Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Susan Jocelyn Bell Burnell er breskur stjarneðlisfræðingur sem er frægust fyrir hlutdeild sína í uppgötvun fyrstu tifstjörnunnar þegar hún var doktorsnemi í Cambridge. Leiðbeinandi hennar, Antony Hewish, fékk síðar Nóbelsverðlaunin fyrir þessa uppgötvun ásamt Martin Ryle.
Jocelyn Bell Burnell (f. 1943).
Jocelyn Bell Burnell fæddist á árum síðari heimsstyrjaldarinnar inn í ríka kvekarafjölskyldu í Belfast á Norður-Írlandi. Á unglingsárunum lagði hún stund á vísindi við Lurgan College á Norður-Írlandi og síðan við háskólann í Glasgow þaðan sem hún útskrifaðist með B.S.-gráðu í eðlisfræði árið 1965.
Næst lá leið hennar til Cambridge þar sem hún hóf doktorsnám í stjarnvísindum. Hópurinn sem hún tilheyrði fékkst við útvarpsbylgjur og eitt af fyrstu verkefnum hennar var að hjálpa til við byggingu nýs útvarpsstjörnusjónauka. Fyrstu tvö ár hennar í náminu fóru að miklu leyti í byggingarvinnu utandyra þar sem hún lærði að beita sleggjuhamri í þágu stjarnvísindanna.
Eftir tvö ár var byggingu sjónaukans lokið og gagnasöfnun og gagnavinnsla hófst. Þetta var fyrir þann tíma sem að tölvur voru almennar. Gögnin voru því skrifuð út sem línurit á pappír, alls 30 metra pappírslengja á dag. Það kom í hlut rannsóknarnemanna að fara yfir alla pappírsbunkana. Jocelyn Bell Burnell sá um keyrslu sjónaukans og gagnavinnslu í alls sex mánuði og á þeim tíma fór hún yfir marga kílómetra af gögnum. Það var í þessum gögnum sem hún fór að taka eftir furðulegum merkjum − tæpum sentimetra löngum − sem hún ekki skildi. Hún sýndi leiðbeinanda sínum gögnin en hann gat heldur ekki útskýrt þau. Þetta voru gögnin sem sýndu fyrstu mælingar á tifstjörnum.
Gögnin sem sýndu fyrstu mælingar á tifstjörnum.
Þegar vísindafólk fær niðurstöður sem það skilur ekki eru fyrstu viðbrögð þeirra ekki 'Ó hvað þetta er spennandi − ég hef uppgötvað eitthvað nýtt!'. Fyrstu viðbrögðum eru 'Ó nei, nú hef ég klúðrað einhverju'. Bell Burnell og Hewish voru engar undantekningar frá þessum staðalvísindamanni og það fyrsta sem þeim kom til hugar var að einhver galli væri í sjónaukanum. Bell Burnell lýsir þessu á þann veg að hún hafi verið mjög stressuð yfir því að mistökin væru hennar sök og að hún yrði að hverfa frá námi án þess að ljúka doktorsnámi.
Mælingar í öðrum stjörnusjónauka, framkvæmdar af Paul Scott og Robin Collins, sýndu hins vegar að merkið væri ekki einungis bundið sjónaukanum sem Bell Burnell hafði aðstoðað við að byggja. Það var þó ekki nóg til að hrópa 'Eureka' því vel gat verið að merkið væri frá manngerðum útvarspssendi í nágrenninu. En mælingar sem John Pilkington framkvæmdi sýndu að merkið kom frá um 65 parsec fjarlægð − sem er langt fyrir utan jörðina og sólkerfið en innan Vetrarbrautarinnar.
Jocelyn Bell Burnell við útvarpssjónaukann sem hún hjálpaði við að byggja og sem mældi fyrstu tifstjörnurnar.
Niðurstöðurnar voru birtar í grein í tímaritinu Nature 1968 þar sem Hewish var nefndur fyrsti höfundur, Bell Burnell kom næst og Pilkington var þriðji. Auk þess voru Scott og Collins nefndir til sögunnar. Greinin lýsir mælingunum en setur ekki fram kenninguna um tifstjörnur − það voru þeir Thomas Gold og Franco Pacini sem komu fram með hana seinna sama ár.
Að loknu doktorsnámi vann Bell Burnell við Southampton-háskóla, University College í London og Royal Observatory í Edinborg. Síðar varð hún prófessor við Opna háskólann (e. Open University) og að lokum deildarforseti við háskólann í Bath. Þegar þetta svar er skrifað er hún gestaprófessor við háskólann í Oxford í Mansfield College.
Það hafa ýmsir gagnrýnt að gengið var fram hjá Bell Burnell þegar Hewish og Ryle fengu Nóbelsverðlaunin. Hún var hvergi nefnd á nafn í tilkynningunni frá Nóbelsnefndinni og Hewish minntist heldur ekki á hana í þakkarræðunni. Bell Burnell segir sjálf að það hafi einfaldlega ekki tíðkast að gefa doktorsnemum Nóbelsverðlaunin (þó nokkrar undantekningar séu á þeirri reglu). Hewish hefur hins vegar varið ákvörðun Nóbelsnefndarinnar og hefur líkt framlagi Bell Burnell við hlutverk þess sem klifraði upp mastrið og fylgdist með sjóndeildarhringnum á skipi Kólumbusar við fund Ameríku. Framlag hennar hafi verið gagnlegt en ekki skapandi og því ekki verðugt Nóbelsverðlaunanna. Ýmsir merkir stjarneðlisfræðingar, þar á meðal Fred Hoyle, Thomas Gold og Jeremiah Ostriker, eru þó ósammála Hewish og hafa gagnrýnt þessa ákvörðun Nóbelsnefndarinnar harðlega.
Heimildir og myndir:
Árdís Elíasdóttir. „Hver er Jocelyn Bell Burnell og var það hún sem uppgötvaði fyrstu tifstjörnuna?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2011, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61141.
Árdís Elíasdóttir. (2011, 22. nóvember). Hver er Jocelyn Bell Burnell og var það hún sem uppgötvaði fyrstu tifstjörnuna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61141
Árdís Elíasdóttir. „Hver er Jocelyn Bell Burnell og var það hún sem uppgötvaði fyrstu tifstjörnuna?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2011. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61141>.