Hvað eru þeir hávaxnir? Eru konurnar líka hávaxnar? Og hvasð eru þeir margir?Tutsiættbálkurinn (einnig nefndur Watusi) býr á landsvæði sem nær yfir ríki Rúanda og Búrúndí. Í Rúanda búa rúmlega 8,6 milljónir manna, þar af um 15% Tutsimenn (tæplega 1,3 milljónir). Í Búrúndí búa rétt rúmar 8 milljónir og um 14% þeirra eru Tutsimenn (rúmlega 1,1 milljón). Ef reiknað er með nokkrum tugum þúsunda manna í öðrum nágrannaríkjum (mest 10.000 í Austur-Kongó) þá telur Tutsiættbálkurinn um það bil tvær og hálfa milljón manna. Fyrir rúmum áratug síðan, vorið 1994, snarminnkaði fjöldi Tutsimanna á nokkrum vikum er um ein milljón Tutsimanna (800 þúsund í Rúanda) var drepin í markvissu þjóðarmorði af hendi Hutumanna án þess að alþjóðasamfélagið aðhefðist nokkuð.

Hópur Tutsimanna í Rúanda. Myndin er eftir M. Weiss (1910).
Meginástæðan fyrir langlífri ranghugmynd manna um hæð Tutsimanna kann þó að vera pólitísk. Í Rúanda bjuggu þrír kynþættir manna af ólíkum uppruna: Auk Tutsi voru þar Twa og Hutumenn. Þegar þýsku nýlenduherrarnir komu til landsins seint á nítjándu öld skaut skökku við að Tutsimenn voru í langflestum valdastöðum en Hutumenn, sem voru mikill meirihluti þjóðarinnar, gegndu fyrst og fremst hlutverki vinnuaflsins og voru vart sýnilegir í valdastöðum.
Þjóðverjar voru mjög gagnteknir af þessari valdabyggingu vegna þess að Tutsimenn voru hávaxnir eins og þeir (líklega ögn hærri) og þar að auki mun ljósari á hörund en Hutumenn. Þetta samræmdist vel hugmyndum Þjóðverja um yfirburði hvíta kynstofnsins og ályktuðu þeir því að Tutsimenn hlytu að vera skyldari Evrópumönnum en aðrar Afríkuþjóðir. Hrifning þeirra var svo mikil að þeir gerðu það sem í valdi þeirra stóð til að tryggja völd Tutsimanna enn frekar. Mögulegt er að ýktar frásagnir af hæð Tutsimanna á þessum tíma hafi því beinlínis verið til þess fallnar að leggja áherslu á hugmyndafræði nýlenduherranna um yfirburði hvíta kynstofnsins. Tutsimönnum var þar hampað sem hávöxnum ljósum kynþætti sem á eigin forsendum kom sér í yfirburðastöðu í samfélagi sínu þrátt fyrir að vera í miklum minnihluta.
Við lok fyrri heimstyrjaldarinnar áttu sér stað blóðug valdaskipti þar sem Belgar tóku við nýlendunni af Þjóðverjum. Nýju herrarnir lögðu enn áherslu á að hafa Tutsimenn í öllum valdastöðum landsins. Þeir gengu afnvel lengra en Þjóðverjar með því að skipa þjóðinni í skýrt afmarkaða bása eftir meintum uppruna og kynþætti. Það var gert með þeim hætti að vísindamenn mældu út ýmis stærðarhlutföll á líkama hvers og eins og niðurstaðan var gefin út á skírteini sem öllum var skylt að bera á sér öllum stundum. Þetta var gert algjörlega í trássi við sögu þjóðarinnar því aðgreining kynþátta var í raun mjög óljós og talsverð blöndun hafði átt sér stað meðal fólksins á löngum tíma. Þessi aðgreining nýlenduherranna, ásamt aukinni kúgun og valdboði, skapaði mikla togstreitu í samfélaginu með skelfilegum afleiðingum nokkrum áratugum síðar.
Meðalhæð Tutsimanna er víðs fjarri gömlu goðsögninni um rúmlega tveggja metra háa risa. Því er hins vegar ekki að neita að Tutsimenn eru mjög hávaxið fólk, líklega hávaxnasta þjóð Afríku, og voru að öllum líkindum talsvert hávaxnari en Evrópubúar fyrr á öldum. Þeir voru þá trúlega hávaxnasta þjóð í veröldinni. Í dag eru það þó Norður-Evrópubúar sem tróna á toppnum, en meðalhæð karla hjá öllum Norðurlandaþjóðum er komin nokkuð yfir 180 sm. Hæstir allra Evrópuþjóða eru þó Hollendingar sem ná um það bil 183 sm meðalhæð og eru því að jafnaði talsvert hávaxnari en Tutsimenn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað var minnsti maður Íslands hár? eftir Árna V. Þórsson.
- Hver er líkamsvöxtur unglinga? eftir EDS.
- Peoples, Nations and Cultures: An A-Z of the Peoples of the World, Past and Present. John Mackenzie (ristj.).
- Patterns of Human Growth (2. útgáfa). Barry Bogin.
- A Short History of Height: Science, 31. Mars 2005. Christopher Watt. (sjá einnig vefvísun hér fyrir neðan)
- Um hæð manna: Human height. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- A short history of height. Macleans.ca.
- Um hæsta þjóðflokk heims: Tallest tribe. Guinnes World Records.
- Um "anthropometry": Historical Anthropometrics. EH.net Encyclopedia.
- Um sögu Rúanda: History of Rwanda. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Tölfræðilegar upplýsingar um Rúanda og Búrúndí: World Factbook.
- Um þjóðarmorðin í Rúanda: Hotel Rwanda.
- Mynd af Tutsimönnum er af Arte africana: Foto storiche.
- Mynd af Tutsi, Hutu og Twa er af síðunni La popolazione- la storia. Virgilioweb.it.