Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein að 'það að festa gengi krónunnar við gengi evru hefði ekki hjálpað við að draga úr skuldavandanum og hefði valdið mun meira atvinnuleysi'?

Ólafur Margeirsson

Krugman á líklega við að gengisfelling krónunnar hafi viðhaldið tekjum íslenskra heimila betur, miðað við skuldabyrði þeirra, heldur en ef krónan hefði verið á fastgengi við evruna. Gengisfelling krónunnar hafi þannig stuðlað að því að hægt var að koma í veg fyrir skuldahjöðnun og enn meiri efnahagsvanda á Íslandi en raunin varð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.

***

Í spurningunni er vitnað í grein eftir hagfræðinginn Paul Krugman þar sem hann fjallar um skuldabagga íslenskra heimila og er vafalaust með skuldahjöðnun (e. debt deflation) í huga.

Skuldahjöðnun er ferli sem fer í gang þegar skuldir ákveðins hóps eða hópa innan hagkerfisins – oftast er talað um fjóra hópa, heimilin, hið opinbera, fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki – eru svo háar miðað við tekjur viðkomandi hóps að einstakir aðilar innan hópsins reyna að selja eignir sínar, eða ganga á fjárhagslegan sparnað, til þess að eiga fyrir afborgunum og vöxtum af lánum. Við þessar aðstæður er hætt við því að í gang fari svokallaður skuldahjöðnunarspírall (e. debt deflationary spiral).

Paul Krugman hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2008 fyrir rannsóknir sínar og kenningar um alþjóðaviðskipti.

Spírallinn myndast á eftirfarandi hátt: Þar sem margir aðilar reyna að selja eignir sínar á sama tíma verður mikil og almenn verðlækkun á eignum, hvort sem um ræðir húseignir, hlutabréf eða almennar neysluvörur sem seldar eru í búðum. Við það getur myndast neikvæð verðbólga, sérstaklega í síðari umferðum spíralsins. Þegar eignir og neysluvörur lækka í verði minnkar hvati fjárfesta til þess að fjárfesta í þessum eignum sem og verksmiðjum sem framleiða viðkomandi neysluvörur. Þar með dregur úr almennri fjárfestingu í hagkerfinu. Þegar almenn fjárfesting dregst saman minnka atvinnutekjur í hagkerfinu því einstaklingar sem vinna við fjárfestingar missa störf sín. Þetta veldur því að tekjur annarra fyrirtækja, sem áður nutu góðs af neyslu þeirra sem unnu við fjárfestingar, dragast saman. Atvinnuleysi eykst þar af leiðandi í öllum atvinnugreinum, sér í lagi þó í fjárfestingargeirum á borð við byggingariðnað.

Þegar hér er komið sögu hafa bæði atvinnutekjur heimila og tekjur fyrirtækja af sölu neysluvara og þjónustu dregist saman. Þar með hefst spírallinn að nýju því nú selja þessir aðilar eignir sínar og ganga á sparnað til að geta átt fyrir afborgunum og vöxtum af lánum sínum. Í þessu ferli festist síðan hagkerfið.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að skuldahjöðnun er greiðsluflæðisvandamál (e. cash flow problem). Grundvallarvandamálið sem kemur skriðunni af stað og viðheldur spíralnum er skortur á nettótekjum, það eru heildartekjur að frádregnum skatti og neyslu, í hlutfalli við greiðslubyrði lántaka. Í raun skiptir tvennt mestu máli: 1) inngreiðsluflæðið í formi tekna lántaka og 2) útgreiðsluflæðið í formi skatta, almennrar neyslu eða launakostnaðar, og afborgana og vaxta af lánum. Ef tekjur eru nægar til að mæta vöxtum og afborgunum er skuldahjöðnunarspírallinn ekki til staðar.

Að þessu sögðu er hægt að huga aftur að orðum Krugmans. Það sem hann á við er að þegar krónan féll við efnahagshrunið árið 2008 tókst almennum íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega útflutningsfyrirtækjum, að viðhalda starfsemi sinni að stórum hluta. Þetta tókst þeim vegna þess að samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum var bætt með gengisfalli krónunnar.

Þar með gátu fyrirtækin selt vörur sínar og fengið tekjur, í krónum, sem notaðar voru til að greiða út að mestu óbreytt nafnlaun. Tekjum heimila var þannig viðhaldið, í krónum, og eytt í vörur og þjónustu frá fyrirtækjum, ekki síst þeim sem ekki höfðu tekjur af útflutningi. Þar sem skuldir heimilanna eru að mestu í krónum voru enn fremur til tekjur til að greiða af lánum en þar hjálpaði líka til að eiginlegum lánskostnaði verðtryggðra lána var skotið á frest með því að bæta honum við höfuðstólinn en einnig vegna þess að almennir vextir fjárskuldbindinga lækkuðu.

Ef krónan hefði hins vegar verið á fastgengi við evru og tekist hefði að verja það fastgengi, sem verður að teljast ólíklegt í sjálfu sér, þá hefði verið ómögulegt að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja með því að láta gengi krónunnar falla. Í þeim aðstæðum hefði verið nauðsynlegt að fara það sem Krugman kallar „lettnesku leiðina“ en í henni fólst lækkun launa í krónum talið (e. internal devaluation), í stað gengisfellingar (e. external devaluation), til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum.

Með greininni birti Krugman þessa mynd sem á að sýna að vinnumarkaðurinn í Lettlandi fór verst út úr efnahagshruninu 2008 af þeim löndum sem sýnd eru (Eistland, Ísland, Írland, Lettland). Lettneska latið er á fastgengi við evruna og skoðun Krugmans er sú að það hafi valdið því að meiri samdráttur varð í Lettlandi heldur en á Íslandi þar sem ekki var hægt að gengisfella latið.

Ef lettneska leiðin hefði verið farin á Íslandi hefðu fyrirtæki þurft að lækka laun og segja upp starfsfólki með þeim afleiðingum að atvinnutekjur heimila hefðu dregist saman. Slíkur samdráttur atvinnutekna, í krónum talinn, hefði að lokum skilað sér í minni tekjum fyrirtækja sem ekki starfa við útflutning. Við slíkar aðstæður hefðu heimilin átt í enn meiri erfiðleikum með að greiða af lánum sínum því tekjur þeirra, í krónum, hefðu dregist mun meira saman en þær gerðu við gengisfellinguna. Skuldahjöðnun hefði verið næsta skref.

Hugsun Krugmans er því þessi: Gjaldfelling krónunnar tryggði íslenskum heimilum hærri atvinnutekjur, miðað við greiðslubyrði lána þeirra, heldur en ef krónan hefði verið á fastgengi við evru og því verið viðhaldið sama hvað á hefði gengið. Þar með, þrátt fyrir að nafngreiðslur og höfuðstóll lána heimila hafi hækkað, hjálpaði gjaldfelling krónunnar við að koma í veg fyrir enn skyndilegri skuldahjöðnun og efnahagsáföll á Íslandi en í raun áttu sér stað.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein: "but pegging to the euro would not have helped on that front, and would have led to a much worse crash in employment."

Höfundur

doktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi

Útgáfudagur

19.1.2012

Spyrjandi

Ziggy Jonsson

Tilvísun

Ólafur Margeirsson. „Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein að 'það að festa gengi krónunnar við gengi evru hefði ekki hjálpað við að draga úr skuldavandanum og hefði valdið mun meira atvinnuleysi'?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2012. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61027.

Ólafur Margeirsson. (2012, 19. janúar). Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein að 'það að festa gengi krónunnar við gengi evru hefði ekki hjálpað við að draga úr skuldavandanum og hefði valdið mun meira atvinnuleysi'? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61027

Ólafur Margeirsson. „Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein að 'það að festa gengi krónunnar við gengi evru hefði ekki hjálpað við að draga úr skuldavandanum og hefði valdið mun meira atvinnuleysi'?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2012. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61027>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein að 'það að festa gengi krónunnar við gengi evru hefði ekki hjálpað við að draga úr skuldavandanum og hefði valdið mun meira atvinnuleysi'?
Krugman á líklega við að gengisfelling krónunnar hafi viðhaldið tekjum íslenskra heimila betur, miðað við skuldabyrði þeirra, heldur en ef krónan hefði verið á fastgengi við evruna. Gengisfelling krónunnar hafi þannig stuðlað að því að hægt var að koma í veg fyrir skuldahjöðnun og enn meiri efnahagsvanda á Íslandi en raunin varð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.

***

Í spurningunni er vitnað í grein eftir hagfræðinginn Paul Krugman þar sem hann fjallar um skuldabagga íslenskra heimila og er vafalaust með skuldahjöðnun (e. debt deflation) í huga.

Skuldahjöðnun er ferli sem fer í gang þegar skuldir ákveðins hóps eða hópa innan hagkerfisins – oftast er talað um fjóra hópa, heimilin, hið opinbera, fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki – eru svo háar miðað við tekjur viðkomandi hóps að einstakir aðilar innan hópsins reyna að selja eignir sínar, eða ganga á fjárhagslegan sparnað, til þess að eiga fyrir afborgunum og vöxtum af lánum. Við þessar aðstæður er hætt við því að í gang fari svokallaður skuldahjöðnunarspírall (e. debt deflationary spiral).

Paul Krugman hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2008 fyrir rannsóknir sínar og kenningar um alþjóðaviðskipti.

Spírallinn myndast á eftirfarandi hátt: Þar sem margir aðilar reyna að selja eignir sínar á sama tíma verður mikil og almenn verðlækkun á eignum, hvort sem um ræðir húseignir, hlutabréf eða almennar neysluvörur sem seldar eru í búðum. Við það getur myndast neikvæð verðbólga, sérstaklega í síðari umferðum spíralsins. Þegar eignir og neysluvörur lækka í verði minnkar hvati fjárfesta til þess að fjárfesta í þessum eignum sem og verksmiðjum sem framleiða viðkomandi neysluvörur. Þar með dregur úr almennri fjárfestingu í hagkerfinu. Þegar almenn fjárfesting dregst saman minnka atvinnutekjur í hagkerfinu því einstaklingar sem vinna við fjárfestingar missa störf sín. Þetta veldur því að tekjur annarra fyrirtækja, sem áður nutu góðs af neyslu þeirra sem unnu við fjárfestingar, dragast saman. Atvinnuleysi eykst þar af leiðandi í öllum atvinnugreinum, sér í lagi þó í fjárfestingargeirum á borð við byggingariðnað.

Þegar hér er komið sögu hafa bæði atvinnutekjur heimila og tekjur fyrirtækja af sölu neysluvara og þjónustu dregist saman. Þar með hefst spírallinn að nýju því nú selja þessir aðilar eignir sínar og ganga á sparnað til að geta átt fyrir afborgunum og vöxtum af lánum sínum. Í þessu ferli festist síðan hagkerfið.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að skuldahjöðnun er greiðsluflæðisvandamál (e. cash flow problem). Grundvallarvandamálið sem kemur skriðunni af stað og viðheldur spíralnum er skortur á nettótekjum, það eru heildartekjur að frádregnum skatti og neyslu, í hlutfalli við greiðslubyrði lántaka. Í raun skiptir tvennt mestu máli: 1) inngreiðsluflæðið í formi tekna lántaka og 2) útgreiðsluflæðið í formi skatta, almennrar neyslu eða launakostnaðar, og afborgana og vaxta af lánum. Ef tekjur eru nægar til að mæta vöxtum og afborgunum er skuldahjöðnunarspírallinn ekki til staðar.

Að þessu sögðu er hægt að huga aftur að orðum Krugmans. Það sem hann á við er að þegar krónan féll við efnahagshrunið árið 2008 tókst almennum íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega útflutningsfyrirtækjum, að viðhalda starfsemi sinni að stórum hluta. Þetta tókst þeim vegna þess að samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum var bætt með gengisfalli krónunnar.

Þar með gátu fyrirtækin selt vörur sínar og fengið tekjur, í krónum, sem notaðar voru til að greiða út að mestu óbreytt nafnlaun. Tekjum heimila var þannig viðhaldið, í krónum, og eytt í vörur og þjónustu frá fyrirtækjum, ekki síst þeim sem ekki höfðu tekjur af útflutningi. Þar sem skuldir heimilanna eru að mestu í krónum voru enn fremur til tekjur til að greiða af lánum en þar hjálpaði líka til að eiginlegum lánskostnaði verðtryggðra lána var skotið á frest með því að bæta honum við höfuðstólinn en einnig vegna þess að almennir vextir fjárskuldbindinga lækkuðu.

Ef krónan hefði hins vegar verið á fastgengi við evru og tekist hefði að verja það fastgengi, sem verður að teljast ólíklegt í sjálfu sér, þá hefði verið ómögulegt að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja með því að láta gengi krónunnar falla. Í þeim aðstæðum hefði verið nauðsynlegt að fara það sem Krugman kallar „lettnesku leiðina“ en í henni fólst lækkun launa í krónum talið (e. internal devaluation), í stað gengisfellingar (e. external devaluation), til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum.

Með greininni birti Krugman þessa mynd sem á að sýna að vinnumarkaðurinn í Lettlandi fór verst út úr efnahagshruninu 2008 af þeim löndum sem sýnd eru (Eistland, Ísland, Írland, Lettland). Lettneska latið er á fastgengi við evruna og skoðun Krugmans er sú að það hafi valdið því að meiri samdráttur varð í Lettlandi heldur en á Íslandi þar sem ekki var hægt að gengisfella latið.

Ef lettneska leiðin hefði verið farin á Íslandi hefðu fyrirtæki þurft að lækka laun og segja upp starfsfólki með þeim afleiðingum að atvinnutekjur heimila hefðu dregist saman. Slíkur samdráttur atvinnutekna, í krónum talinn, hefði að lokum skilað sér í minni tekjum fyrirtækja sem ekki starfa við útflutning. Við slíkar aðstæður hefðu heimilin átt í enn meiri erfiðleikum með að greiða af lánum sínum því tekjur þeirra, í krónum, hefðu dregist mun meira saman en þær gerðu við gengisfellinguna. Skuldahjöðnun hefði verið næsta skref.

Hugsun Krugmans er því þessi: Gjaldfelling krónunnar tryggði íslenskum heimilum hærri atvinnutekjur, miðað við greiðslubyrði lána þeirra, heldur en ef krónan hefði verið á fastgengi við evru og því verið viðhaldið sama hvað á hefði gengið. Þar með, þrátt fyrir að nafngreiðslur og höfuðstóll lána heimila hafi hækkað, hjálpaði gjaldfelling krónunnar við að koma í veg fyrir enn skyndilegri skuldahjöðnun og efnahagsáföll á Íslandi en í raun áttu sér stað.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Hvað á Krugman við þegar hann segir í nýlegri grein: "but pegging to the euro would not have helped on that front, and would have led to a much worse crash in employment."
...