Manfred Albrecht Freiherr von Richthofen fæddist 2. maí árið 1892 í Breslau, Silesia í Þýskalandi (sem í dag heitir Worclaw og tilheyrir Póllandi). Hann stundaði bæði veiðar og hestamennsku á yngri árum, og þegar hann lauk herþjálfun 19 ára að aldri gekk hann til liðs við riddaraliðssveit Alexanders III Rússlandskeisara. Eftir að fyrsta heimsstyrjöldin hófst gegndi Richthofen hlutverki njósnara fyrir riddaraliðssveitina á bæði vestur- og austurvíglínunni. Árið 1915 sótti hann um og var fluttur í flugherinn.
Richthofen ákvað að verða flugmaður eftir að hafa komist í kynni við hinn fræga flugkappa Oswald Boelcke (1891-1916). Eftir að hann lauk flugþjálfun valdi Boelcke hann til að ganga til liðs við úrvalssveit orrustuflugmanna sem hann fór fyrir. Richthofen vann sinn fyrsta flugbardaga yfir Cambrai í Frakklandi þann 17. september 1916. Til að minnast þess bað hann vin sinn, sem var skartgripasali í Berlín, að gera fyrir sig silfurbikar og grafa í hann dagsetningu bardagans og gerð flugvélarinnar sem hann sigraði. Hann hélt þessari hefð áfram allt þar til lokað var fyrir flutningsleiðir silfurs til Þýskalands, en þá átti hann 60 bikara.
Fljótt kom í ljós að Richthofen var góður flugmaður. Hann var þó ekki talinn sá allra færasti; margir aðrir þóttu sýna meiri flughæfni. Richthofen var hins vegar brátt þekktur fyrir að vera öruggur og varkár flugmaður sem fylgdi mjög nákvæmlega þeim reglum um flugorrustur sem Boecke hafði skilgreint, og þetta virtist lykillinn að velgengni hans í háloftunum. Sigurganga hans frekar en flughæfni hefur svo valdið því að hann er þekktur sem einn færasti flugmaður sögunnar.

Eftirlíking af flugvél rauða barónsins.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006.
