Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi?

Jón Hrólfur Sigurjónsson og Þórir Þórisson

Viðbrögð við tónlist, bæði tilfinningaleg og önnur, eru bæði almenn og persónubundin. Þau eru almenn í þeim skilningi að fólk með svipaðan bakgrunn lýsir tilfinningaáhrifum tónlistar á svipaðan veg, til dæmis sem dapurlegum, glaðlegum eða glæsilegum. Þau eru hins vegar jafnframt persónubundin og háð því hvernig við erum "stemmd" eins og stundum er sagt. Kenningasmiðir halda því einnig fram að áhrif tónlistar ráðist af frávikum hennar frá því sem hlustandinn væntir og fólk hafi mesta ánægju af að hlusta ef frávikin eru mátulega mikil.

Fólk með svipaðan bakgrunn lýsir áhrifum tónlistar á svipaðan hátt, jafnvel þótt það hafi aldrei heyrt tónlistina fyrr (Hevner 1935). Innan þessa hóps með svipaðan bakgrunn er svo einhver persónulegur breytileiki í upplifun, sem fólk getur stundum „skýrt" vegna þess að um meðvituð og lærð vensl er að ræða: Tónlistin er glaðleg, hún hressir mig, gerir mig glaðan af því hún tengist tiltekinni ánægjulegri minningu. Og stundum ekki skýrt: Tónlistin er tregafull en ég geri mér ekki grein fyrir af hverju. Þau viðbrögð eru líklega engu síður lærð, þótt ómeðvituð séu.

Flest viðbrögð okkar við tónlist eru sem sé lærð, eða meðtekin úr umhverfi og í uppvexti. Það þýðir þó ekki að ákveðin frumstæð viðbrögð við tónlist geti ekki verið eðlislæg og sameiginleg öllu mannkyni. Til dæmis að hægferðug tónlist sé róandi og hröð tónlist örvandi.

Til eru hugsuðir (t.d. listheimspekingurinn Suzanne Langer) sem ekki sætta sig við svo almennar og óljósar skýringar á áhrifum tónlistar heldur halda því fram að tónlist sé tilfinningar í tónum. Þeir sem þekkja James-Lange sálfræðikenninguna um tilfinningar ættu að sjá augljós tengsl við hana. Hér er meðal annars byggt á eftirfarandi hugmyndum: Öll mannleg reynsla gerist í tíma og rúmi; mannleg reynsla hefur þess vegna form af einhverju tagi (á sér upphaf, þróast og fjarar út eða endar). Allri reynslu fylgja tilfinningar og maðurinn er haldinn þeirri áráttu að leitast við að tákngera upplifanir sínar og tilfinningar. Þannig hafa bæði tónlist og tilfinningar á einhvern máta sama rökræna formið. Tónlist tákngerir og vekur tilfinningar með því að líkja eftir þeim til dæmis með sífelldu risi og hnigi, spennu og slökun. Samkvæmt þessu er um að ræða vissa hliðstæðu við tungumálið, sem samanstendur meðal annars af orðum og setningum sem vísa á hugtök og hluti sem aftur hafa tilfinningalegt innihald eða vekja tilfinningatengsl.

Augljóslega eru tengsl milli tónlistar og tilfinninga mjög almenns eðlis. Ekki er hægt að taka það sem nákvæma lýsingu á tilfinningaviðbrögðum, þegar fólk segir eitt verk hörkulegt en annað blíðlegt, heldur aðeins sem almenna vísbendingu um hvernig verkin tákngera tilfinningar. Hvernig hörkulegt – hvernig blíðlegt? Á sama hátt er erfitt að hugsa sér að tónsmiður geti vakið tilfinningu fyrir vonbrigðum fremur en einhvers konar depurð með því einu að nota moll. Hér má skjóta því að, að einn þekktasti tónsmiður 20. aldar, Stravinsky, hélt því fram að tónlist væri alls ófær um að túlka tilfinningar (!). Kannski hafði hann eitthvað þessu líkt í huga.

Tvær kenningar um tilfinningaviðbrögð hafa verið mest áberandi innan tónlistarsálfræði undanfarna áratugi. Annars vegar kenning George Mandler (1979) úr almennri sálfræði, og hins vegar kenning tónfræðingsins Leonard Meyer (1956). Þær eru svo líkar að í megindráttum má útskýra þær sameiginlega: (a) Fólk lærir stílreglur þeirrar tónlistar sem það hlustar á nægilega vel til að tónlist í þeim stíl vekur með því væntingar (sem þó eru að mestu ómeðvitaðar). Við ákveðnar músíkalskar aðstæður býst fólk fremur við einu ákveðnu framhaldi heldur en öðru. (b) Þegar tónlist bregður út af þessum væntingum (sem óþekkt tónverk gera nær alltaf) bregst ósjálfráða taugakerfið við með lífeðlisfræðilegri örvun (á sama hátt og til dæmis óþolinmæði veldur örvun). Þessi lífeðlisfræðilega örvun er tilfinningarnar (sbr. Langer og James-Lange kenninguna hér á undan). Örvunin getur verið sú sama (til dæmis aukinn hjartsláttur) fyrir jafn ólíkar tilfinningar og gleði og reiði, hún er því enn sem komið er merkingarlaus. (c) Túlkun hlustandans breytir öllu um þá tilfinningalegu merkingu sem örvunin og þar með tónlistin fær.

Túlkunin er að sjálfsögðu fjarri því að vera stöðug og óumbreytanleg. Jafnvel hjá sama einstaklingi getur hún breyst frá einni hlustun til annarrar á sama verkið, yfir lengra eða skemmra tímabil. Listinn yfir hugsanlegar áhrifabreytur er langur: Líðan (skap), smekkur, einbeiting, aukin kynni af tónlistinni, hvað í tónlistinni vekur athygli hlustandans í hvert sinn og svo framvegis. Það er því engin ástæða til að hin tilfinningalega upplifun jafnvel á sömu tónlistinni sé alltaf sú sama, og gildir þá einu hvort tónlistin er Metal eða eftir Bach eða Atla Heimi. Þetta er ein tegund svars við því „af hverju tónlist getur látið mann upplifa tilfinningar sem stundum eru manni framandi."

En af hverju er oft tiltölulega gott samkomulag um að tónlist hljómi annað hvort reiðilega eða dapurlega? Vegna þess, segir Meyer, að tónlistarlegar væntingar (Mandler kallar slíkar væntingar skemu) koma stundum af stað hugmyndum, sem ekki hafa með tónlist að gera heldur almenna lífsreynslu hlustandans; menn skynja eitthvað líkt með því tónlistarlega og því almenna. Þannig gæti til dæmis ákveðinn staður í Vorblótinu eftir Stravinsky vakið upp hugmynd um pústra og fólk því lýst tónlistinni sem ofbeldisfullri, herskárri.

Fyrrnefndir kenningasmiðir leggja áherslu á að frávik frá væntingum hafi áhrif þó að þau séu svo lítil að þau sleppi fram hjá meðvitaðri athygli hlustandans. Svo má vera, en kjarninn í báðum kenningum er að misræmi milli væntinga og þess sem raunverulega gerist í tónlistinni sé það sem veki tilfinningaviðbrögðin. Þá liggur beint við að spyrja, hvernig slíkar kenningar geti skýrt ánægju af tónlist. Er ekki líklegast að misræmi vekji undrun, jafnvel gremju eða pirring? Þetta er megingagnrýnin á misræmiskenningar. Þær duga vel til að skýra reiði eða undrun, en síður ánægju eða unað af tónlist. Til þess má grípa til annars kenningakerfis (svokallaðra „inverted-U" kenninga). Samkvæmt þeim er ánægja hlustandans mest þegar tónlist er hvorki of einföld né of flókin. Þannig má kannski bjarga misræmiskenningum fyrir horn með því að segja að hlustandinn upplifi mátulega mikil frávik frá væntingum sem ánægju.

Heimildir:

Cutietta, R. A. (1992). „Measurement of Attitudes and Preferences in Music Education”. Í R. Colwell (ritstj.), Handbook of research on music teaching and learning (bls. 295-309). New York: Schirmer Books, A Division of Macmillan, Inc.

Dowling, W. J. & Harwood, D. L. (1986): Music Cognition, kafli 8 „Emotion and Meaning” (bls. 202-224). New York: Academic Press, Inc.

Gabrielsson, A. & Juslin, P. (1996). „Emotional expression in music performance: Between the performer's intention and the listener's experience”. Psychology of Music, 24 (1), 68-91.

Meyer, L. B. (1956). Emotion and Meaning in Music. Chicago: The University of Chicago Press.

Miller, R. F. (1992). „Affective Response”. Í R. Colwell (ritstj.), Handbook of research on music teaching and learning (bls. 414-424). New York: Schirmer Books, A Division of Macmillan, Inc.

Langer, Susanne K. (1980). Philosophy in a New Key. Cambridge, MA: Harvard University Press.

Leonhard, Charles & House, Robert W. (1972). Foundations and Priciples of Music Education. New York: McGraw-Hill.

Reimer, Bennett (1989). A Philosophy of Music Education (2. útg.). Englewood Cliffs, Inc., NJ: Prentice-Hall.

Höfundar

kennari við kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík

Útgáfudagur

3.7.2000

Spyrjandi

Hreinn Ágústsson

Tilvísun

Jón Hrólfur Sigurjónsson og Þórir Þórisson. „Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2000, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=608.

Jón Hrólfur Sigurjónsson og Þórir Þórisson. (2000, 3. júlí). Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=608

Jón Hrólfur Sigurjónsson og Þórir Þórisson. „Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2000. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=608>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju getur tónlist vakið tilfinningar sem eru stundum framandi?
Viðbrögð við tónlist, bæði tilfinningaleg og önnur, eru bæði almenn og persónubundin. Þau eru almenn í þeim skilningi að fólk með svipaðan bakgrunn lýsir tilfinningaáhrifum tónlistar á svipaðan veg, til dæmis sem dapurlegum, glaðlegum eða glæsilegum. Þau eru hins vegar jafnframt persónubundin og háð því hvernig við erum "stemmd" eins og stundum er sagt. Kenningasmiðir halda því einnig fram að áhrif tónlistar ráðist af frávikum hennar frá því sem hlustandinn væntir og fólk hafi mesta ánægju af að hlusta ef frávikin eru mátulega mikil.

Fólk með svipaðan bakgrunn lýsir áhrifum tónlistar á svipaðan hátt, jafnvel þótt það hafi aldrei heyrt tónlistina fyrr (Hevner 1935). Innan þessa hóps með svipaðan bakgrunn er svo einhver persónulegur breytileiki í upplifun, sem fólk getur stundum „skýrt" vegna þess að um meðvituð og lærð vensl er að ræða: Tónlistin er glaðleg, hún hressir mig, gerir mig glaðan af því hún tengist tiltekinni ánægjulegri minningu. Og stundum ekki skýrt: Tónlistin er tregafull en ég geri mér ekki grein fyrir af hverju. Þau viðbrögð eru líklega engu síður lærð, þótt ómeðvituð séu.

Flest viðbrögð okkar við tónlist eru sem sé lærð, eða meðtekin úr umhverfi og í uppvexti. Það þýðir þó ekki að ákveðin frumstæð viðbrögð við tónlist geti ekki verið eðlislæg og sameiginleg öllu mannkyni. Til dæmis að hægferðug tónlist sé róandi og hröð tónlist örvandi.

Til eru hugsuðir (t.d. listheimspekingurinn Suzanne Langer) sem ekki sætta sig við svo almennar og óljósar skýringar á áhrifum tónlistar heldur halda því fram að tónlist sé tilfinningar í tónum. Þeir sem þekkja James-Lange sálfræðikenninguna um tilfinningar ættu að sjá augljós tengsl við hana. Hér er meðal annars byggt á eftirfarandi hugmyndum: Öll mannleg reynsla gerist í tíma og rúmi; mannleg reynsla hefur þess vegna form af einhverju tagi (á sér upphaf, þróast og fjarar út eða endar). Allri reynslu fylgja tilfinningar og maðurinn er haldinn þeirri áráttu að leitast við að tákngera upplifanir sínar og tilfinningar. Þannig hafa bæði tónlist og tilfinningar á einhvern máta sama rökræna formið. Tónlist tákngerir og vekur tilfinningar með því að líkja eftir þeim til dæmis með sífelldu risi og hnigi, spennu og slökun. Samkvæmt þessu er um að ræða vissa hliðstæðu við tungumálið, sem samanstendur meðal annars af orðum og setningum sem vísa á hugtök og hluti sem aftur hafa tilfinningalegt innihald eða vekja tilfinningatengsl.

Augljóslega eru tengsl milli tónlistar og tilfinninga mjög almenns eðlis. Ekki er hægt að taka það sem nákvæma lýsingu á tilfinningaviðbrögðum, þegar fólk segir eitt verk hörkulegt en annað blíðlegt, heldur aðeins sem almenna vísbendingu um hvernig verkin tákngera tilfinningar. Hvernig hörkulegt – hvernig blíðlegt? Á sama hátt er erfitt að hugsa sér að tónsmiður geti vakið tilfinningu fyrir vonbrigðum fremur en einhvers konar depurð með því einu að nota moll. Hér má skjóta því að, að einn þekktasti tónsmiður 20. aldar, Stravinsky, hélt því fram að tónlist væri alls ófær um að túlka tilfinningar (!). Kannski hafði hann eitthvað þessu líkt í huga.

Tvær kenningar um tilfinningaviðbrögð hafa verið mest áberandi innan tónlistarsálfræði undanfarna áratugi. Annars vegar kenning George Mandler (1979) úr almennri sálfræði, og hins vegar kenning tónfræðingsins Leonard Meyer (1956). Þær eru svo líkar að í megindráttum má útskýra þær sameiginlega: (a) Fólk lærir stílreglur þeirrar tónlistar sem það hlustar á nægilega vel til að tónlist í þeim stíl vekur með því væntingar (sem þó eru að mestu ómeðvitaðar). Við ákveðnar músíkalskar aðstæður býst fólk fremur við einu ákveðnu framhaldi heldur en öðru. (b) Þegar tónlist bregður út af þessum væntingum (sem óþekkt tónverk gera nær alltaf) bregst ósjálfráða taugakerfið við með lífeðlisfræðilegri örvun (á sama hátt og til dæmis óþolinmæði veldur örvun). Þessi lífeðlisfræðilega örvun er tilfinningarnar (sbr. Langer og James-Lange kenninguna hér á undan). Örvunin getur verið sú sama (til dæmis aukinn hjartsláttur) fyrir jafn ólíkar tilfinningar og gleði og reiði, hún er því enn sem komið er merkingarlaus. (c) Túlkun hlustandans breytir öllu um þá tilfinningalegu merkingu sem örvunin og þar með tónlistin fær.

Túlkunin er að sjálfsögðu fjarri því að vera stöðug og óumbreytanleg. Jafnvel hjá sama einstaklingi getur hún breyst frá einni hlustun til annarrar á sama verkið, yfir lengra eða skemmra tímabil. Listinn yfir hugsanlegar áhrifabreytur er langur: Líðan (skap), smekkur, einbeiting, aukin kynni af tónlistinni, hvað í tónlistinni vekur athygli hlustandans í hvert sinn og svo framvegis. Það er því engin ástæða til að hin tilfinningalega upplifun jafnvel á sömu tónlistinni sé alltaf sú sama, og gildir þá einu hvort tónlistin er Metal eða eftir Bach eða Atla Heimi. Þetta er ein tegund svars við því „af hverju tónlist getur látið mann upplifa tilfinningar sem stundum eru manni framandi."

En af hverju er oft tiltölulega gott samkomulag um að tónlist hljómi annað hvort reiðilega eða dapurlega? Vegna þess, segir Meyer, að tónlistarlegar væntingar (Mandler kallar slíkar væntingar skemu) koma stundum af stað hugmyndum, sem ekki hafa með tónlist að gera heldur almenna lífsreynslu hlustandans; menn skynja eitthvað líkt með því tónlistarlega og því almenna. Þannig gæti til dæmis ákveðinn staður í Vorblótinu eftir Stravinsky vakið upp hugmynd um pústra og fólk því lýst tónlistinni sem ofbeldisfullri, herskárri.

Fyrrnefndir kenningasmiðir leggja áherslu á að frávik frá væntingum hafi áhrif þó að þau séu svo lítil að þau sleppi fram hjá meðvitaðri athygli hlustandans. Svo má vera, en kjarninn í báðum kenningum er að misræmi milli væntinga og þess sem raunverulega gerist í tónlistinni sé það sem veki tilfinningaviðbrögðin. Þá liggur beint við að spyrja, hvernig slíkar kenningar geti skýrt ánægju af tónlist. Er ekki líklegast að misræmi vekji undrun, jafnvel gremju eða pirring? Þetta er megingagnrýnin á misræmiskenningar. Þær duga vel til að skýra reiði eða undrun, en síður ánægju eða unað af tónlist. Til þess má grípa til annars kenningakerfis (svokallaðra „inverted-U" kenninga). Samkvæmt þeim er ánægja hlustandans mest þegar tónlist er hvorki of einföld né of flókin. Þannig má kannski bjarga misræmiskenningum fyrir horn með því að segja að hlustandinn upplifi mátulega mikil frávik frá væntingum sem ánægju.

Heimildir:

Cutietta, R. A. (1992). „Measurement of Attitudes and Preferences in Music Education”. Í R. Colwell (ritstj.), Handbook of research on music teaching and learning (bls. 295-309). New York: Schirmer Books, A Division of Macmillan, Inc.

Dowling, W. J. & Harwood, D. L. (1986): Music Cognition, kafli 8 „Emotion and Meaning” (bls. 202-224). New York: Academic Press, Inc.

Gabrielsson, A. & Juslin, P. (1996). „Emotional expression in music performance: Between the performer's intention and the listener's experience”. Psychology of Music, 24 (1), 68-91.

Meyer, L. B. (1956). Emotion and Meaning in Music. Chicago: The University of Chicago Press.

Miller, R. F. (1992). „Affective Response”. Í R. Colwell (ritstj.), Handbook of research on music teaching and learning (bls. 414-424). New York: Schirmer Books, A Division of Macmillan, Inc.

Langer, Susanne K. (1980). Philosophy in a New Key. Cambridge, MA: Harvard University Press.

Leonhard, Charles & House, Robert W. (1972). Foundations and Priciples of Music Education. New York: McGraw-Hill.

Reimer, Bennett (1989). A Philosophy of Music Education (2. útg.). Englewood Cliffs, Inc., NJ: Prentice-Hall.

...