Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur?

Már Jónsson

Oft er talað um Gamla sáttmála frá 1262 sem sérlega mikilvægt skjal í sögu Íslands, jafnvel eins konar stofnskrá þeirra hnignunar sem á að hafa byrjað þegar íslenskir höfðingjar gengust undir vald Noregskonungs árin 1262-64. Þeim atburðum er lýst í Sturlunga sögu, Hákonar sögu Hákonarsonar og annálum. Annað mál er hvort nokkur eiginlegur samningur er varðveittur.

Í einu handrita Hákonar sögu, svonefndri Fríssbók (AM 45 fol.) frá fyrri hluta 14. aldar segir frá bréfi sem gert var á alþingi 1262: „Og er skipuð var lögrétta sóru flestir hinir bestu bændur úr Norðlendingafjórðungi og af Sunnlendingafjórðungi fyrir utan Þjórsá Hákoni konungi land og þegna og ævinligan skatt, sem bréf það váttar er þar var eftir gert.“ Bréfagerðar er ekki getið í öðrum samtímaheimildum og texti þessa samkomulags bestu bænda birtist ekki í lögbókum sem Noregskonungur sendi hingað til lands og samþykktar voru á alþingi árin 1271-73 (Járnsíða) og 1280-81 (Jónsbók). Það eitt er grunsamlegt, en fleira kemur til sem veldur því að ástæða er til að efast um að umrætt bréf sé varðveitt.

Þegar Jón Sigurðsson vann að útgáfu Íslensks fornbréfasafns á sjötta áratug 19. aldar skilgreindi hann þrjár gerðir af sáttmálatexta sem hann taldi að hefðu verið skrifaðir við ólík tækifæri á ýmsum stöðum á landinu árin 1262, 1263 og 1264. Þessu mótmælti þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer árið 1874 og sýndi fram á að textarnir frá 1263 og 1264 hefði verið skrifaðir í byrjun 14. aldar, enda væri þar vísað til Jónsbókar (síða úr handriti að Jónsbók sést hér til hliðar). Þetta hafa fræðimenn haft fyrir satt síðan. Eftir stóð textinn frá 1262, sem gjarnan er nefndur „Gissurarsáttmáli“ til aðgreiningar frá hinum textunum. Hann er einungis varðveittur í tveimur handritum frá miðri 16. öld og er svona í öðru þeirra (AM 45 8vo):
Sáttmáli Hákonar konungs og Íslendinga. Samþykkt Það var sammæli bænda fyrir norðan land og sunnan að þeir játuðu ævinlegan skatt herra N. konungi, land og þegna með svörðum eiði tuttugu álnir hver sá maður sem þingfararkaupi [á] að gegna. Þetta fé skulu saman færa hreppstjórar og til skips og fá í hendur konungs umboðsmanni og vera þar úr ábyrgð um það fé. Hér í mót skal konungur láta oss ná friði og íslenskum lögum. Skulu sex skip ganga af Noregi til Íslands tvö sumur enu næstu en þaðan í frá sem konungi og hinum bestum bændum landsins þykir hentast landinu. Erfðir skulu upp gefast fyrir íslenskum mönnum í Noregi, hvörsu lengi sem þær hafa staðið þegar réttir koma arfar til eða þeirra löglegir umboðsmenn. Landaurar skulu upp gefast. Slíkan rétt skulu íslenskir menn hafa í Noregi sem þá er þeir hafa bestan haft og þér hafið sjálfir boðið í yðrum bréfum og að halda friði yfir oss svo sem guð gefur yður framast afl til. Jarlinn viljum vér yfir oss hafa meðan hann heldur trúnað við yður en frið við oss. Skulu vér og vorir arfar halda með yður allan trúnað meðan þér og yðrir arfar halda við oss þessa sáttargjörð. En lausar ef hún rýfst að bestu manna yfirsýn.

Árið 2005 færði sagnfræðingurinn Patricia Boulhosa rök fyrir því í doktorsritgerð að textarnir sem Jón Sigurðsson setti til áranna 1263 og 1264 hefðu fyrst verið teknir saman um miðja 15. öld sem liður í pólitískri baráttu Íslendinga við konung, einkum um verslun. Textann, sem settur hafði verið til ársins 1262, taldi Boulhosa lítt áhugaverða endurvinnslu á hinum textunum, gerða um miðbik 16. aldar. Ekki er ljóst hverjir voru þar að verki né hvað þeim gekk til. Grunsemdir Boulhosa vöknuðu þegar hún áttaði sig á því að elstu handrit þessara texta eru frá 15. öld. Henni þótti með ólíkindum að ekki væru til eldri handrit af svo mikilvægum texta, einkum þegar litið er til þess að allmörg handrit lögbóka frá 14. öld geyma ný sem gömul lög auk réttarbóta konungs. Hvers vegna í ósköpunum var „Gamli sáttmáli“ ekki á meðal þeirra? Skipti hann ekki máli eða var hann kannski ekki til?

Við nákvæman lestur á einstökum ákvæðum vaknaði sú hugmynd að textarnir væru í raun frá 15. öld og hefði markmiðið verið að færa rök fyrir tilteknum réttindum Íslendinga sem konungur hefði ekki virt. Textarnir voru þá teknir saman á grundvelli annarra texta sem menn höfðu undir höndum um atburði og aðstæður tveimur árhundruðum fyrr, einkum sagnarita og annála, en jafnvel líka skjala sem nú eru glötuð. Handritin tvö frá 16. öld sem geyma textana sem Maurer og síðari fræðimenn leyfðu að standa sem Gissurarsáttmála eru að mati Boulhosa aðeins endurvinnsla á textunum frá 15. öld.

Samkvæmt þessu er „Gamli sáttmáli“ ekki til í þeim hefðbundna skilningi að þar fari texti sem saminn var árin 1262-1264. Textarnir sem Jón Sigurðsson gaf út eru þar af leiðandi ótækir sem heimildir um það þegar íslenskir höfðingjar játuðust Noregskonungi. Þeir eru tilbúningur frá 15. og 16. öld. Vel má vera að einhver atriði þeirra séu gömul, jafnvel frá síðari hluta 13. aldar og upphafi 14. aldar, og hefur Helgi Þorláksson bent á líkindi þess með athugun á því sem segir um árlega siglingu sex skipa. Frekari athugana er þörf sem vonandi verður úr á allra næstu árum.

Heimildir:
  • Patricia Boulhosa, Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur. Smárit Sögufélags. Reykjavík 2006.
  • Helgi Þorláksson, Er Gamli sáttmáli tómur tilbúningur? Þriðja íslenska söguþingið. Ráðstefnurit. Ritstjórar Benedikt Eyþórsson og Hrafnkell Lárusson. Reykjavík 2007, bls. 392-98.
  • Már Jónsson, Gamli sáttmáli - er hann ekki til? Lesbók Morgunblaðsins 9. september 2006, bls. 10.
  • Már Jónsson, Efasemdir um sáttmála Íslendinga og Noregskonungs árið 1262. Þriðja íslenska söguþingið. Ráðstefnurit, bls. 399-406.

Mynd:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

24.11.2010

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Már Jónsson. „Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2010, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57758.

Már Jónsson. (2010, 24. nóvember). Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57758

Már Jónsson. „Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2010. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57758>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur?
Oft er talað um Gamla sáttmála frá 1262 sem sérlega mikilvægt skjal í sögu Íslands, jafnvel eins konar stofnskrá þeirra hnignunar sem á að hafa byrjað þegar íslenskir höfðingjar gengust undir vald Noregskonungs árin 1262-64. Þeim atburðum er lýst í Sturlunga sögu, Hákonar sögu Hákonarsonar og annálum. Annað mál er hvort nokkur eiginlegur samningur er varðveittur.

Í einu handrita Hákonar sögu, svonefndri Fríssbók (AM 45 fol.) frá fyrri hluta 14. aldar segir frá bréfi sem gert var á alþingi 1262: „Og er skipuð var lögrétta sóru flestir hinir bestu bændur úr Norðlendingafjórðungi og af Sunnlendingafjórðungi fyrir utan Þjórsá Hákoni konungi land og þegna og ævinligan skatt, sem bréf það váttar er þar var eftir gert.“ Bréfagerðar er ekki getið í öðrum samtímaheimildum og texti þessa samkomulags bestu bænda birtist ekki í lögbókum sem Noregskonungur sendi hingað til lands og samþykktar voru á alþingi árin 1271-73 (Járnsíða) og 1280-81 (Jónsbók). Það eitt er grunsamlegt, en fleira kemur til sem veldur því að ástæða er til að efast um að umrætt bréf sé varðveitt.

Þegar Jón Sigurðsson vann að útgáfu Íslensks fornbréfasafns á sjötta áratug 19. aldar skilgreindi hann þrjár gerðir af sáttmálatexta sem hann taldi að hefðu verið skrifaðir við ólík tækifæri á ýmsum stöðum á landinu árin 1262, 1263 og 1264. Þessu mótmælti þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer árið 1874 og sýndi fram á að textarnir frá 1263 og 1264 hefði verið skrifaðir í byrjun 14. aldar, enda væri þar vísað til Jónsbókar (síða úr handriti að Jónsbók sést hér til hliðar). Þetta hafa fræðimenn haft fyrir satt síðan. Eftir stóð textinn frá 1262, sem gjarnan er nefndur „Gissurarsáttmáli“ til aðgreiningar frá hinum textunum. Hann er einungis varðveittur í tveimur handritum frá miðri 16. öld og er svona í öðru þeirra (AM 45 8vo):
Sáttmáli Hákonar konungs og Íslendinga. Samþykkt Það var sammæli bænda fyrir norðan land og sunnan að þeir játuðu ævinlegan skatt herra N. konungi, land og þegna með svörðum eiði tuttugu álnir hver sá maður sem þingfararkaupi [á] að gegna. Þetta fé skulu saman færa hreppstjórar og til skips og fá í hendur konungs umboðsmanni og vera þar úr ábyrgð um það fé. Hér í mót skal konungur láta oss ná friði og íslenskum lögum. Skulu sex skip ganga af Noregi til Íslands tvö sumur enu næstu en þaðan í frá sem konungi og hinum bestum bændum landsins þykir hentast landinu. Erfðir skulu upp gefast fyrir íslenskum mönnum í Noregi, hvörsu lengi sem þær hafa staðið þegar réttir koma arfar til eða þeirra löglegir umboðsmenn. Landaurar skulu upp gefast. Slíkan rétt skulu íslenskir menn hafa í Noregi sem þá er þeir hafa bestan haft og þér hafið sjálfir boðið í yðrum bréfum og að halda friði yfir oss svo sem guð gefur yður framast afl til. Jarlinn viljum vér yfir oss hafa meðan hann heldur trúnað við yður en frið við oss. Skulu vér og vorir arfar halda með yður allan trúnað meðan þér og yðrir arfar halda við oss þessa sáttargjörð. En lausar ef hún rýfst að bestu manna yfirsýn.

Árið 2005 færði sagnfræðingurinn Patricia Boulhosa rök fyrir því í doktorsritgerð að textarnir sem Jón Sigurðsson setti til áranna 1263 og 1264 hefðu fyrst verið teknir saman um miðja 15. öld sem liður í pólitískri baráttu Íslendinga við konung, einkum um verslun. Textann, sem settur hafði verið til ársins 1262, taldi Boulhosa lítt áhugaverða endurvinnslu á hinum textunum, gerða um miðbik 16. aldar. Ekki er ljóst hverjir voru þar að verki né hvað þeim gekk til. Grunsemdir Boulhosa vöknuðu þegar hún áttaði sig á því að elstu handrit þessara texta eru frá 15. öld. Henni þótti með ólíkindum að ekki væru til eldri handrit af svo mikilvægum texta, einkum þegar litið er til þess að allmörg handrit lögbóka frá 14. öld geyma ný sem gömul lög auk réttarbóta konungs. Hvers vegna í ósköpunum var „Gamli sáttmáli“ ekki á meðal þeirra? Skipti hann ekki máli eða var hann kannski ekki til?

Við nákvæman lestur á einstökum ákvæðum vaknaði sú hugmynd að textarnir væru í raun frá 15. öld og hefði markmiðið verið að færa rök fyrir tilteknum réttindum Íslendinga sem konungur hefði ekki virt. Textarnir voru þá teknir saman á grundvelli annarra texta sem menn höfðu undir höndum um atburði og aðstæður tveimur árhundruðum fyrr, einkum sagnarita og annála, en jafnvel líka skjala sem nú eru glötuð. Handritin tvö frá 16. öld sem geyma textana sem Maurer og síðari fræðimenn leyfðu að standa sem Gissurarsáttmála eru að mati Boulhosa aðeins endurvinnsla á textunum frá 15. öld.

Samkvæmt þessu er „Gamli sáttmáli“ ekki til í þeim hefðbundna skilningi að þar fari texti sem saminn var árin 1262-1264. Textarnir sem Jón Sigurðsson gaf út eru þar af leiðandi ótækir sem heimildir um það þegar íslenskir höfðingjar játuðust Noregskonungi. Þeir eru tilbúningur frá 15. og 16. öld. Vel má vera að einhver atriði þeirra séu gömul, jafnvel frá síðari hluta 13. aldar og upphafi 14. aldar, og hefur Helgi Þorláksson bent á líkindi þess með athugun á því sem segir um árlega siglingu sex skipa. Frekari athugana er þörf sem vonandi verður úr á allra næstu árum.

Heimildir:
  • Patricia Boulhosa, Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur. Smárit Sögufélags. Reykjavík 2006.
  • Helgi Þorláksson, Er Gamli sáttmáli tómur tilbúningur? Þriðja íslenska söguþingið. Ráðstefnurit. Ritstjórar Benedikt Eyþórsson og Hrafnkell Lárusson. Reykjavík 2007, bls. 392-98.
  • Már Jónsson, Gamli sáttmáli - er hann ekki til? Lesbók Morgunblaðsins 9. september 2006, bls. 10.
  • Már Jónsson, Efasemdir um sáttmála Íslendinga og Noregskonungs árið 1262. Þriðja íslenska söguþingið. Ráðstefnurit, bls. 399-406.

Mynd:...