Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvernig haldast ský saman?

Trausti Jónsson

Ský gefa okkur innsýn í eilífa samkeppni rakaþéttingar og uppgufunar. Skýið sýnir hvar rakaþéttingin hefur betur. Til að rakaþétting geti náð undirtökunum þarf raki sem er í lofti að kólna. Það getur átt sér stað á nokkra vegu, en uppstreymi er langalgengasta ástæða skýjamyndunar.

Uppstreymi á sér einkum stað á tvennan hátt:

(i) Annars vegar hitnar loftið að neðan, til dæmis við að snerta heitt yfirborð jarðar á sólardegi eða þegar kalt loft af landi kemur út yfir hlýrri sjó. Uppstreymi af þessu tagi gerist í bólum sem lyftast frá yfirborði. Meðan bólurnar eru hlýrri heldur en loftið umhverfis halda þær áfram að lyftast. Smátt og smátt blandast þær kaldara lofti frá hliðunum og ákefð lyftingarinnar minnkar.

Stundum eru bólurnar það margar saman að þær geta lyfst upp þar til raki í þeim fer að þéttast og örsmáir skýjadropar myndast. Þar sjáum við skýjabotn. Loftið heldur áfram að streyma upp skýið og droparnir með. Droparnir eru sífellt að myndast og eyðast. Allt uppstreymi mætir um síðir hlýrra lofti ofan við og kemst ekki lengra. Algengast er þá að skýið breiði úr sér í þeirri hæð, blandist þar þurrara lofti og eyðist.

(ii) Ský geta einnig myndast þegar rakt loft streymir upp eftir fjallshlíðum. Slík ský geta virst sitja heilu dagana á fjöllunum en þau innihalda aldrei sömu dropana. Loftið streymir í gegnum skýin sem myndast þeim megin fjallsins þar sem loft streymir upp – en eyðast þeim megin sem loftið streymir aftur niður.



Stöðugleiki og raki móta útlit skýja.

Við þekkjum svipað ferli kólnunar þar sem vatn sýður í hraðsuðukönnu. Gufa streymir út um stút könnunnar. Oft er bil á milli stúts og sjáanlegrar gufu. Næst stútnum er loftið heitast og ef ekkert sést er það ekki rakamettað. Síðan sést gufan um hríð. Í þessu tilviki á kólnunin sér trúlega stað vegna innblöndunar loftsins í herberginu. Það er ekkert sem heldur þessu litla skýi saman því við sjáum að skýið er sífellt að myndast við stútinn en að eyðast lengra frá honum. Ský haldast saman vegna þess að eftir því sem skýið sem við sjáum eyðist myndast strax annað í staðinn.

Ský eru því ekki hlutir heldur sýnilegur hluti kólnunarferlis. Bregðist kólnun eða raki hverfa þau á nokkrum mínútum. Uppstreymið (kólnunarrúmmálið) er miklu umfangsmeira heldur en skýið. Á heiðskírum sumardegi er uppstreymi mikið en loftið samt ekki alveg nógu rakt til þess að ský myndist. Stundum er loft aftur á móti svo rakt að mjög litla kólnun þarf til að koma myndun þeirra af stað.

Mynd:
  • Elementary Meterology. Íslenskur texti: Trausti Jónsson.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

7.11.2011

Spyrjandi

Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, f. 1996

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvernig haldast ský saman?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2011. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59344.

Trausti Jónsson. (2011, 7. nóvember). Hvernig haldast ský saman? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59344

Trausti Jónsson. „Hvernig haldast ský saman?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2011. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59344>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig haldast ský saman?
Ský gefa okkur innsýn í eilífa samkeppni rakaþéttingar og uppgufunar. Skýið sýnir hvar rakaþéttingin hefur betur. Til að rakaþétting geti náð undirtökunum þarf raki sem er í lofti að kólna. Það getur átt sér stað á nokkra vegu, en uppstreymi er langalgengasta ástæða skýjamyndunar.

Uppstreymi á sér einkum stað á tvennan hátt:

(i) Annars vegar hitnar loftið að neðan, til dæmis við að snerta heitt yfirborð jarðar á sólardegi eða þegar kalt loft af landi kemur út yfir hlýrri sjó. Uppstreymi af þessu tagi gerist í bólum sem lyftast frá yfirborði. Meðan bólurnar eru hlýrri heldur en loftið umhverfis halda þær áfram að lyftast. Smátt og smátt blandast þær kaldara lofti frá hliðunum og ákefð lyftingarinnar minnkar.

Stundum eru bólurnar það margar saman að þær geta lyfst upp þar til raki í þeim fer að þéttast og örsmáir skýjadropar myndast. Þar sjáum við skýjabotn. Loftið heldur áfram að streyma upp skýið og droparnir með. Droparnir eru sífellt að myndast og eyðast. Allt uppstreymi mætir um síðir hlýrra lofti ofan við og kemst ekki lengra. Algengast er þá að skýið breiði úr sér í þeirri hæð, blandist þar þurrara lofti og eyðist.

(ii) Ský geta einnig myndast þegar rakt loft streymir upp eftir fjallshlíðum. Slík ský geta virst sitja heilu dagana á fjöllunum en þau innihalda aldrei sömu dropana. Loftið streymir í gegnum skýin sem myndast þeim megin fjallsins þar sem loft streymir upp – en eyðast þeim megin sem loftið streymir aftur niður.



Stöðugleiki og raki móta útlit skýja.

Við þekkjum svipað ferli kólnunar þar sem vatn sýður í hraðsuðukönnu. Gufa streymir út um stút könnunnar. Oft er bil á milli stúts og sjáanlegrar gufu. Næst stútnum er loftið heitast og ef ekkert sést er það ekki rakamettað. Síðan sést gufan um hríð. Í þessu tilviki á kólnunin sér trúlega stað vegna innblöndunar loftsins í herberginu. Það er ekkert sem heldur þessu litla skýi saman því við sjáum að skýið er sífellt að myndast við stútinn en að eyðast lengra frá honum. Ský haldast saman vegna þess að eftir því sem skýið sem við sjáum eyðist myndast strax annað í staðinn.

Ský eru því ekki hlutir heldur sýnilegur hluti kólnunarferlis. Bregðist kólnun eða raki hverfa þau á nokkrum mínútum. Uppstreymið (kólnunarrúmmálið) er miklu umfangsmeira heldur en skýið. Á heiðskírum sumardegi er uppstreymi mikið en loftið samt ekki alveg nógu rakt til þess að ský myndist. Stundum er loft aftur á móti svo rakt að mjög litla kólnun þarf til að koma myndun þeirra af stað.

Mynd:
  • Elementary Meterology. Íslenskur texti: Trausti Jónsson.
...