Flestum heimildum ber saman um að Sesselja hafi verið uppi á þriðju öld, en sumar telja að hún hafi verið uppi á annarri öld. Sesselja er sögð hafa verið af rómverskum aðalsættum og átti að hafa heitið Guði því að leggjast aldrei með neinum manni. Henni var gert að giftast hinum heiðna Valeríanusi. "Leið svo að brúðkaupsdegi, og meðan tónlistin ómaði söng hún í hjarta sínu til Guðs: Gerðu hjarta mitt og líkama hreinan svo að ég megi eigi flekkuð verða".*
Á brúðkaupsnóttina sagði Sesselja Valeríanusi að hún væri lofuð engli sem ekki vildi að hún missti meydóm sinn. Valeríanus vildi þá sjá engilinn, og til að eiga þess kost lét hann skírast. Eftir það birtist engillinn honum. Tiburtíus bróðir hans sá einnig engilinn og snerist líka til kristinnar trúar.
Á þessum tíma var kristni óleyfileg í Róm og dóu þau öll píslarvottadauða: Valeríanus, Tiburtíus og Sesselja.
Heilög Sesselja varð líklega dýrlingur tónlistar sökum þess að hún lofsamaði Guð með hljóðfæraleik og söng. Margir listamenn hafa minnst hennar í verkum sínum, þar á meðal listmálararnir Rafael og Rubens, og tónskáldin Purcell og Händel. Á síðunni Handel: An Ode for St Cecilia's Day má einmitt hlusta á tónverk eftir Händel sem tileinkað er Sesselju.
* Lausleg þýðing úr ensku: "The day on which the wedding was to be held arrived and while musical instruments were playing she was singing in her heart to God alone saying: Make my heart and my body pure that I may not be confounded.".
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað aðgreinir kaþólska trú frá lúterskri? eftir Hauk Má Helgason.
- Hvenær dó heilagur Valentínus? Hverrar trúar var hann? eftir HMH.
- Cecilia, Saint. Encyclopædia Britannica Online.
- Jenkins, B. F. (1998). Saint Cecilia: Patron saint of church music.
- Saint Cecilia. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- St. Cecilia. Catholic Encyclopedia.
- Myndin er af Image:St cecilia guido reni.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.