Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Af hverju heldur kristið fólk upp á páska? Eru páskar ekki eldri en kristni?

Hjalti Hugason

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Af hverju er haldið upp á páskana eins og það komi Jesú eitthvað við? Það voru haldnir páskar áður en Jesús var til?

Vissulega var páskahátíðin hátíð Ísraela og Gyðinga löngu fyrir daga Krists. Á henni minntust Ísraelsmenn hinir fornu og síðar Gyðingar frelsunar forfeðra sinna úr ánauðinni í Egyptalandi eins og lesa má um í Annarri Mósebók í Gamla testamentinu.

Það er þó ekki að ástæðulausu að páskarnir urðu frá upphafi helsta hátíð kristinna manna og héldu þeirri stöðu langt fram eftir öldum eða þar til jólin tóku að keppa við þá um vinsældir. Ástæða þessa er sú að mikilvægustu þættina í verki Krists bar einmitt upp á páskahátíð Gyðinga. Er þar átt við handtöku, pyntingar, aftöku og uppstigningu Krists sem lesa má um í lokaköflum allra guðspjalla Nýja testamentsins. Ein ástæðan fyrir því að kristnir menn gerðu páskahátíðina að sinni er því þessi tímasetning.

Það var fljótt farið að líta svo á í kirkjunni að á milli þessara tveggja hátíða, það er páskahátíðar Gyðinga og páska kristinna manna, væru einnig inntakstengsl. Báðar voru þær haldnar til að fagna frelsun. Gyðingarnir minntust frelsunarinnar undan Egyptum en kristnir menn frelsunar undan synd og sekt til lífs með Guði. Þá slátruðu Gyðingar svokölluðu páskalambi sem þeir neyttu á hátíðinni. Í kristninni var farið að tala um Krist sem hið sanna páskalamb. Samkvæmt einu guðspjallanna er jafnvel sagt að dauða Krists hafi borið upp á sömu stundu og páskalömbunum var slátrað.Fljótt dró þó í sundur með páskahátíð Gyðinga og páskum kristinna manna. Páskar Gyðinga eru svokölluð föst hátíð sem alltaf er haldin á sérstökum mánaðardegi samkvæmt tímatali Gyðinga. Kristnir menn minntust hins vegar upprisu Krists, það er páskadagsins, ætíð á sunnudegi og miðuðu hátíðina við fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægur á vori. Páskarnir urðu því svokölluð færanleg hátíð.

Sú staðreynd að páskar eru haldnir bæði í gyðingdómi og kristni minnir auðvitað á þau beinu sögulegu tengsl sem eru milli þessara tveggja trúarbragða. Kristni er sprottin úr gyðingdómi og var í upphafi í raun ekki annað en gyðinglegur söfnuður með sérstakar áherslur. Mikið af trúariðkun kristinna manna er því sótt til gyðingdóms og þessi trúarbrögð eiga sameiginleg trúarrit þar sem eru bækur Gamla testamentisins. Páskarnir eru því ekki eina atriðið sem tengir trúarbrögðin. Má í því sambandi ekki gleyma sjálfri hugmyndinni um frelsarann Krist, en orðið Kristur er í raun grísk orðmynd af hebreska orðinu Messías sem Gyðingar vænta enn að koma muni.

Páskarnir eru eitt dæmi um það hvernig kristin trú tekur upp eldri hugmyndir, túlkar þær í nýju ljósi og gefur þeim nýtt inntak. Þessi nýtúlkun páskahátíðarinnar er afar eðlileg vegna þeirra tímatengsla sem voru á milli hátíðahalda Gyðinga og mikilvægustu þátta þess sem oft er nefnt Krists-atburðurinn (með því er átt við fæðingu, líf, starf, dauða og upprisu Krists). Slík tímatengsl þurfa þó ekki að vera til staðar eins og kemur fram í því að víða á því svæði þar sem kristni breiddist út á fornöld og á miðöldum var haldin hátíð á sama tíma og kristnir menn halda jól. Ekkert bendir þó til þess að Kristur hafi fæðst á þeim tíma árs frekar en einhverjum öðrum. Þetta sýnir að þótt kristin trú sé um margt lokuð, játi til dæmis aðeins trú á einn Guð, er hún að öðru leyti opin. Á það ekki síst við um ýmis félagsleg og menningarleg atriði sem kristnin hefur tekið upp og glætt nýju inntaki.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör tengd páskum, til dæmis:Mynd: Kids Web India

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.4.2006

Spyrjandi

Karen Rut, f. 1990

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Af hverju heldur kristið fólk upp á páska? Eru páskar ekki eldri en kristni?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2006. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5824.

Hjalti Hugason. (2006, 15. apríl). Af hverju heldur kristið fólk upp á páska? Eru páskar ekki eldri en kristni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5824

Hjalti Hugason. „Af hverju heldur kristið fólk upp á páska? Eru páskar ekki eldri en kristni?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2006. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5824>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju heldur kristið fólk upp á páska? Eru páskar ekki eldri en kristni?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Af hverju er haldið upp á páskana eins og það komi Jesú eitthvað við? Það voru haldnir páskar áður en Jesús var til?

Vissulega var páskahátíðin hátíð Ísraela og Gyðinga löngu fyrir daga Krists. Á henni minntust Ísraelsmenn hinir fornu og síðar Gyðingar frelsunar forfeðra sinna úr ánauðinni í Egyptalandi eins og lesa má um í Annarri Mósebók í Gamla testamentinu.

Það er þó ekki að ástæðulausu að páskarnir urðu frá upphafi helsta hátíð kristinna manna og héldu þeirri stöðu langt fram eftir öldum eða þar til jólin tóku að keppa við þá um vinsældir. Ástæða þessa er sú að mikilvægustu þættina í verki Krists bar einmitt upp á páskahátíð Gyðinga. Er þar átt við handtöku, pyntingar, aftöku og uppstigningu Krists sem lesa má um í lokaköflum allra guðspjalla Nýja testamentsins. Ein ástæðan fyrir því að kristnir menn gerðu páskahátíðina að sinni er því þessi tímasetning.

Það var fljótt farið að líta svo á í kirkjunni að á milli þessara tveggja hátíða, það er páskahátíðar Gyðinga og páska kristinna manna, væru einnig inntakstengsl. Báðar voru þær haldnar til að fagna frelsun. Gyðingarnir minntust frelsunarinnar undan Egyptum en kristnir menn frelsunar undan synd og sekt til lífs með Guði. Þá slátruðu Gyðingar svokölluðu páskalambi sem þeir neyttu á hátíðinni. Í kristninni var farið að tala um Krist sem hið sanna páskalamb. Samkvæmt einu guðspjallanna er jafnvel sagt að dauða Krists hafi borið upp á sömu stundu og páskalömbunum var slátrað.Fljótt dró þó í sundur með páskahátíð Gyðinga og páskum kristinna manna. Páskar Gyðinga eru svokölluð föst hátíð sem alltaf er haldin á sérstökum mánaðardegi samkvæmt tímatali Gyðinga. Kristnir menn minntust hins vegar upprisu Krists, það er páskadagsins, ætíð á sunnudegi og miðuðu hátíðina við fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægur á vori. Páskarnir urðu því svokölluð færanleg hátíð.

Sú staðreynd að páskar eru haldnir bæði í gyðingdómi og kristni minnir auðvitað á þau beinu sögulegu tengsl sem eru milli þessara tveggja trúarbragða. Kristni er sprottin úr gyðingdómi og var í upphafi í raun ekki annað en gyðinglegur söfnuður með sérstakar áherslur. Mikið af trúariðkun kristinna manna er því sótt til gyðingdóms og þessi trúarbrögð eiga sameiginleg trúarrit þar sem eru bækur Gamla testamentisins. Páskarnir eru því ekki eina atriðið sem tengir trúarbrögðin. Má í því sambandi ekki gleyma sjálfri hugmyndinni um frelsarann Krist, en orðið Kristur er í raun grísk orðmynd af hebreska orðinu Messías sem Gyðingar vænta enn að koma muni.

Páskarnir eru eitt dæmi um það hvernig kristin trú tekur upp eldri hugmyndir, túlkar þær í nýju ljósi og gefur þeim nýtt inntak. Þessi nýtúlkun páskahátíðarinnar er afar eðlileg vegna þeirra tímatengsla sem voru á milli hátíðahalda Gyðinga og mikilvægustu þátta þess sem oft er nefnt Krists-atburðurinn (með því er átt við fæðingu, líf, starf, dauða og upprisu Krists). Slík tímatengsl þurfa þó ekki að vera til staðar eins og kemur fram í því að víða á því svæði þar sem kristni breiddist út á fornöld og á miðöldum var haldin hátíð á sama tíma og kristnir menn halda jól. Ekkert bendir þó til þess að Kristur hafi fæðst á þeim tíma árs frekar en einhverjum öðrum. Þetta sýnir að þótt kristin trú sé um margt lokuð, játi til dæmis aðeins trú á einn Guð, er hún að öðru leyti opin. Á það ekki síst við um ýmis félagsleg og menningarleg atriði sem kristnin hefur tekið upp og glætt nýju inntaki.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör tengd páskum, til dæmis:Mynd: Kids Web India...