
Samkvæmt rannsóknum líffræðinga sem fylgst hafa með ástandi hvítabjarna við Hudsonflóa í Kanada í áraraðir eru ísbirnir farnir að fara fyrr upp á land eftir að lagnaðarísinn brotnar. Jafnframt eru þeir magrari og verr haldnir en áður, auk þess sem dregið hefur úr frjósemi birnanna. Ísbjarnarstofninum við Hudsonflóa hefur því hnignað talsvert á undanförnum árum. Stofnstærðarmat frá árinu 1987 sýndi 1.197 dýr, en sú tala var komin niður í 935 dýr árið 2004. Þetta er því hnignun um 22% og telja vísindamenn að ástæðuna megi að mestu rekja til óhagstæðra skilyrða til fæðuöflunar. Árið 2006 munu nokkrar þjóðir gera úttekt á heildarstofnstærð hvítabjarna, en rannsóknir frá árinu 1997 sýndu að heildarstofnstærð bjarnarins á norðurhveli jarðar var á milli 20-25 þúsund dýr. Það verður því fróðlegt að bera saman þessar tölur til að gera sér grein fyrir stöðu tegundarinnar í dag. Fleiri neikvæðar afleiðingar fylgja rénun lagnaðaríss á búsvæðum hvítabjarnarins. Auknar fjarlægðir milli ísjaka auka vegalengdirnar sem birnirnir þurfa að synda til að komast á milli staða, sem aftur eykur hættuna á að þeir drukkni vegna ofþreytu eða brotsjóa. Þetta fullyrða alla vega vísindamenn frá bandarísku vísindastofnuninni Minerals Management Service, en þeir segjast sjá í rannsóknaferðum sífellt fleiri hvítabirni sem hafa drukknað, en það var afar sjaldgæft hér áður fyrr. Ekki er gott að segja hver framtíð hvítabjarna verður og vart vettvangur hér til að koma með spádóma um það. Vísindamenn spá því að niðurstöður stofnstærðarútreikninganna árið 2006 muni sýna allt að 30% hnignun ísbjarna í heild. Ef spár loftslagsfræðinga um enn frekari hlýnun loftslags ganga eftir má gera ráð fyrir að framtíð hvítabjarnarins sé dökk og hugsanlegt er að hann deyi jafnvel út á þessari öld. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um hvítabirni eftir sama höfund, til dæmis: Heimildir og mynd: