar minningar um þennan atburð. Í Mexíkó er til sú sögn að hérinn hafi verið sendur til tunglsins til að tempra ljós þess en áður var tunglið jafn bjart og sólin.

Hjá Masaíum í Afríku er sagt að sólin og tunglið hafi lent í hjónarifrildi og beri þess merki æ síðan. Sólin er karlinn sem roðnar af skömm en á tunglinu, konunni, megi sjá bólgna vör og sokkið auga.


Margar sögur fara af karlinum í tunglinu, en einnig af stúlkum, konum, börnum og jafnvel dýrum. Carol Heyer ©

Skarpskyggnir menn í Malaja sjá tré á tunglinu, en undir því situr kroppinbakur og fléttar fiskilínu. Á hinum enda línunnar er rotta sem étur hana nánast jafnhratt og krypplingurinn fléttar. Þetta er hið besta mál vegna þess að þegar fiskilínan verður loks tilbúin notar kroppinbakurinn hana til að veiða til sín alla skapaða hluti af jörðinni.

Í Nýju-Gíneu er til sú sögn að gömul kona hafi geymt tunglið í krukku en hrekkjóttir strákar hafi hleypt því út. Förin á tunglinu eru för eftir fingur gömlu konunnar þegar hún reyndi að ná tunglinu á flóttanum.

Í þjóðsögum víða um heim er stúlka sögð vera uppi í tunglinu í stað karlsins og oft er hún sögð halda á fötu. Meðal þjóðflokka í Síberíu eru til dæmis sagnir um stúlku með fötu á tunglinu. Hún er þar uppi eftir að sólin og tunglið björguðu henni frá úlfi sem elti hana. Maóríar segja að í tunglinu sé nöldurgjörn kona sem kvartaði yfir því að tunglið hvarf á bak við ský þegar hún var á leiðinni að sækja vatn. Tunglið gómaði hana og refsaði með því að taka hana upp til sín. Enn má sjá hana berandi vatnsfötu á tunglinu.

Svipaðar hugmyndir er að finna í norrænu goðafræðinni. Snorri Sturluson segir frá því í Gylfaginningu að maður nokkur er Mundilfari hét hafi átt tvö börn.

Þau voru svo fögur og fríð að hann kallaði annað Mána en dóttur sína Sól og gifti hana þeim manni er Glenur hét. En guðin reiddust þessu ofdrambi og tóku þau systkin og settu upp á himin, létu Sól keyra þá hesta er drógu kerru sólarinnar, þeirrar er guðin höfðu skapað til að lýsa heimana …

Máni stýrir göngu tungls og ræður nýjum og niðum. Hann tók tvö börn af jörðu er svo heita: Bil og Hjúki, er þau gengu frá brunni þeim er Byrgir heitir og báru á öxlum sér sá er heitir Sægur, en stöngin Símul. Viðfinnur er nefndur faðir þeirra. Þessi börn fylgja Mána, svo sem sjá má af jörðu. (Gylfaginning, 11. kafli )

Svo segir líka í gamalli þjóðsögu að tvö börn hafi verið að leika sér úti í tunglsljósi en hafi skömmu áður misst móður sína. Þá kváðu þau:

Tunglið, tunglið, tunglið mitt

taktu mig upp til skýja,

þar situr hún móðir mín

og kembir ull nýja.

Börnin hurfu en því var trúað að þau hefðu farið upp í tunglið og sæjust þar þegar tungl væri fullt, tveir dökkir dílar og ullartunna á milli þeirra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

 • Fagrar heyrði ég raddirnar, þjóðkvæði og stef. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík 1974.
 • Funk og Wagnalls: Standard dictionary of folklore, mytologi and legend. New York 1972.
 • Grambo, Ronald: Svart kat over veien. Om varsler, tegn og overto. Oslo 1993.
 • Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I—VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954—1961.
 • Snorri Sturluson: Gylfagynning. Netútgáfan 1997.
 • Carolheyer.com. Carol Heyer ©

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

24.3.2006

Spyrjandi

Sara, Kolfinna, Kristín, Sæunn og Birgitta Líf

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Er karlinn í tunglinu til?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2006. Sótt 28. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5733.

Símon Jón Jóhannsson. (2006, 24. mars). Er karlinn í tunglinu til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5733

Símon Jón Jóhannsson. „Er karlinn í tunglinu til?“ Vísindavefurinn. 24. mar. 2006. Vefsíða. 28. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5733>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er karlinn í tunglinu til?
Í evrópskri þjóðtrú er oft minnst á karlinn í tunglinu. Hér á landi er til þjóðsaga um karlinn og hann sagður hafa verið bóndi nokkur sem hafi bundið hey sitt á sunnudegi. Guð ákvað að refsa honum fyrir að vinna á hvíldardaginn með því að setja hann upp í tunglið. Í Noregi ber samsvarandi karl hrís í körfu á bakinu sem refsingu fyrir syndir sínar. Samkvæmt þjóðsögum frá Norður-Evrópu hafði karlinn í tunglinu með sér tjörufötu; hann tjargaði yfirborð tunglsins svo enn má sjá leifar tjöruslettnanna.

Karlinn í tunglinu er líka stundum sagður vera Júdas, sendur þangað í refsiskyni fyrir svik sín. Aðrir segja að í tunglinu sjáist andlitsmynd Adams eða Kains. Í Panama er karlinn uppi í tunglinu vegna sifjaspella.

Í öðrum heimshlutum eru myndir sem birtast á yfirborði tunglsins oft taldar vera froskur eða héri. Sagan segir að Búdda hafi verið héri í einu af fyrri lífum sínum og fórnað sjálfum sér guðinum Sakka. Sakka málaði mynd af héra á tunglið til eilífrar minningar um þennan atburð. Í Mexíkó er til sú sögn að hérinn hafi verið sendur til tunglsins til að tempra ljós þess en áður var tunglið jafn bjart og sólin.

Hjá Masaíum í Afríku er sagt að sólin og tunglið hafi lent í hjónarifrildi og beri þess merki æ síðan. Sólin er karlinn sem roðnar af skömm en á tunglinu, konunni, megi sjá bólgna vör og sokkið auga.


Margar sögur fara af karlinum í tunglinu, en einnig af stúlkum, konum, börnum og jafnvel dýrum. Carol Heyer ©

Skarpskyggnir menn í Malaja sjá tré á tunglinu, en undir því situr kroppinbakur og fléttar fiskilínu. Á hinum enda línunnar er rotta sem étur hana nánast jafnhratt og krypplingurinn fléttar. Þetta er hið besta mál vegna þess að þegar fiskilínan verður loks tilbúin notar kroppinbakurinn hana til að veiða til sín alla skapaða hluti af jörðinni.

Í Nýju-Gíneu er til sú sögn að gömul kona hafi geymt tunglið í krukku en hrekkjóttir strákar hafi hleypt því út. Förin á tunglinu eru för eftir fingur gömlu konunnar þegar hún reyndi að ná tunglinu á flóttanum.

Í þjóðsögum víða um heim er stúlka sögð vera uppi í tunglinu í stað karlsins og oft er hún sögð halda á fötu. Meðal þjóðflokka í Síberíu eru til dæmis sagnir um stúlku með fötu á tunglinu. Hún er þar uppi eftir að sólin og tunglið björguðu henni frá úlfi sem elti hana. Maóríar segja að í tunglinu sé nöldurgjörn kona sem kvartaði yfir því að tunglið hvarf á bak við ský þegar hún var á leiðinni að sækja vatn. Tunglið gómaði hana og refsaði með því að taka hana upp til sín. Enn má sjá hana berandi vatnsfötu á tunglinu.

Svipaðar hugmyndir er að finna í norrænu goðafræðinni. Snorri Sturluson segir frá því í Gylfaginningu að maður nokkur er Mundilfari hét hafi átt tvö börn.

Þau voru svo fögur og fríð að hann kallaði annað Mána en dóttur sína Sól og gifti hana þeim manni er Glenur hét. En guðin reiddust þessu ofdrambi og tóku þau systkin og settu upp á himin, létu Sól keyra þá hesta er drógu kerru sólarinnar, þeirrar er guðin höfðu skapað til að lýsa heimana …

Máni stýrir göngu tungls og ræður nýjum og niðum. Hann tók tvö börn af jörðu er svo heita: Bil og Hjúki, er þau gengu frá brunni þeim er Byrgir heitir og báru á öxlum sér sá er heitir Sægur, en stöngin Símul. Viðfinnur er nefndur faðir þeirra. Þessi börn fylgja Mána, svo sem sjá má af jörðu. (Gylfaginning, 11. kafli )

Svo segir líka í gamalli þjóðsögu að tvö börn hafi verið að leika sér úti í tunglsljósi en hafi skömmu áður misst móður sína. Þá kváðu þau:

Tunglið, tunglið, tunglið mitt

taktu mig upp til skýja,

þar situr hún móðir mín

og kembir ull nýja.

Börnin hurfu en því var trúað að þau hefðu farið upp í tunglið og sæjust þar þegar tungl væri fullt, tveir dökkir dílar og ullartunna á milli þeirra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

 • Fagrar heyrði ég raddirnar, þjóðkvæði og stef. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík 1974.
 • Funk og Wagnalls: Standard dictionary of folklore, mytologi and legend. New York 1972.
 • Grambo, Ronald: Svart kat over veien. Om varsler, tegn og overto. Oslo 1993.
 • Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I—VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954—1961.
 • Snorri Sturluson: Gylfagynning. Netútgáfan 1997.
 • Carolheyer.com. Carol Heyer ©
...