Sólin Sólin Rís 08:23 • sest 18:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 25:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:26 í Reykjavík

Hvað gerir taugasálfræðingur og hver er munurinn á honum og taugalækni?

Styrmir Sævarsson

Bæði taugalæknar og taugasálfræðingar eru löggildir sérfræðingar sem starfa gjarnan innan heilbrigðiskerfisins eða á akademískum rannsóknarstofnunum. Taugalæknar vinna þó oftar en taugasálfræðingar á eigin vegum. Taugasálfræðingar og taugalæknar hafa þjálfun í að greina og meðhöndla margs konar heila- og taugasjúkdóma, og hafa yfirgripsmikla þekkingu á formfræðilegri og starfrænni taugalíffærafræði, lífeðlisfræði og sjúkdómafræði út- og miðtaugakerfisins. Þeir vinna oft saman að ýmsum verkefnum því hvor á sinn hátt hefur sérþekkingu á taugavísindum.

Störf taugalækna og taugasálfræðinga eru nokkuð frábrugðin eins og mismunandi prófgráður þeirra gefa til kynna. Grunnmenntun taugalækna er þannig í læknisfræði en taugasálfræðinga í sálfræði. Ólíkt taugasálfræðingum ljúka fæstir taugalæknar doktorsgráðu með sérfræðinámi. Auk þess eru gefnar aðrar doktorsgráður í taugalækningum en í taugasálfræði. Taugalæknar ljúka til að mynda frekar Dr.med. eða M.D. gráðum á meðan taugasálfræðingar ljúka oft Ph.D. eða Psy.D. gráðum. Skilgreiningar á þessum doktorsgráðum eru mismunandi eftir löndum og eru þær því oft ósambærilegar, til dæmis vegna ólíkra námskrafna og vísindalegs framlags sem krafist er.

Taugasálfræðingar rannsaka samband bæði heilabyggingar og heilastarfsemi við sálræn ferli eins og minni, athygli og skynjun. Þeir meta ýmiss konar vandamál sem rekja má til byggingar og starfsemi taugakerfisins og kortleggja mögulega röskun á vitsmunastarfsemi fólks. Dæmi um spurningar sem taugasálfræðingar reyna að svara eru: Hvers eðlis og hvernig er hægt að meðhöndla sjónræn eða önnur hugræn vandamál sjúklings með heilaskemmd? Hefur orðið truflun á einhverri vitrænni starfsemi eins og langtímaminni eftir heilablóðfall?


Taugasálfræðingar leggja oft fyrir ýmis sérhæfð próf og kanna þannig hvort og hvernig röskun hafi orðið á vitsmunastarfsemi.

Til að svara spurningum sem þessum nota taugasálfræðingar margs konar aðferðir og tæki, en sérstaklega má nefna stöðluð taugasálfræðileg próf. Einnig má nefna hugræna þjálfun, atferlisþjálfun, starfræna segulómmyndun og aðrar gerðir af heila- og taugamyndatöku, ásamt tölvuverkefnum til mælinga á viðbragðstíma og fleira. Taugasálfræðingar veita auk þess meðferð af ýmsum toga. Dæmi um þetta er sjónaðlögun með prismalinsum sem hægt er að nota til að meðhöndla skynröskunina gaumstol á áhrifaríkan hátt. Sjúklingar sem þjást af gaumstoli veita ekki hlutum í vinstra sjón- og skynsviði eftirtekt; þetta getur valdið afbrigðilegri hegðun, svo sem að sjúklingurinn raki sig bara hægra megin í andlitinu eða klæði sig einungis í hægri skálmina á buxunum sínum.

Taugalæknar eru þjálfaðir í að greina og meðhöndla margs konar vandamál fólks sem eiga rætur að rekja til taugakerfisins. Taugalæknar hafa oft sérþekkingu í túlkun heilarita og annarra eðlisfræðilegra mælinga á heila- og taugastarfsemi. Spurningar sem taugalæknar glíma við eru margvíslegar, til að mynda hvort heilaskemmd hafi orðið eftir súrefnisskort, hvaða lyfjameðferð sé heppilegust til að meðhöndla flogaköst sjúklings, hverjar séu orsakir heilablóðfalls og hvernig best sé að meðhöndla alvarlega vöðvakippi. Mikilvægustu verkfæri taugalækna eru lyf, eðlisfræðilegar mælingar eins og heilarit, lífeðlislegar mælingar og fleira.

Hafa ber í huga að erfitt er að skilgreina störf taugasálfræðinga og taugalækna nákvæmlega í stuttu svari eins og þessu þar sem innan beggja greina er fjöldinn allur af undirgreinum. Auk þess hafa framfarir í taugavísindum síðastliðna áratugi leitt til enn frekari skörunar starfssviða, meðal annars vegna betri tækjabúnaðar til að mæla heila- og taugastarfsemi. Störf taugasálfræðinga og taugalækna skarast líka við störf annarra stétta, þá sérstaklega klínískra sálfræðinga og geðlækna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

Höfundur

MSc í taugavísindum og hugfræði

Útgáfudagur

4.7.2006

Spyrjandi

Eva Guðjónsdóttir

Tilvísun

Styrmir Sævarsson. „Hvað gerir taugasálfræðingur og hver er munurinn á honum og taugalækni?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2006. Sótt 4. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6046.

Styrmir Sævarsson. (2006, 4. júlí). Hvað gerir taugasálfræðingur og hver er munurinn á honum og taugalækni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6046

Styrmir Sævarsson. „Hvað gerir taugasálfræðingur og hver er munurinn á honum og taugalækni?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2006. Vefsíða. 4. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6046>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerir taugasálfræðingur og hver er munurinn á honum og taugalækni?
Bæði taugalæknar og taugasálfræðingar eru löggildir sérfræðingar sem starfa gjarnan innan heilbrigðiskerfisins eða á akademískum rannsóknarstofnunum. Taugalæknar vinna þó oftar en taugasálfræðingar á eigin vegum. Taugasálfræðingar og taugalæknar hafa þjálfun í að greina og meðhöndla margs konar heila- og taugasjúkdóma, og hafa yfirgripsmikla þekkingu á formfræðilegri og starfrænni taugalíffærafræði, lífeðlisfræði og sjúkdómafræði út- og miðtaugakerfisins. Þeir vinna oft saman að ýmsum verkefnum því hvor á sinn hátt hefur sérþekkingu á taugavísindum.

Störf taugalækna og taugasálfræðinga eru nokkuð frábrugðin eins og mismunandi prófgráður þeirra gefa til kynna. Grunnmenntun taugalækna er þannig í læknisfræði en taugasálfræðinga í sálfræði. Ólíkt taugasálfræðingum ljúka fæstir taugalæknar doktorsgráðu með sérfræðinámi. Auk þess eru gefnar aðrar doktorsgráður í taugalækningum en í taugasálfræði. Taugalæknar ljúka til að mynda frekar Dr.med. eða M.D. gráðum á meðan taugasálfræðingar ljúka oft Ph.D. eða Psy.D. gráðum. Skilgreiningar á þessum doktorsgráðum eru mismunandi eftir löndum og eru þær því oft ósambærilegar, til dæmis vegna ólíkra námskrafna og vísindalegs framlags sem krafist er.

Taugasálfræðingar rannsaka samband bæði heilabyggingar og heilastarfsemi við sálræn ferli eins og minni, athygli og skynjun. Þeir meta ýmiss konar vandamál sem rekja má til byggingar og starfsemi taugakerfisins og kortleggja mögulega röskun á vitsmunastarfsemi fólks. Dæmi um spurningar sem taugasálfræðingar reyna að svara eru: Hvers eðlis og hvernig er hægt að meðhöndla sjónræn eða önnur hugræn vandamál sjúklings með heilaskemmd? Hefur orðið truflun á einhverri vitrænni starfsemi eins og langtímaminni eftir heilablóðfall?


Taugasálfræðingar leggja oft fyrir ýmis sérhæfð próf og kanna þannig hvort og hvernig röskun hafi orðið á vitsmunastarfsemi.

Til að svara spurningum sem þessum nota taugasálfræðingar margs konar aðferðir og tæki, en sérstaklega má nefna stöðluð taugasálfræðileg próf. Einnig má nefna hugræna þjálfun, atferlisþjálfun, starfræna segulómmyndun og aðrar gerðir af heila- og taugamyndatöku, ásamt tölvuverkefnum til mælinga á viðbragðstíma og fleira. Taugasálfræðingar veita auk þess meðferð af ýmsum toga. Dæmi um þetta er sjónaðlögun með prismalinsum sem hægt er að nota til að meðhöndla skynröskunina gaumstol á áhrifaríkan hátt. Sjúklingar sem þjást af gaumstoli veita ekki hlutum í vinstra sjón- og skynsviði eftirtekt; þetta getur valdið afbrigðilegri hegðun, svo sem að sjúklingurinn raki sig bara hægra megin í andlitinu eða klæði sig einungis í hægri skálmina á buxunum sínum.

Taugalæknar eru þjálfaðir í að greina og meðhöndla margs konar vandamál fólks sem eiga rætur að rekja til taugakerfisins. Taugalæknar hafa oft sérþekkingu í túlkun heilarita og annarra eðlisfræðilegra mælinga á heila- og taugastarfsemi. Spurningar sem taugalæknar glíma við eru margvíslegar, til að mynda hvort heilaskemmd hafi orðið eftir súrefnisskort, hvaða lyfjameðferð sé heppilegust til að meðhöndla flogaköst sjúklings, hverjar séu orsakir heilablóðfalls og hvernig best sé að meðhöndla alvarlega vöðvakippi. Mikilvægustu verkfæri taugalækna eru lyf, eðlisfræðilegar mælingar eins og heilarit, lífeðlislegar mælingar og fleira.

Hafa ber í huga að erfitt er að skilgreina störf taugasálfræðinga og taugalækna nákvæmlega í stuttu svari eins og þessu þar sem innan beggja greina er fjöldinn allur af undirgreinum. Auk þess hafa framfarir í taugavísindum síðastliðna áratugi leitt til enn frekari skörunar starfssviða, meðal annars vegna betri tækjabúnaðar til að mæla heila- og taugastarfsemi. Störf taugasálfræðinga og taugalækna skarast líka við störf annarra stétta, þá sérstaklega klínískra sálfræðinga og geðlækna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

...