Pan er yfirleitt sagður sonur guðsins Hermesar, sem meðal annars var guð fjár- og kúahirða. Móðir hans var oft talin vera ein af gyðlunum (náttúruvættir, e. nymphs). Í útliti var Pan aðeins hálfur maður; frá mitti og niður úr var hann eins og geit, auk þess sem hann hafði geitaeyru, horn á höfði og þykkan hökutopp eða alskegg. Hann var að sama skapi dýrslegur í hegðun, og eltist aðallega við gyðlur, en stundum líka við meyjar og fjárhirða.
Sagt er að Pan hafi getað vakið með fólki ástæðulausan ótta, eða felmtur. Af þessari ástæðu kallast felmtur 'panic' á ýmsum erlendum tungumálum; hið sama má segja um íslenska slanguryrðið 'panikka'.
Pan er líklega þekktastur fyrir að spila á reyrflautu sem við hann er kennd. Sagan segir að Pan hafi fellt hug til gyðlunnar Syrinx. Hún vildi aftur á móti ekkert með hann hafa og lét breyta sér í reyr til að losna undan honum. Pan dæsti, en við það söng í reyrnum. Hann tók þá gleði sína á ný og hét því að þau Syrinx skyldu vera saman alla tíð. Pan skar því næst reyrinn í mislangar stangir, festi þær saman og bjó til flautu sem kölluð var syrinx, en nefnist nú panflauta. Á myndinni sést Pan kenna Daphnis á slíka flautu.
Heimildir og myndir
- Gibson, M. (1979). Goð, menn og meinvættir: Úr grískum sögnum.
- Pan. Encyclopædia Britannica Online. Reykjavík: Saga.
- Hermes. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Pan. Theoi Project: Guide to Greek Mythology.
- Pan (mythology). Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Myndin er af síðunni Pan and Daphnis. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006.