Þegar meta á hversu "eðlileg" tengsl og sjálfstæði barna eru gagnvart foreldrum og öfugt, koma til sögunnar mörg og misjafnlega flókin atriði eins og aldur barnsins, þroskastig og persónuleikaþættir, en líka samskiptamynstrið, hvernig hlutverk mótast, á hvaða lífsskeiði fjölskyldan er, samband foreldranna og áhrif upprunafjölskyldunnar. Hvort foreldri er eitt eða í sambúð skiptir líka máli ásamt öðrum félagsaðstæðum og menningarumhverfi. Nauðsynlegt er fyrir sálarheill og tilfinningaþroska barns að vera nátengt og háð foreldrum sínum fyrstu árin. En ekki síður er það forsenda heilbrigðs tilfinningalífs og tengsla við aðra síðar meir að losa um þessi bönd og geta aðgreint sig sem sjálfstæð persóna. Heilbrigðir foreldrar vita þetta og skilja. Bæði meðal manna og dýra er ungunum "hrint út úr hreiðrinu" svo að þeir verði "fleygir". Langflestir foreldrar leggja sig fram um að tengjast börnum sínum traustum tilfinningaböndum í frumbernsku en losa svo um á viðeigandi hátt, á viðeigandi tíma þegar barnið fer að fikra sig frá þeim. Það er barninu eðlislægt að leita eftir sjálfstæði, en hjálp og skilningur foreldra eru nauðsynleg svo að vel takist til. Þegar þriggja ára barn "neitar" að borða eða láta klæða sig og "vill sjálft", reynir á að foreldrar bregðist við því sem merki um eðlilegt þroskaferli. Það þarf hins vegar líka að stýra barninu og geta sett því mörk. Sama er uppi á teningnum þegar kemur að kynþroskaskeiðinu. Þá er unglingurinn oft óbilgjarn og finnst í öllu vegið að sjálfstæði sínu, jafnvel með saklausri, málefnalegri spurningu foreldris. Í báðum tilvikum reynir oft á styrk og öryggi foreldra að halda um stjórnvölinn með lagni. Eftir því sem barnið er eldra er frekar hægt að ræða málin við það og ná sameiginlegri niðurstöðu. Unglingurinn lærir þá um leið að móta sínar eigin skoðanir og þekkja eigin viðbrögð og þarfir og ná þannig sjálfstæðri stýringu með hjálp og viðurkenningu foreldrisins. Sumir unglingar eiga ekki því láni að fagna að foreldrar hirði um að leggja þetta á sig. Þeir fara þá ýmist á mis við þessa reynslu eða þeim tekst – meðvitað eða ómeðvitað - að verða sér út um hana annars staðar. Sjálfstæðisferlið, að losa sig frá foreldrunum, hefst í raun um leið og barnið fer að aðgreina sig sem einstakling. Fyrst nokkurra vikna gamalt, með samsömun við foreldrana, síðan í umsjá annarra og í leikjum með félögum, síðan á kynþroskaskeiðinu á unglingsárum og loks þegar það myndar eigin fullorðins- eða fjölskyldutengsl. Mikil togstreita getur skapast í samskiptum foreldra og barna ef foreldrar hafa ekki skilning á að hjálpa barninu til að ná sjálfstæði í samræmi við þarfir sínar og þroska. Sömuleiðis getur komið til átaka - eða uppgjafar ef foreldrar eru of uppteknir af því að börnin mótist í þeirra anda, á þeirra forsendum og samkvæmt þeirra metnaði og markmiðum. Börn og ungmenni eru oft næm á óskir og þarfir foreldra sinna. Þau vilja ekki bregðast eða særa þá og reyna þá oft að hegða sér samkvæmt vilja foreldranna eins og þau telja hann vera. Þau skynja stundum að pressa frá foreldum byggist á kvíða þeirra yfir áliti umhverfisins sem dæmi þau eða viðurkenni eftir lífsstefnu og frammistöðu barnanna. Stundum spilast vel úr, en stundum verða harmleikir og höfnun. Í raun er ekki hægt að tala um sökudólga eða beina orsakavalda. Það er í gagnkvæmu samspili sem hinir margvíslegu áhrifaþættir koma svo sterkt til sögunnar og verka svo ólíkt eftir því hver á í hlut og einnig hvernig ytri aðstæður eru.

- Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, 1995. Barnasálfræði. Reykjavík Mál og menning.
- Skynner, A.C.R., 1979. One Flesh: Separate Persons. London: Constable
- Toman, W., 1961. Family Constellation. New York: Springer.