Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni About.com fundu Forngrikkir upp nokkurs konar vekjaraklukku í kringum árið 250 f.Kr. Til þess nýttu þeir sér þekkingu sína á sjávarföllum. Þar sem þeir vissu að flóð og fjara skiptust á með reglulegu millibili ákváðu þeir að láta vatnsmagnið stjórna klukkunni. Þegar vatnsyfirborðið hafði náð tiltekinni hæð setti það af stað keðjuverkun sem leiddi að lokum til þess að blásið var í flautu og gaf það til kynna tímann.
Það var svo Levi Hutchins sem fann upp fyrstu vélrænu vekjaraklukkuna árið 1787. Þessi klukka hringdi aftur á móti alltaf á sama tíma, eða klukkan fjögur að nóttu, og ekki var hægt að stilla hana upp á nýtt. Það var svo ekki fyrr en um 100 árum seinna, eða 24. október árið 1876, sem Seth E. Thomas fékk einkaleyfi fyrir stillanlegri vekjaraklukku sem gat hringt á hvaða tíma sem er.
Þess er svo vert að geta að nýverið var fundin upp vekjaraklukka sem mælir á hvaða svefnstigi fólk er og vekur það einungis þegar það sefur mjög laust. Þetta gerir það að verkum að menn eiga auðveldara með að vakna og eru ekki jafn ruglaðir og þreyttir eftir svefninn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Getur maður sagt 'klukkan er (orðin) margt?' Hvert er þá andheitið? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hvað er tími? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Hvað er tíminn? eftir Hrannar Baldursson.
- Hvernig helst klukka í tölvu rétt þótt tölvan sé tekin úr sambandi? eftir EÖÞ.
- Hvernig verkar klukkan? eftir ÞV.
- Hversvegna er sagt: "klukkan er eitt, tvö eða þrjú," alltaf í hvorugkyni, en ekki í kvenkyni úr því að klukkan er kvenkynsorð? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Alarm clock. Wikipedia: The free encyclopedia.
- Inventors: Clock and Calendar History. About.com.
- The clock that wakes you when you are ready. New Scientist.
- Myndin er af síðunni mage:Windup alarm clock.jpg. Wikipedia: The free encyclopedia.