Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði?

Guðbjörg Gunnarsdóttir

Þjóðgarðar eru stofnaðir skv. 51 gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þeir eru á landsvæði sem ástæða þykir til að vernda sérstaklega vegna sérstæðs landslags eða lífríkis eða að á því hvíli söguleg helgi. Jafnframt er almenningi heimilt að fara um þjóðgarðinn eftir tilteknum reglum.

Markmiðið með því að stofna Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er á sama hátt annars vegar að vernda svæðið fyrir framtíðina, að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum svo sem kostur er, og hins vegar að tryggja að allir hafi sama tækifæri til að njóta svæðisins. Í heimi þar sem sífellt er gengið nær náttúrunni eykst mikilvægi verndaðra svæða.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er vestast á Snæfellsnesi, í Snæfellsbæ. Mörk þjóðgarðsins liggja um jaðar Háahrauns í landi Dagverðarár, um austurjaðar Snæfellsjökuls og norðurmörkin liggja á milli Gufuskála og Hellissands.



Snæfellsjökull. Mörk þjóðgarðsins liggja meðal annars um jaðar Háahrauns sem hér sést í forgrunni.

Fjölbreytileiki jarðmyndana er óvíða jafn mikill og á Snæfellsnesi. Snæfellsjökull er kjarni eldvirkninnar í þjóðgarðinum en verndargildi þjóðgarðsins felst einkum í mörgum og fjölbreyttum gosmyndunum. Snæfellsjökull skipar auk þess sérstakan sess í hugum fólks enda kraftur Jökulsins margrómaður.

Sérstaða þjóðgarðsins felst meðal annars í nálægð við sjóinn og afar fjölbreyttri strandlengju en þjóðgarðurinn er sá fyrsti hér á landi sem nær í sjó fram. Samspil manns og umhverfis er áberandi því meðfram ströndinni má víða sjá merkar menningarminjar tengdar búsetu og sjósókn frá tímum árabátaútgerðar og vitna þær um lífsbaráttu genginna kynslóða. Hraunin á svæðinu eru gljúp svo mjög lítið vatn er á yfirborði. Þrátt fyrir það þekur mosi og lággróður landið milli fjalls og fjöru og víða er blómskrúð og lágvaxnar trjáplöntur í hraungjótum. Sjófuglar eru í björgum þjóðgarðsins og söng mófugla má heyra víða. Ef heppnin er með má rekast á ref á ferli eða sjá hval undan ströndinni.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull heyrir undir Umhverfisstofnun (UST) sem tilheyrir Umhverfisráðuneyti. Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins en henni til ráðgjafar starfar ráðgjafarnefnd með fulltrúum Snæfellsbæjar, Fornleifaverndar ríkisins, Ferðamálasamtaka Snæfellsness og Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðsvörður sér um daglegan rekstur þjóðgarðsins en auk hans er heilsársstöðugildi sérfræðings við þjóðgarðinn. Á sumrin starfa landverðir í þjóðgarðinum. Þeir sjá um daglegan rekstur gestastofu á Hellnum, sumardagskrá, viðhald og eftirlit.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001 skv. reglugerð nr. 568/2001. Friðlýsing Snæfellsjökuls og vestasta hluta Snæfellsness á sér nokkuð langan aðdraganda. Fyrstu opinberu hugmyndir um friðun svæðisins má rekja til Eysteins Jónssonar ráðherra og formanns Náttúruverndarráðs 30 árum fyrir stofnun þjóðgarðsins. Á Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Náttúruverndarráð skoðaði svæðið sumarið 1974 og árið 1977 var lögð fram tillaga að friðlandi undir Jökli.

Verulegur skriður komst á málið árið 1994 þegar þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd til að vinna að friðlýsingu svæðisins. Formaður þeirrar nefndar var Sturla Böðvarsson núverandi samgönguráðherra. Nefndin skilaði lokaskýrslu árið 1997. Sú skýrsla er grunnur að þeirri vinnu sem fram fór í kjölfarið. Árið 2000 var síðan ákveðið að stofna þjóðgarðinn ári síðar. Um miðjan maí það ár skipaði Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fimm manna starfshóp til að annast undirbúning að stofnun hans. Formaður þeirrar nefndar var Stefán Jóhann Sigurðsson. Nefndin skilaði lokaskýrslu í júní það ár og stofndagur þjóðgarðsins var, eins og fyrr segir, þann 28. júní árið 2001.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri áhugaverð svör um Snæfellsnes, til dæmis:

Einnig má benda á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem fjallað er um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund

Höfundur

þjóðgarðsvörður

Útgáfudagur

11.5.2006

Spyrjandi

Anna Maria Magnúsdóttir

Tilvísun

Guðbjörg Gunnarsdóttir. „Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2006, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5904.

Guðbjörg Gunnarsdóttir. (2006, 11. maí). Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5904

Guðbjörg Gunnarsdóttir. „Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2006. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5904>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði?
Þjóðgarðar eru stofnaðir skv. 51 gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þeir eru á landsvæði sem ástæða þykir til að vernda sérstaklega vegna sérstæðs landslags eða lífríkis eða að á því hvíli söguleg helgi. Jafnframt er almenningi heimilt að fara um þjóðgarðinn eftir tilteknum reglum.

Markmiðið með því að stofna Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er á sama hátt annars vegar að vernda svæðið fyrir framtíðina, að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum svo sem kostur er, og hins vegar að tryggja að allir hafi sama tækifæri til að njóta svæðisins. Í heimi þar sem sífellt er gengið nær náttúrunni eykst mikilvægi verndaðra svæða.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er vestast á Snæfellsnesi, í Snæfellsbæ. Mörk þjóðgarðsins liggja um jaðar Háahrauns í landi Dagverðarár, um austurjaðar Snæfellsjökuls og norðurmörkin liggja á milli Gufuskála og Hellissands.



Snæfellsjökull. Mörk þjóðgarðsins liggja meðal annars um jaðar Háahrauns sem hér sést í forgrunni.

Fjölbreytileiki jarðmyndana er óvíða jafn mikill og á Snæfellsnesi. Snæfellsjökull er kjarni eldvirkninnar í þjóðgarðinum en verndargildi þjóðgarðsins felst einkum í mörgum og fjölbreyttum gosmyndunum. Snæfellsjökull skipar auk þess sérstakan sess í hugum fólks enda kraftur Jökulsins margrómaður.

Sérstaða þjóðgarðsins felst meðal annars í nálægð við sjóinn og afar fjölbreyttri strandlengju en þjóðgarðurinn er sá fyrsti hér á landi sem nær í sjó fram. Samspil manns og umhverfis er áberandi því meðfram ströndinni má víða sjá merkar menningarminjar tengdar búsetu og sjósókn frá tímum árabátaútgerðar og vitna þær um lífsbaráttu genginna kynslóða. Hraunin á svæðinu eru gljúp svo mjög lítið vatn er á yfirborði. Þrátt fyrir það þekur mosi og lággróður landið milli fjalls og fjöru og víða er blómskrúð og lágvaxnar trjáplöntur í hraungjótum. Sjófuglar eru í björgum þjóðgarðsins og söng mófugla má heyra víða. Ef heppnin er með má rekast á ref á ferli eða sjá hval undan ströndinni.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull heyrir undir Umhverfisstofnun (UST) sem tilheyrir Umhverfisráðuneyti. Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins en henni til ráðgjafar starfar ráðgjafarnefnd með fulltrúum Snæfellsbæjar, Fornleifaverndar ríkisins, Ferðamálasamtaka Snæfellsness og Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðsvörður sér um daglegan rekstur þjóðgarðsins en auk hans er heilsársstöðugildi sérfræðings við þjóðgarðinn. Á sumrin starfa landverðir í þjóðgarðinum. Þeir sjá um daglegan rekstur gestastofu á Hellnum, sumardagskrá, viðhald og eftirlit.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001 skv. reglugerð nr. 568/2001. Friðlýsing Snæfellsjökuls og vestasta hluta Snæfellsness á sér nokkuð langan aðdraganda. Fyrstu opinberu hugmyndir um friðun svæðisins má rekja til Eysteins Jónssonar ráðherra og formanns Náttúruverndarráðs 30 árum fyrir stofnun þjóðgarðsins. Á Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Náttúruverndarráð skoðaði svæðið sumarið 1974 og árið 1977 var lögð fram tillaga að friðlandi undir Jökli.

Verulegur skriður komst á málið árið 1994 þegar þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd til að vinna að friðlýsingu svæðisins. Formaður þeirrar nefndar var Sturla Böðvarsson núverandi samgönguráðherra. Nefndin skilaði lokaskýrslu árið 1997. Sú skýrsla er grunnur að þeirri vinnu sem fram fór í kjölfarið. Árið 2000 var síðan ákveðið að stofna þjóðgarðinn ári síðar. Um miðjan maí það ár skipaði Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fimm manna starfshóp til að annast undirbúning að stofnun hans. Formaður þeirrar nefndar var Stefán Jóhann Sigurðsson. Nefndin skilaði lokaskýrslu í júní það ár og stofndagur þjóðgarðsins var, eins og fyrr segir, þann 28. júní árið 2001.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri áhugaverð svör um Snæfellsnes, til dæmis:

Einnig má benda á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem fjallað er um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund...