móðirin. Ef til stendur að setja barn frekar ungt í sérherbergi þá er léttast að það sé gert þegar barnið er 5-9 mánaða. Á þeim aldri eru þau flest hætt næturdrykkju og kvarta yfirleitt ekki yfir að sofa ein.
Ef foreldrar vilja bíða lengur þá er oftast best að bíða þangað til barnið er 15-16 mánaða. Ástæða þess er að í kringum 1 árs aldurinn getur aðskilnaðarkvíði truflað sum börn (líklega um 30-40% barna); þau vilja ekki vera skilin ein eftir, hvorki að nóttu né degi. Þetta gengur samt oftast yfir á nokkrum vikum eða mánuðum.
Það er fleira en aldur barns sem taka þarf tillit til þegar rætt er um sérherbergi. Persónubundnir þættir geta haft þau áhrif að mælt er sérstaklega með að barn sofi einsamalt. Til dæmis geta sum börn verið ofurviðkvæm fyrir utanaðkomandi áreiti, þannig að minnstu hljóð eða jafnvel nærvera foreldra trufli svefn þeirra. Einnig getur verið að foreldrar sofi illa í návist barnsins og finnist til dæmis óþægilegt þegar barnið hreyfir sig í svefni. Einnig getur verið gott að láta barn sofa í sérherbergi ef það er mjög fjörugt og á það til að fara að leika ef það sér foreldra sína er það rumskar um nætur.
5-9 mánaða gömul börn þurfa venjulega engan undirbúning fyrir að flytja í sérherbergi annan en að hafa sömu hlutina í kringum sig og það er vant, svo sem sængina og bangsann sinn. Hjá eldri börnum er líka best að gera slíkt hið sama, en einnig er gott að barnið hafi leikið sér í herberginu og fengið að kynnast því í nokkra daga áður en það er látið sofa þar.
Ef fjölskyldan flytur í nýtt húsnæði er gott að barnaherbergið sé tilbúið þegar flutt er inn þannig að breytingar hjá barninu verði sem minnstar; þannig getur það flutt beint úr gamla herberginu sínu í það nýja í stað þess að sofa á mörgum mismunandi stöðum áður en nýja herbergið er tilbúið.
Ef venja á barnið á sérherbergi í fyrsta skipti samhliða flutningum þá er gott að annað foreldrið sofi inni hjá barninu fyrstu næturnar meðan barnið er að aðlagast nýju heimili. Ekki er ráðlagt að foreldrið sofi uppi í rúmi hjá barninu, heldur eingöngu inni í herberginu. Þannig aðlagast barnið rólega og finnur öryggi í nýju herbergi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
- Af hverju ganga sumir í svefni? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Breytist svefnþörf með aldri fólks? eftir Magnús Jóhannsson.
- Hvað er martröð og hvað orsakar hana? eftir Kristófer Þorleifsson.
- Hvernig er best að svæfa börn? eftir Örnu Skúladóttur.
- Myndin er af síðunni Image:Baby sleeping.jpg. Wikimedia Commons.
- Arna Skúladóttir. Draumaland: Svefn og svefnvenjur barna frá fæðingu til tveggja ára aldurs.
- T. Berry Brazelton. Touchpoints: Guide to the first years of life (einnig til um börn 3-6 ára).
- Helen Dorman og Clive Dorman. The Social Toddler: Promoting positive behaviour.
- Lynne Murray og Liz Andrews. The Social Baby: Understanding babies´ communication from birth.