Stærsti demantur sem fundist hefur kallast Cullinan og var 3106 karöt (rúmlega 600 g). Hann fannst árið 1905 í námu sem kallaðist Premier Mine í Transvaal, sem þá var bresk nýlenda en varð seinna hluti af Suður-Afríku. Demanturinn var gjöf stjórnvalda í Transvaal til Játvarðs VII Englandskonungs á 66 ára afmæli hans árið 1907. Skömmu seinna var demanturinn skorinn niður í 105 minni steina. Sá stærsti þeirra er 530.2 karöt og kallast Cullinan 1, einnig nefndur Star of Africa (Afríkustjarnan), og prýðir hann núna veldissprota bresku konungsfjölskyldunnar. Þess má geta að á 100 ára afmæli námunnar var henni gefið nýtt nafn og kallast núna Cullinan demantanáman eftir þessum fræga demanti.
Cullinan I var lengi vel stærsti skorni demantur heims. Árið 1985 fannst hins vegar demantur í sömu námu sem var 755 karöt óskorinn. Úr honum kom svo stærsti skorni demantur heims, en hann var 545.67 karöt eða rúmum 3 grömmum þyngri en Cullinan I. Demantur þessi kallast Golden Jubilee og var hann gefinn konungi Tælands árið 1997 í tilefni af 50 ára krýningarafmæli hans.
Verðmæti demanta vex ekki í beinu hlutfalli við stærð þeirra heldur er frekar um veldisvöxt að ræða, því stærri sem demanturinn er því dýrara er hvert karat hans. Ástæðan er sú að stórir demantar eru mun fágætari en litlir og þar með eftirsóttari. Það er eiginlega ekki hægt að verðleggja demanta eins og þá sem nefndir eru í þessu svari, en þeir ganga yfirleitt ekki kaupum og sölum heldur hafa yfirleitt verið gefnir konungum eða öðru fyrirfólki. Einnig er líklegt að það geti aukið verðgildi demanta ef þeir hafa prýtt krúnudjásn eða aðra táknræna gripi. Höfundur gat alla vega ekki fundið neinar upplýsingar um mögulegt markaðsverð þessara stærstu demanta.
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um demanta, til dæmis:- Hvað er eins karats demantur þungur? eftir EÖÞ
- Hvert er bræðslumark demants? eftir Ágúst Kvaran
- Hver er munurinn á náttúrulegum demanti og iðnaðardemanti? eftir Svein Ólafsson
- Heldur fyrirtækið De Beers verði demanta langt yfir raunvirði þeirra? eftir Gylfa Magnússon
- "Diamond," Microsoft® Encarta® Online Encyclopedia 2006
- The World of Famous Diamonds: "The Cullinan" og "The Golden Jubilee"
- Wikipedia, the free encyclopedia: "The Golden Jubilee", "Cullinan Diamond" og "Diamond"
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006.