Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað þýðir orðið nörd?

Merking orðsins nörd (eða njörður/nörður) er nokkuð á reiki. Stundum hefur það verið notað í niðrandi merkingu um hallærislegt fólk sem kýs tæki og tól umfram mannleg samskipti. 'Nördar' eiga því ýmislegt sameiginlegt með bæði 'lúðum' og 'proffum', en þykja oft gáfaðri en lúðarnir og ef til vill hallærislegri en proffarnir.

Staðalmynd nördans er drengur með þykk flöskubotnsgleraugu í hvítum sokkum, of stuttum, innþröngum buxum sem illa sniðin skyrta eða of stór bolur eru girt ofan í. Hann er ekki töff, er frekar hlédrægur og hefur aldrei átt kærustu, en grúfir sig ofan í bækur eða ýmislegt tækjastúss. Dæmigerð áhugamál eru tölvur, hlutverkaspil, skák eða teiknimyndasögur. Honum finnst rosalega skemmtilegt að mála Warhammer-karla.


Napoleon Dynamite (t.h.) kemst ansi nálægt staðalmynd nördans. Hér sést hann ásamt Pedro vini sínum (t.v.).

Samkvæmt tilfinningu höfundar virðist merking orðsins nörd hafa breyst dálítið á síðustu árum. Nú er í meira mæli farið að nota það um fólk sem sekkur sér ofan í tiltekin áhugamál. Þannig er orðið tölvunörd notað um fólk með sérlega mikinn áhuga á tölvum eða tölvuleikjum, en einnig er hægt að vera golfnörd, sagnfræðinörd eða sálfræðinörd, og raunar virðist vera hægt að skeyta orðinu nörd aftan við svo til hvað sem er.

Orðið er heldur ekki alltaf notað í niðrandi merkingu, sérstaklega ekki þegar nördar nota orðið um sjálfa sig. Margir nördar eru einstaklega stoltir af því að vera eins og þeir eru. Einnig er komin fram sérstök nördatíska sem á ensku kallast 'geek chic'. Í henni eru hallærislegheitin gerð töff; það er orðið flott að vera svolítið sérvitur og skrýtinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd:

Útgáfudagur

22.5.2006

Spyrjandi

Selma Margrét Reynisdóttir, f. 1993

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

doktor í taugavísindum

Tilvísun

HMS. „Hvað þýðir orðið nörd?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2006. Sótt 21. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=5959.

HMS. (2006, 22. maí). Hvað þýðir orðið nörd? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5959

HMS. „Hvað þýðir orðið nörd?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2006. Vefsíða. 21. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5959>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gísli Pálsson

1949

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni.