Sólin Sólin Rís 04:02 • sest 22:49 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:53 • Sest 03:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:57 • Síðdegis: 15:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:24 • Síðdegis: 21:47 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’?

Guðrún Kvaran

Spurningin var í heild sinni svona:

Á Hólssandi ekki langt frá Dettifossi er merkt á landakort örnefnið ‘Smjörbítill’. Hvað er smjörbítill og hvað merkir orðið ‘bítill’?

Smjörbítill er lítt þekkt orð í íslensku. Í Íslenskum þjóðsögum Jóns Árnasonar er í sögunni af Fóu feykirófu sagt frá syni kerlingar einnar. Hann var jafnan í búri hjá móður sinni og „át það af matnum er hann vildi helzt; því var hann Smjörbítill kallaður“(V:168). Þarna mætti hugsa sér að smjörbítill merkti: ‘sá sem bítur smjör, það er neytir þess sem best er’. Smjör var eitt sinn eftirsótt munaðarvara og því var nærtækt að líkja einhverjum góðum kosti við smjör. Á landnámsöld var gæðum landsins lýst þannig að „þar drypi smjör af hverju strái“. Er þar átt við góða haga fyrir búfénað.


Smjör var eitt sinn eftirsótt munaðarvara.

Nafnorðið bítill ósamsett virðist ekki notað í málinu fyrr en hljómsveitin Bítlarnir kom fram og er merkingin alls óskyld fyrrnefndum smjörbítli. Bítill í smjörbítill er líklegast dregið af sögninni bíta með viðskeytinu -ill sem stundum er notað til að mynda gerandheiti, til dæmis sendill ‘sá sem sendist’ af senda. Bítill er þá ‘sá sem bítur’. Nafn hljómsveitarinnar er orðaleikur með orðin ‘beetles’ eða ‘bjöllur’ og ‘beat’ sem merkir ‘taktur’. Íslenska orðið yfir hljómsveitarmeðlimina er dæmigerð aðlögun erlends orðs að málinu og hljóðlögmálum þess.

Hvað örnefnið varðar fengust þær heimildir frá Örnefnastofnun Íslands að engin lýsing fylgi þeim Smjörbítli sem spurt var um, en þar er um vörðu að ræða. Í Leirhöfn á Sléttu eru Ytri- og Syðri-Smjörbítill og fylgir þeim þessi lýsing: „Næst Selfjalli er Vegagilsfjall. Þar á milli er hvilft, svo er Vegagil, og þar næst er Ytri-Smjörbítill og Syðri-Smjörbítill, sem eru allháir hnúkar á austurbrún fjallanna. Milli Smjörbítla þótti kostaland fyrir kvíaær.“ Hugsanlegt er að nærri vörðunni séu góðir bithagar og að það sé ástæðan fyrir nafngiftinni.

Mynd: Butter and cheese. Flickr.com. Höfundur myndar er roboppy. Myndin er birt undir Creative Commons leyfinu.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

8.8.2006

Spyrjandi

Alexander Ingimarsson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2006. Sótt 18. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6111.

Guðrún Kvaran. (2006, 8. ágúst). Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6111

Guðrún Kvaran. „Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2006. Vefsíða. 18. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6111>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað merkir örnefnið ‘Smjörbítill’ og hvaðan kemur orðið ‘bítill’?
Spurningin var í heild sinni svona:

Á Hólssandi ekki langt frá Dettifossi er merkt á landakort örnefnið ‘Smjörbítill’. Hvað er smjörbítill og hvað merkir orðið ‘bítill’?

Smjörbítill er lítt þekkt orð í íslensku. Í Íslenskum þjóðsögum Jóns Árnasonar er í sögunni af Fóu feykirófu sagt frá syni kerlingar einnar. Hann var jafnan í búri hjá móður sinni og „át það af matnum er hann vildi helzt; því var hann Smjörbítill kallaður“(V:168). Þarna mætti hugsa sér að smjörbítill merkti: ‘sá sem bítur smjör, það er neytir þess sem best er’. Smjör var eitt sinn eftirsótt munaðarvara og því var nærtækt að líkja einhverjum góðum kosti við smjör. Á landnámsöld var gæðum landsins lýst þannig að „þar drypi smjör af hverju strái“. Er þar átt við góða haga fyrir búfénað.


Smjör var eitt sinn eftirsótt munaðarvara.

Nafnorðið bítill ósamsett virðist ekki notað í málinu fyrr en hljómsveitin Bítlarnir kom fram og er merkingin alls óskyld fyrrnefndum smjörbítli. Bítill í smjörbítill er líklegast dregið af sögninni bíta með viðskeytinu -ill sem stundum er notað til að mynda gerandheiti, til dæmis sendill ‘sá sem sendist’ af senda. Bítill er þá ‘sá sem bítur’. Nafn hljómsveitarinnar er orðaleikur með orðin ‘beetles’ eða ‘bjöllur’ og ‘beat’ sem merkir ‘taktur’. Íslenska orðið yfir hljómsveitarmeðlimina er dæmigerð aðlögun erlends orðs að málinu og hljóðlögmálum þess.

Hvað örnefnið varðar fengust þær heimildir frá Örnefnastofnun Íslands að engin lýsing fylgi þeim Smjörbítli sem spurt var um, en þar er um vörðu að ræða. Í Leirhöfn á Sléttu eru Ytri- og Syðri-Smjörbítill og fylgir þeim þessi lýsing: „Næst Selfjalli er Vegagilsfjall. Þar á milli er hvilft, svo er Vegagil, og þar næst er Ytri-Smjörbítill og Syðri-Smjörbítill, sem eru allháir hnúkar á austurbrún fjallanna. Milli Smjörbítla þótti kostaland fyrir kvíaær.“ Hugsanlegt er að nærri vörðunni séu góðir bithagar og að það sé ástæðan fyrir nafngiftinni.

Mynd: Butter and cheese. Flickr.com. Höfundur myndar er roboppy. Myndin er birt undir Creative Commons leyfinu....