Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu?

Magnús Jóhannsson

Holdafar fólks ákvarðast af lifnaðarháttum og erfðum. Illa hefur gengið að finna þá erfðastofna sem ákvarða holdafar og þar með offitu en það kann að vera að breytast. Nýlega hefur tekist að finna erfðagalla sem veldur offitu í músum. Rannsóknir á þessum dýrum hafa aukið skilning manna á því hvernig holdafari er stjórnað og þeim kerfum sem flytja boð milli fituvefs og miðtaugakerfis. Vísindamenn hafa nú fundið svipaða erfðagalla í mönnum sem geta leitt til offitu. Flest bendir til að offita sé sjúkdómur sem, eins og flestir aðrir sjúkdómar, stafar af erfðum og umhverfisþáttum í sameiningu.

Þrátt fyrir viðvaranir lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna verður offita sífellt algengari. Holdafar ákvarðast af jafnvæginu milli neyslu og bruna. Við innbyrðum daglega fæðu sem inniheldur ákveðinn fjölda hitaeininga og þessi orka er notuð til að reka áfram ýmis efnaferli og til að framleiða varma.

Flestir hafa tekið eftir því að fólk borðar og hreyfir sig mismikið en bara sumir verða feitir og það eru ekki endilega þeir sem borða mikið og hreyfa sig lítið.

Rannsóknir sem voru gerðar á grönnu og feitu fólki á fjórða áratugnum bentu til þess að allir brenndu álíka mikilli orku og menn drógu þá ályktun að holdafar stjórnaðist eingöngu af neyslu. Af þessu leiddi að áherslurnar voru einkum á mataræði og megrunaraðferðir byggðust á matarkúrum, lyfjum sem draga úr matarlyst og öðru þess háttar.

Á undanförnum árum hefur þetta verið að breytast og menn hafa áttað sig á því að rannsóknirnar frá fjórða áratugnum segja ekki alla söguna og bruni skiptir líka miklu máli. Margir hugsa um bruna sem líkamlega áreynslu en það er heldur ekki öll sagan. Flestir hafa tekið eftir því að fólk borðar og hreyfir sig mismikið en bara sumir verða feitir og það eru ekki endilega þeir sem borða mikið og hreyfa sig lítið.

Eitt af því sem sennilega skiptir miklu máli er brún fita. Það hefur verið vitað lengi að auk hvítu fitunnar eru flest dýr með smávegis af brúnni fitu. Dýr sem fara í vetrardvala eru með sérstaklega mikið af þessari brúnu fitu. Um 1960 fundu menn að brúna fitan myndar mikinn varma og síðar kom í ljós að einstaklingar með mikið af brúnni fitu voru gjarnan grannir og heitfengir en þeir sem höfðu lítið af brúnni fitu voru feitir og kulvísir. Þessi skipting er þó engan veginn algild og málið er flóknara en það virtist á tímabili.

Börn eru með dálítið af brúnni fitu sem virðist minnka með aldrinum og fólk hefur einmitt tilhneigingu til að fitna með aldrinum en flestir vilja fara varlega í að draga ályktanir af þessu.

Líkaminn leitast alltaf við að halda þyngdinni stöðugri; ef við borðum meira en venjulega reynir líkaminn að hindra fitusöfnun og öfugt ef við sveltum. Þetta byggist á boðkerfi sem flytur boð milli fituvefs og miðtaugakerfis og menn eru nú að byrja að skilja þetta boðkerfi. Eitt af því sem fundist hefur er lítið prótein sem kallast leptín og myndast bæði í hvítum og brúnum fituvef. Myndun leptíns og magn þess í blóði vex ef stærð eða fjöldi fitufrumna eykst. Sýnt hefur verið fram á að þetta prótein miðlar boðum um saðningu. Mýs sem var gefið próteinið í æð í nokkra daga átu aðeins um þriðjung þess sem þær gerðu áður. Talið er nokkuð víst að aðalverkun leptíns sé í miðtaugakerfinu og ef því er sprautað inn í heilann hætta dýrin næstum að éta. Í þeim hluta heilans sem nefnist undirstúka hafa menn fundið viðtaka sem binda leptín og koma boðunum áleiðis.

Í músum eru þekktir fimm mismunandi erfðagallar (stökkbreytt gen) sem allir valda offitu, sumir koma í veg fyrir eðlilega myndun leptíns í fituvef en aðrir koma í veg fyrir myndun eðlilegra leptínviðtaka í heilanum.

Hér opnast alveg nýir og spennandi möguleikar í baráttunni við sjúkdóminn offitu, það er að segja offitu sem ræðst af erfðaefni einstaklingsins. Þeim sem eiga í þeirri baráttu duga megrunarkúrar, líkamsrækt og lyf yfirleitt lítið sem ekkert þó að slíkt hjálpi öðrum sem berjast gegn holdafarsvandamálum af öðrum toga. Offitusjúklingar verða þó að þrauka nokkur ár enn. Þeir bjartsýnu telja að núverandi rannsóknir fari að skila áþreifanlegum árangri innan nokkurra ára og þá munum við vonandi ráða yfir betri lækningu við offitu en hingað til.

Mynd:

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

28.6.2000

Síðast uppfært

13.1.2022

Spyrjandi

Stefán B Heiðarsson

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2000, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=587.

Magnús Jóhannsson. (2000, 28. júní). Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=587

Magnús Jóhannsson. „Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2000. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=587>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu?
Holdafar fólks ákvarðast af lifnaðarháttum og erfðum. Illa hefur gengið að finna þá erfðastofna sem ákvarða holdafar og þar með offitu en það kann að vera að breytast. Nýlega hefur tekist að finna erfðagalla sem veldur offitu í músum. Rannsóknir á þessum dýrum hafa aukið skilning manna á því hvernig holdafari er stjórnað og þeim kerfum sem flytja boð milli fituvefs og miðtaugakerfis. Vísindamenn hafa nú fundið svipaða erfðagalla í mönnum sem geta leitt til offitu. Flest bendir til að offita sé sjúkdómur sem, eins og flestir aðrir sjúkdómar, stafar af erfðum og umhverfisþáttum í sameiningu.

Þrátt fyrir viðvaranir lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna verður offita sífellt algengari. Holdafar ákvarðast af jafnvæginu milli neyslu og bruna. Við innbyrðum daglega fæðu sem inniheldur ákveðinn fjölda hitaeininga og þessi orka er notuð til að reka áfram ýmis efnaferli og til að framleiða varma.

Flestir hafa tekið eftir því að fólk borðar og hreyfir sig mismikið en bara sumir verða feitir og það eru ekki endilega þeir sem borða mikið og hreyfa sig lítið.

Rannsóknir sem voru gerðar á grönnu og feitu fólki á fjórða áratugnum bentu til þess að allir brenndu álíka mikilli orku og menn drógu þá ályktun að holdafar stjórnaðist eingöngu af neyslu. Af þessu leiddi að áherslurnar voru einkum á mataræði og megrunaraðferðir byggðust á matarkúrum, lyfjum sem draga úr matarlyst og öðru þess háttar.

Á undanförnum árum hefur þetta verið að breytast og menn hafa áttað sig á því að rannsóknirnar frá fjórða áratugnum segja ekki alla söguna og bruni skiptir líka miklu máli. Margir hugsa um bruna sem líkamlega áreynslu en það er heldur ekki öll sagan. Flestir hafa tekið eftir því að fólk borðar og hreyfir sig mismikið en bara sumir verða feitir og það eru ekki endilega þeir sem borða mikið og hreyfa sig lítið.

Eitt af því sem sennilega skiptir miklu máli er brún fita. Það hefur verið vitað lengi að auk hvítu fitunnar eru flest dýr með smávegis af brúnni fitu. Dýr sem fara í vetrardvala eru með sérstaklega mikið af þessari brúnu fitu. Um 1960 fundu menn að brúna fitan myndar mikinn varma og síðar kom í ljós að einstaklingar með mikið af brúnni fitu voru gjarnan grannir og heitfengir en þeir sem höfðu lítið af brúnni fitu voru feitir og kulvísir. Þessi skipting er þó engan veginn algild og málið er flóknara en það virtist á tímabili.

Börn eru með dálítið af brúnni fitu sem virðist minnka með aldrinum og fólk hefur einmitt tilhneigingu til að fitna með aldrinum en flestir vilja fara varlega í að draga ályktanir af þessu.

Líkaminn leitast alltaf við að halda þyngdinni stöðugri; ef við borðum meira en venjulega reynir líkaminn að hindra fitusöfnun og öfugt ef við sveltum. Þetta byggist á boðkerfi sem flytur boð milli fituvefs og miðtaugakerfis og menn eru nú að byrja að skilja þetta boðkerfi. Eitt af því sem fundist hefur er lítið prótein sem kallast leptín og myndast bæði í hvítum og brúnum fituvef. Myndun leptíns og magn þess í blóði vex ef stærð eða fjöldi fitufrumna eykst. Sýnt hefur verið fram á að þetta prótein miðlar boðum um saðningu. Mýs sem var gefið próteinið í æð í nokkra daga átu aðeins um þriðjung þess sem þær gerðu áður. Talið er nokkuð víst að aðalverkun leptíns sé í miðtaugakerfinu og ef því er sprautað inn í heilann hætta dýrin næstum að éta. Í þeim hluta heilans sem nefnist undirstúka hafa menn fundið viðtaka sem binda leptín og koma boðunum áleiðis.

Í músum eru þekktir fimm mismunandi erfðagallar (stökkbreytt gen) sem allir valda offitu, sumir koma í veg fyrir eðlilega myndun leptíns í fituvef en aðrir koma í veg fyrir myndun eðlilegra leptínviðtaka í heilanum.

Hér opnast alveg nýir og spennandi möguleikar í baráttunni við sjúkdóminn offitu, það er að segja offitu sem ræðst af erfðaefni einstaklingsins. Þeim sem eiga í þeirri baráttu duga megrunarkúrar, líkamsrækt og lyf yfirleitt lítið sem ekkert þó að slíkt hjálpi öðrum sem berjast gegn holdafarsvandamálum af öðrum toga. Offitusjúklingar verða þó að þrauka nokkur ár enn. Þeir bjartsýnu telja að núverandi rannsóknir fari að skila áþreifanlegum árangri innan nokkurra ára og þá munum við vonandi ráða yfir betri lækningu við offitu en hingað til.

Mynd: ...