Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?

Sverrir Jakobsson

Í kjölfar þess að Nikulás II. afsalaði sér krúnunni í mars 1917 var keisarafjölskyldan sett í stofufangelsi í Alexandershöllinni í Petrograd (St. Pétursborg). Bráðabirgðastjórnin hugðist flytja hana til Englands en þau áform mættu hins vegar andstöðu sovétsins* í Petrograd. Þá var keisarafjölskyldan flutt til Tobolsk í Síberíu í ágúst 1917. Þar var hún handtekin eftir októberbyltinguna og höfðu forystumenn Bolsévika áform um að rétta opinberlega yfir keisaranum.

Í maí 1918 var keisarafjölskyldan svo flutt til Ékaterínburg í Síberíu. Þá var hafin borgarastyrjöld í Rússlandi þar sem gagnbyltingarmenn, svokallaðir hvítliðar, börðust við stjórn Bolsévika í Pétursborg, og nutu stuðnings innrásarherja frá Bretlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Japan. Hvítliðar í Síberíu lutu stjórn Alexanders V. Koltsjaks aðmíráls, en hann hafði tekið völdin í Omsk og gerði sig líklegan til að sameina allar hreyfingar andsnúnar Bolsévikum austan Úralfjalla í stóran og mikinn her. Hvítliðar sóttu mjög hart að Ékaterínburg og mun ætlunin hafa verið að frelsa keisarann og gera hann að leiðtoga uppreisnarinnar gegn ráðstjórninni.


Rússneska keisarafjölskyldan. Nikulás og Alexandra eru fyrir miðju. Börnin eru Olga, Tatíana, María, Anastasía og Tsarevíts Alexei.

Í júlí 1918 var Ékaterínburg hertekin af tékknesku herdeildunum, sem höfðu þá gengið til liðs við gagnbyltingarmenn. Þá hafði ráðstjórnin í borginni hins vegar látið taka keisarafjölskylduna af lífi. Það var gert í stofufangelsi þeirra, húsi sem áður hafði tilheyrt auðugum borgara af gyðingaættum, Nikolaj Ípatíev að nafni, og fóru aftökurnar fram aðfaranótt 17. júlí 1918. Ekki er nákvæmlega vitað hver fyrirskipaði aftökurnar, hvort það var ráðstjórnin í Ékaterínburg eða miðstjórnin í Moskvu. Þær framkvæmdi hins vegar Jakov Júrovskíj (1878-1938), leyniþjónustumaður frá Tomsk.

Tíu aðrir ættingjar keisarans voru myrtir eða líflátnir af byltingarmönnum, en 35 munu hafa flúið land. Margir rússneskir aðalsmenn flýðu land eftir byltinguna þar sem Bolsévikar vildu útrýma aðlinum sem stétt. Í nóvember 1917 voru lögbundin forréttindi aðalsins afnumin með tilskipun og í kjölfarið fylgdi eignaupptaka.

Í júlí 1991 voru lík keisarafjölskyldunnar grafin upp, en tvö barnanna fundust ekki. Keisarafjölskyldan fékk að lokum formlega jarðarför 18. júlí 1998, 80 árum eftir að hún var tekin af lífi. Sú goðsögn er lífseig að Anastasía, dóttir keisarahjónanna, hafi lifað af, og jafnvel einnig sonurinn Alexei, en það stangast á við frásagnir sjónarvotta af aftökunum (sjá til dæmis Murder of the Imperial Family - The executioner Yurovsky's account). Samkvæmt frásögn Júrovskíjs skaut hann sjálfur keisarann og son hans. Önnur lífseig samsæriskenning sem finna má víða snýst um að gyðingar hafi lagt á ráðin um aftökurnar. Hvorug kenningin er tekin alvarlega af sagnfræðingum.


* Stjórnskipulag Sovétríkjanna (eða Ráðstjórnarríkjanna) fólst fyrst í stað í því að stjórnin var í höndum einstakra ráða, en rússneska orðið 'sovét' merkir 'ráð'. Upphafleg krafa Bolsévika og Leníns var að öll völd skyldu vera í höndum ráðanna fremur en þingsins í Pétursborg. Fljótlega varð þetta einungis sýndarmennska en framan af (einkum á árum borgarastyrjaldarinnar) höfðu ráðin töluverða sjálfstjórn, einfaldlega vegna þess að miðstjórnin hafði ekki tök á öðru.


Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir, frekara lesefni og mynd:

  • Robert K. Massie, The Romanovs: The Final Chapter (1996).
  • Greg King og Penny Wilson, The Fate of the Romanovs (2003). Sjá einnig samnefnda vefsíðu.
  • Myndin er af síðunni Romanoff album. Hoover Institution: On War, Revolution and Peace. Stanford University. Sótt 29.5.2006.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni? Hvað gerðu Bolsévikar við þá aðalsmenn sem þeir náðu?

Höfundur

Sverrir Jakobsson

prófessor í miðaldasögu við HÍ

Útgáfudagur

29.5.2006

Spyrjandi

Jón Gunnar Ólafsson, f. 1988
Elín Sif Kjartansdóttir
Jónas Clausen

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2006. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5980.

Sverrir Jakobsson. (2006, 29. maí). Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5980

Sverrir Jakobsson. „Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2006. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5980>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni?
Í kjölfar þess að Nikulás II. afsalaði sér krúnunni í mars 1917 var keisarafjölskyldan sett í stofufangelsi í Alexandershöllinni í Petrograd (St. Pétursborg). Bráðabirgðastjórnin hugðist flytja hana til Englands en þau áform mættu hins vegar andstöðu sovétsins* í Petrograd. Þá var keisarafjölskyldan flutt til Tobolsk í Síberíu í ágúst 1917. Þar var hún handtekin eftir októberbyltinguna og höfðu forystumenn Bolsévika áform um að rétta opinberlega yfir keisaranum.

Í maí 1918 var keisarafjölskyldan svo flutt til Ékaterínburg í Síberíu. Þá var hafin borgarastyrjöld í Rússlandi þar sem gagnbyltingarmenn, svokallaðir hvítliðar, börðust við stjórn Bolsévika í Pétursborg, og nutu stuðnings innrásarherja frá Bretlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Japan. Hvítliðar í Síberíu lutu stjórn Alexanders V. Koltsjaks aðmíráls, en hann hafði tekið völdin í Omsk og gerði sig líklegan til að sameina allar hreyfingar andsnúnar Bolsévikum austan Úralfjalla í stóran og mikinn her. Hvítliðar sóttu mjög hart að Ékaterínburg og mun ætlunin hafa verið að frelsa keisarann og gera hann að leiðtoga uppreisnarinnar gegn ráðstjórninni.


Rússneska keisarafjölskyldan. Nikulás og Alexandra eru fyrir miðju. Börnin eru Olga, Tatíana, María, Anastasía og Tsarevíts Alexei.

Í júlí 1918 var Ékaterínburg hertekin af tékknesku herdeildunum, sem höfðu þá gengið til liðs við gagnbyltingarmenn. Þá hafði ráðstjórnin í borginni hins vegar látið taka keisarafjölskylduna af lífi. Það var gert í stofufangelsi þeirra, húsi sem áður hafði tilheyrt auðugum borgara af gyðingaættum, Nikolaj Ípatíev að nafni, og fóru aftökurnar fram aðfaranótt 17. júlí 1918. Ekki er nákvæmlega vitað hver fyrirskipaði aftökurnar, hvort það var ráðstjórnin í Ékaterínburg eða miðstjórnin í Moskvu. Þær framkvæmdi hins vegar Jakov Júrovskíj (1878-1938), leyniþjónustumaður frá Tomsk.

Tíu aðrir ættingjar keisarans voru myrtir eða líflátnir af byltingarmönnum, en 35 munu hafa flúið land. Margir rússneskir aðalsmenn flýðu land eftir byltinguna þar sem Bolsévikar vildu útrýma aðlinum sem stétt. Í nóvember 1917 voru lögbundin forréttindi aðalsins afnumin með tilskipun og í kjölfarið fylgdi eignaupptaka.

Í júlí 1991 voru lík keisarafjölskyldunnar grafin upp, en tvö barnanna fundust ekki. Keisarafjölskyldan fékk að lokum formlega jarðarför 18. júlí 1998, 80 árum eftir að hún var tekin af lífi. Sú goðsögn er lífseig að Anastasía, dóttir keisarahjónanna, hafi lifað af, og jafnvel einnig sonurinn Alexei, en það stangast á við frásagnir sjónarvotta af aftökunum (sjá til dæmis Murder of the Imperial Family - The executioner Yurovsky's account). Samkvæmt frásögn Júrovskíjs skaut hann sjálfur keisarann og son hans. Önnur lífseig samsæriskenning sem finna má víða snýst um að gyðingar hafi lagt á ráðin um aftökurnar. Hvorug kenningin er tekin alvarlega af sagnfræðingum.


* Stjórnskipulag Sovétríkjanna (eða Ráðstjórnarríkjanna) fólst fyrst í stað í því að stjórnin var í höndum einstakra ráða, en rússneska orðið 'sovét' merkir 'ráð'. Upphafleg krafa Bolsévika og Leníns var að öll völd skyldu vera í höndum ráðanna fremur en þingsins í Pétursborg. Fljótlega varð þetta einungis sýndarmennska en framan af (einkum á árum borgarastyrjaldarinnar) höfðu ráðin töluverða sjálfstjórn, einfaldlega vegna þess að miðstjórnin hafði ekki tök á öðru.


Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir, frekara lesefni og mynd:

  • Robert K. Massie, The Romanovs: The Final Chapter (1996).
  • Greg King og Penny Wilson, The Fate of the Romanovs (2003). Sjá einnig samnefnda vefsíðu.
  • Myndin er af síðunni Romanoff album. Hoover Institution: On War, Revolution and Peace. Stanford University. Sótt 29.5.2006.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni? Hvað gerðu Bolsévikar við þá aðalsmenn sem þeir náðu?
...