Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig er best að skilgreina hið vonda?

Haukur Már Helgason

Spurningin er viðamikil. Við leiðum hugann frá atriðum sem eru fólgin í orðalagi þó að vert sé að taka eftir þeim. Sér í lagi hljótum við að benda á að hér er beðið um bestu skilgreiningu en nokkrar eru sannarlega mögulegar og hvorki ljóst hvað mundi gera einhverja þeirra besta – er það sú nothæfasta eða sú rétta? - né þá hver hún er. Á eftir fer aðeins möguleg skýring á merkingu hins vonda, sem er fundin með því að skoða orðið í samhengi einstakra dóma (setninga), og síðan er gerð ófullkomin atlaga að skilgreiningu.


Menn hafa ýmsan ásetning, frá degi til dags, þó að sálfræðingar reyni að draga hin fjölbreytilegustu markmið mannsins í kerfi fárra hvata. Það sem stendur í vegi mannsins á leið hans að settu marki þykir honum miður og notar stundum orðið „vont" til að gefa það til kynna. Að lýsa því yfir að eitthvað sé vont er neikvæði gildisdómurinn.

Maðurinn notar fleiri orð, til dæmis lélegt, aumt, ljótt, til að fella neikvæða gildisdóma. Hefð er fyrir því að nota orðin í misjöfnu samhengi, en þó er ekki ljóst að allir dómar sem tjáðir eru með orðinu lélegt séu á ákveðinn máta frábrugðnir öllum dómum sem tjáðir eru með orðinu vont. Enda má finna dæmi þess að lýsingarorðin gangi hvert í annars stað og þau hafa að nokkru skipst á hlutverkum í tímans rás (dæmi er 'vondir dreglar' í Njálu (s. 292) í merkingunni 'ljótir dreglar'). Það sem á eftir fer er umfjöllun um neikvæða gildisdóma almennt.

Maður getur fellt neikvæðan gildisdóm um hlut eða atburð vegna þess að hann sé manninum sjálfum á móti skapi, eða einhverjum hópi manna sem hann telur sig tilheyra.

En þegar maður fellir slíkan dóm segir hann ekki: „Mér finnst þetta vont," heldur: „Þetta er vont."

Fyrsta notkun orðsins hjá barni er sjálfsagt: „Þetta var vont!" eða viðlíka, til að tjá það sama og með upphrópuninni „Ái!" eða orgi. Sársauki vekur þetta viðbragð og er tjáður með setningunni, jafnvel án þess að barnið hafi eiginlega í hyggju að fella nokkurn dom. Skilji barnið að í orðunum getur falist dómur er það þó sennilega ekki visst um hvort er dæmt, atburðurinn sem olli sársaukanum eða sársaukakenndin sjálf. Þar sem ásetningurinn er ekki skýr er kannski rétt að líta svo á að setningin sé ekki dómur heldur aðeins tjáning á sársauka.

Sú er sjálfsagt raunin um marga orðastrengi sem virðast og gætu verið gildisdómar við ýmsar aðstæður (dæmi væri í rifrildi hjóna: „Þú ert fífl!").

---

Ef við grennslumst nánar fyrir sjáum við þó að til eru önnur afbrigði notkunar. Tveir menn gætu staðið á tali og annar rétt hinum bitlausan hníf. Sá fyrri segir: „Vondur hnífur," og sá seinni svarar: „Þessi hnífur á að vera vondur." Hvað merkir það? Sá seinni samþykkir að hnífurinn sé vondur en segist um leið vilja hafa hann svo, það er, vonska hnífsins er honum ekki á móti skapi og samrýmist sjálfsagt einhverju markmiða hans.

Hér hefur notkun orðsins staðlast og þar sem menn vilja frá degi til dags að hnífar bíti má kalla þann hníf vondan sem bítur ekki. Orðasambandið „vondur hnífur" er þá orðið lýsing, jafngild lýsingunni „bitlaus hnífur" en er ekki lengur notað sem gildisdómur. Hnífurinn er vondur samkvæmt málvenju, sem er til orðin af því að hann væri flestum á móti skapi þegar hann er bitlaus, en maðurinn vill þó hafa hann svo.

Eins má nota orðasambandið „vont veður" sem samheiti við, til dæmis, „rok og rigning". Þá getur einhver sagt, mótsagnalaust: „Ég er afar hrifinn af vondu veðri."

---

„Oj! – Vont kaffi!" Þessi dómur byggir á smekk og er ekki séð að hann reyni að vísa út fyrir sig -- það er að segja: Hugsanlegt er að umrita upphrópunina svo: „Mér finnst þetta vont kaffi!" (Fagurfræðilegi dómurinn „Oj! – Ljót mynd!" er ef til vill af sama toga.)

---

Hnífur er verkfæri og veður er náttúrufyrirbæri. Hvorugt ræður sér sjálft, líkt og menn gera. Þegar orðið vont er notað um mann, er yfirleitt átt við að hneigðir hans eða ásetningur séu vond, það er að segja vinni gegn ásetningi þess sem mælir eða félaga hans.

Við segjum „vondur maður" um einræðisherra sem kúgar þegna sína, því hann hegðar sér ekki eins og mönnum ber. Og þegar maður segir: „Einræðisherrann er vondur maður," á hann ekki aðeins við: „Hann er öðruvísi en ég vil að hann sé," heldur: „Hann er öðruvísi en menn eiga að vera."

Enda þótt allur veruleikinn sem búi að baki þegar maður kallar einræðisherra vondan, sé að manninum einum þyki einræðisherrann vondur, á hann við annað. Hann vill vísa út fyrir sig og segja: „Maðurinn raunverulega er vondur, og ég er því óviðkomandi".

Að segja: „Mér finnst að þessu ætti að vera öðruvísi háttað," er að lýsa sálfræðilegri staðreynd. Að segja: „Þetta er vont" er ekki lýsing á sálfræðilegri staðreynd heldur staðhæfing um hinn „ytri" veruleik. Enda þótt maður sem segi: „Þetta er vont," ljóstri um leið upp um sálrænu staðreyndina.

Þegar maður er kallaður vondur er verið að áfellast hann, því hann hefði sjálfur getað gert sig öðruvísi. Slík sök er ekki gefin hnífnum eða veðrinu.

---

Yfirleitt virðist mega setja setninguna: „Þessu ætti heldur að vera öðruvísi háttað," í stað setningarinnar: „Þetta er vont." Það er þá nokkurs konar skilgreining á þeim dómi. En að skilgreina hið vonda er örðugt.

Að segja: „Hið vonda er sá eiginleiki sem allir hlutir hafa sem dómaranum er að móti skapi," kemur okkur áleiðis. En þó ekki alla leið því þegar ég, sem dómari, bregð fyrir mig þessu orði og lýsi hlut vondan, á ég oftast ekki við: „Hluturinn er öðruvísi en ég vil," heldur: „Hluturinn er öðruvísi en hann á að vera."

Höfundur

heimspekingur og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

3.7.2000

Spyrjandi

Olga Friðrika Antonsdóttir

Tilvísun

Haukur Már Helgason. „Hvernig er best að skilgreina hið vonda?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2000. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=610.

Haukur Már Helgason. (2000, 3. júlí). Hvernig er best að skilgreina hið vonda? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=610

Haukur Már Helgason. „Hvernig er best að skilgreina hið vonda?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2000. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=610>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er best að skilgreina hið vonda?
Spurningin er viðamikil. Við leiðum hugann frá atriðum sem eru fólgin í orðalagi þó að vert sé að taka eftir þeim. Sér í lagi hljótum við að benda á að hér er beðið um bestu skilgreiningu en nokkrar eru sannarlega mögulegar og hvorki ljóst hvað mundi gera einhverja þeirra besta – er það sú nothæfasta eða sú rétta? - né þá hver hún er. Á eftir fer aðeins möguleg skýring á merkingu hins vonda, sem er fundin með því að skoða orðið í samhengi einstakra dóma (setninga), og síðan er gerð ófullkomin atlaga að skilgreiningu.


Menn hafa ýmsan ásetning, frá degi til dags, þó að sálfræðingar reyni að draga hin fjölbreytilegustu markmið mannsins í kerfi fárra hvata. Það sem stendur í vegi mannsins á leið hans að settu marki þykir honum miður og notar stundum orðið „vont" til að gefa það til kynna. Að lýsa því yfir að eitthvað sé vont er neikvæði gildisdómurinn.

Maðurinn notar fleiri orð, til dæmis lélegt, aumt, ljótt, til að fella neikvæða gildisdóma. Hefð er fyrir því að nota orðin í misjöfnu samhengi, en þó er ekki ljóst að allir dómar sem tjáðir eru með orðinu lélegt séu á ákveðinn máta frábrugðnir öllum dómum sem tjáðir eru með orðinu vont. Enda má finna dæmi þess að lýsingarorðin gangi hvert í annars stað og þau hafa að nokkru skipst á hlutverkum í tímans rás (dæmi er 'vondir dreglar' í Njálu (s. 292) í merkingunni 'ljótir dreglar'). Það sem á eftir fer er umfjöllun um neikvæða gildisdóma almennt.

Maður getur fellt neikvæðan gildisdóm um hlut eða atburð vegna þess að hann sé manninum sjálfum á móti skapi, eða einhverjum hópi manna sem hann telur sig tilheyra.

En þegar maður fellir slíkan dóm segir hann ekki: „Mér finnst þetta vont," heldur: „Þetta er vont."

Fyrsta notkun orðsins hjá barni er sjálfsagt: „Þetta var vont!" eða viðlíka, til að tjá það sama og með upphrópuninni „Ái!" eða orgi. Sársauki vekur þetta viðbragð og er tjáður með setningunni, jafnvel án þess að barnið hafi eiginlega í hyggju að fella nokkurn dom. Skilji barnið að í orðunum getur falist dómur er það þó sennilega ekki visst um hvort er dæmt, atburðurinn sem olli sársaukanum eða sársaukakenndin sjálf. Þar sem ásetningurinn er ekki skýr er kannski rétt að líta svo á að setningin sé ekki dómur heldur aðeins tjáning á sársauka.

Sú er sjálfsagt raunin um marga orðastrengi sem virðast og gætu verið gildisdómar við ýmsar aðstæður (dæmi væri í rifrildi hjóna: „Þú ert fífl!").

---

Ef við grennslumst nánar fyrir sjáum við þó að til eru önnur afbrigði notkunar. Tveir menn gætu staðið á tali og annar rétt hinum bitlausan hníf. Sá fyrri segir: „Vondur hnífur," og sá seinni svarar: „Þessi hnífur á að vera vondur." Hvað merkir það? Sá seinni samþykkir að hnífurinn sé vondur en segist um leið vilja hafa hann svo, það er, vonska hnífsins er honum ekki á móti skapi og samrýmist sjálfsagt einhverju markmiða hans.

Hér hefur notkun orðsins staðlast og þar sem menn vilja frá degi til dags að hnífar bíti má kalla þann hníf vondan sem bítur ekki. Orðasambandið „vondur hnífur" er þá orðið lýsing, jafngild lýsingunni „bitlaus hnífur" en er ekki lengur notað sem gildisdómur. Hnífurinn er vondur samkvæmt málvenju, sem er til orðin af því að hann væri flestum á móti skapi þegar hann er bitlaus, en maðurinn vill þó hafa hann svo.

Eins má nota orðasambandið „vont veður" sem samheiti við, til dæmis, „rok og rigning". Þá getur einhver sagt, mótsagnalaust: „Ég er afar hrifinn af vondu veðri."

---

„Oj! – Vont kaffi!" Þessi dómur byggir á smekk og er ekki séð að hann reyni að vísa út fyrir sig -- það er að segja: Hugsanlegt er að umrita upphrópunina svo: „Mér finnst þetta vont kaffi!" (Fagurfræðilegi dómurinn „Oj! – Ljót mynd!" er ef til vill af sama toga.)

---

Hnífur er verkfæri og veður er náttúrufyrirbæri. Hvorugt ræður sér sjálft, líkt og menn gera. Þegar orðið vont er notað um mann, er yfirleitt átt við að hneigðir hans eða ásetningur séu vond, það er að segja vinni gegn ásetningi þess sem mælir eða félaga hans.

Við segjum „vondur maður" um einræðisherra sem kúgar þegna sína, því hann hegðar sér ekki eins og mönnum ber. Og þegar maður segir: „Einræðisherrann er vondur maður," á hann ekki aðeins við: „Hann er öðruvísi en ég vil að hann sé," heldur: „Hann er öðruvísi en menn eiga að vera."

Enda þótt allur veruleikinn sem búi að baki þegar maður kallar einræðisherra vondan, sé að manninum einum þyki einræðisherrann vondur, á hann við annað. Hann vill vísa út fyrir sig og segja: „Maðurinn raunverulega er vondur, og ég er því óviðkomandi".

Að segja: „Mér finnst að þessu ætti að vera öðruvísi háttað," er að lýsa sálfræðilegri staðreynd. Að segja: „Þetta er vont" er ekki lýsing á sálfræðilegri staðreynd heldur staðhæfing um hinn „ytri" veruleik. Enda þótt maður sem segi: „Þetta er vont," ljóstri um leið upp um sálrænu staðreyndina.

Þegar maður er kallaður vondur er verið að áfellast hann, því hann hefði sjálfur getað gert sig öðruvísi. Slík sök er ekki gefin hnífnum eða veðrinu.

---

Yfirleitt virðist mega setja setninguna: „Þessu ætti heldur að vera öðruvísi háttað," í stað setningarinnar: „Þetta er vont." Það er þá nokkurs konar skilgreining á þeim dómi. En að skilgreina hið vonda er örðugt.

Að segja: „Hið vonda er sá eiginleiki sem allir hlutir hafa sem dómaranum er að móti skapi," kemur okkur áleiðis. En þó ekki alla leið því þegar ég, sem dómari, bregð fyrir mig þessu orði og lýsi hlut vondan, á ég oftast ekki við: „Hluturinn er öðruvísi en ég vil," heldur: „Hluturinn er öðruvísi en hann á að vera."...