Fólk sem skilgreinir sjálft sig sem emo er oft mjög meðvitað um tilfinningar sínar og finnst stundum eins og heimurinn sé á móti því. Unglingar virðast gjarnan samsama sig slíkum hugsunarhætti og er lítið um emo fólk yfir tvítugu. Tónlist skiptir miklu máli í þessum lífstíl, en aðallega er um að ræða pönk, rokk og óhefðbundna (e. indie) tónlist. Samkvæmt staðalmyndum eru emo-einstaklingar oft þunglyndir eða þykjast vera það. Þeir eiga það til að skaða sjálfan sig og skrifa sorgleg og þung ljóð um hvað þeim líður illa. Einnig eru þeir frekar feimnir og hlédrægir.
Í emo-klæðnaði er mikið um dökka liti, röndótt föt (þá aðallega svart og rautt eða svart og blátt) og hljómsveitarboli. Einnig er algengt að fötin séu notuð (e. vintage), og er yfirbragðið oft mjög sjúskað. Þröng föt eru líka vinsæl, sérstaklega hjá strákum og eru þeir þá gjarnan í of litlum peysum og þröngum buxum, jafnvel sem sniðnar eru á stelpur. Svartir Converse All-Stars skór eru mjög
vinsælir en einnig er algengt að ganga um í svörtum klossum eða hermannaskóm.
Til eru svokallaðar emo-hárgreiðslur. Einkennandi er svart hár sem hylur andlitið, oft með rauðum, fjólubláum eða brúnum strípum. Svartur augnblýantur er mjög vinsæll hjá báðum kynjum, jafnt sem gatanir í andliti og eyrum. Algengt er að gata nef, eyru, varir eða augabrúnir. Einnig er sumt emo-fólk með svokallað 'tunnel' en þá er járnsívalningur settur í gegnum gat á eyrnasneplinum til að stækka hann.
Heimildir og myndir
- Emo (slang). Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Emo (music). Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Fyrri myndin er fengin af síðunni Emo hair. Living With Style Forums.
- Seinni myndin er fengin af síðunni Emo. Urban Dictionary.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006.