Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?

Sigrún Júlíusdóttir

Tengsl í fjölskyldum mótast af ýmsum áhrifaþáttum. Tengslamyndun í fjölskyldum og tilfinningasamskipti foreldra og barna má útskýra frá mörgum sjónarhornum. Þau eru rannsóknar- og meðferðarefni í fræðigreinum eins og sál-félagsfræði, félagsráðgjöf og geðfræði en líka eru þau oft skoðuð utan frá eins og til dæmis í mannfræði, menningarsögu og sagnfræði.


Þegar meta á hversu "eðlileg" tengsl og sjálfstæði barna eru gagnvart foreldrum og öfugt, koma til sögunnar mörg og misjafnlega flókin atriði eins og aldur barnsins, þroskastig og persónuleikaþættir, en líka samskiptamynstrið, hvernig hlutverk mótast, á hvaða lífsskeiði fjölskyldan er, samband foreldranna og áhrif upprunafjölskyldunnar. Hvort foreldri er eitt eða í sambúð skiptir líka máli ásamt öðrum félagsaðstæðum og menningarumhverfi.

Nauðsynlegt er fyrir sálarheill og tilfinningaþroska barns að vera nátengt og háð foreldrum sínum fyrstu árin. En ekki síður er það forsenda heilbrigðs tilfinningalífs og tengsla við aðra síðar meir að losa um þessi bönd og geta aðgreint sig sem sjálfstæð persóna. Heilbrigðir foreldrar vita þetta og skilja. Bæði meðal manna og dýra er ungunum "hrint út úr hreiðrinu" svo að þeir verði "fleygir". Langflestir foreldrar leggja sig fram um að tengjast börnum sínum traustum tilfinningaböndum í frumbernsku en losa svo um á viðeigandi hátt, á viðeigandi tíma þegar barnið fer að fikra sig frá þeim. Það er barninu eðlislægt að leita eftir sjálfstæði, en hjálp og skilningur foreldra eru nauðsynleg svo að vel takist til. Þegar þriggja ára barn "neitar" að borða eða láta klæða sig og "vill sjálft", reynir á að foreldrar bregðist við því sem merki um eðlilegt þroskaferli. Það þarf hins vegar líka að stýra barninu og geta sett því mörk.

Sama er uppi á teningnum þegar kemur að kynþroskaskeiðinu. Þá er unglingurinn oft óbilgjarn og finnst í öllu vegið að sjálfstæði sínu, jafnvel með saklausri, málefnalegri spurningu foreldris. Í báðum tilvikum reynir oft á styrk og öryggi foreldra að halda um stjórnvölinn með lagni. Eftir því sem barnið er eldra er frekar hægt að ræða málin við það og ná sameiginlegri niðurstöðu. Unglingurinn lærir þá um leið að móta sínar eigin skoðanir og þekkja eigin viðbrögð og þarfir og ná þannig sjálfstæðri stýringu með hjálp og viðurkenningu foreldrisins. Sumir unglingar eiga ekki því láni að fagna að foreldrar hirði um að leggja þetta á sig. Þeir fara þá ýmist á mis við þessa reynslu eða þeim tekst – meðvitað eða ómeðvitað - að verða sér út um hana annars staðar.

Sjálfstæðisferlið, að losa sig frá foreldrunum, hefst í raun um leið og barnið fer að aðgreina sig sem einstakling. Fyrst nokkurra vikna gamalt, með samsömun við foreldrana, síðan í umsjá annarra og í leikjum með félögum, síðan á kynþroskaskeiðinu á unglingsárum og loks þegar það myndar eigin fullorðins- eða fjölskyldutengsl. Mikil togstreita getur skapast í samskiptum foreldra og barna ef foreldrar hafa ekki skilning á að hjálpa barninu til að ná sjálfstæði í samræmi við þarfir sínar og þroska. Sömuleiðis getur komið til átaka - eða uppgjafar ef foreldrar eru of uppteknir af því að börnin mótist í þeirra anda, á þeirra forsendum og samkvæmt þeirra metnaði og markmiðum.

Börn og ungmenni eru oft næm á óskir og þarfir foreldra sinna. Þau vilja ekki bregðast eða særa þá og reyna þá oft að hegða sér samkvæmt vilja foreldranna eins og þau telja hann vera. Þau skynja stundum að pressa frá foreldum byggist á kvíða þeirra yfir áliti umhverfisins sem dæmi þau eða viðurkenni eftir lífsstefnu og frammistöðu barnanna. Stundum spilast vel úr, en stundum verða harmleikir og höfnun. Í raun er ekki hægt að tala um sökudólga eða beina orsakavalda. Það er í gagnkvæmu samspili sem hinir margvíslegu áhrifaþættir koma svo sterkt til sögunnar og verka svo ólíkt eftir því hver á í hlut og einnig hvernig ytri aðstæður eru.

Börn fæðast með ákveðnar líffræði- og erfðalegar forsendur og þau fæðast einnig inn í ákveðnar tilfinninga- og félagsaðstæður. Þannig getur eitt barn í fjölskyldu orðið nátengdara eða háðara foreldrum en annað. Fyrirburar, táplítil börn og þau sem eiga við sjúkdóma að stríða verða oft háðari foreldrum en önnur, meðal annars af því að foreldrarnir eiga erfitt með að sleppa af þeim hendinni.

Stundum þróast samspil barns og foreldris þannig að barnið tekur að sér hlutverk og ábyrgð fullorðins í fjölskyldunni eða fer að fullnægja tilfinningalegum þörfum foreldris á kostnað sinna eigin þarfa og þroska. Þetta á sér í lagi við þegar erfið áföll, ofdrykkja, makamissir, skilnaður eða veikindi leggjast þungt á foreldrið. Stundum verða þá litlar telpur hlýðnar "ambáttir" eða "litla mamma" og litlir drengir verða "eiginmenn" eða "húsbóndinn á heimilinu". Slík hlutverkabinding og hollusta getur skapað oftengsl gagnvart foreldrum og hindrað velferð í eigin hjónabandi síðar.

Rannsóknir á áhrifum frá stöðu í systkinahópi (systkinaröð og kyn) gefa meðal annars vísbendingar um að persónuleikaeinkenni sem börn þróa ákvarðist ekki síst af fjölskyldusamsetningu. Hún eigi einnig sinn þátt í því hvaða barn velst í hvaða tilfinningahlutverk gagnvart foreldrum. Ein vísbendinganna er að elsta barn verði oft bæði sjálfstæðara, stjórnsamara og axli fremur ábyrgð en yngsta systkin. Þannig hafi líka staðan í upprunafjölskyldunnni áhrif á makaval, hlutverk og samskipti í hjónabandi.

Enn einn áhrifavaldur í sjálfstæðisþroska barna og bindingu við foreldra er sú uppeldisaðferð sem beitt er. Almennt er talað um þrenns konar áherslur.

Þegar foreldri beitir (foreldra)valdi sem aðferð fær barnið ekki að þróa sínar eigin aðferðir heldur beita foreldrar sér í krafti valdastöðu sinnar til að stýra bæði skoðunum barnsins og ákvörðunum þess og gerðum. Þessir foreldrar höfða oft markvisst til sektarkenndar og samviskubits, meðal annars með því að saka barnið um höfnun og eigingirni og ná þannig sterkum undirtökum til að tryggja hlýðni og ósjálfstæði. Slíkir einstaklingar verða oft háðir vilja foreldranna og lúta þeim fram á fullorðinsár. Oft ná þeir aldrei raunverulegu sjálfstæði heldur tileinka sér þessar sömu aðferðir og beita þeim í samskiptum í sínu eigin lífi til dæmis við maka og eigin börn.

Önnur aðferð er afskiptaleysi, það er að foreldrið veitir ekki barninu aðhald eða hefur styrk og myndugleika til að leiðbeina því. Einstaklingar sem alast þannig upp verða oft ósjálfstæðir, kvíðnir og ráðvilltir eða þá láta sjálfir skeika að sköpuðu um hvernig til tekst í einkalífi og starfi.

Þriðja aðferðin er sú sem einkennist af sjálfsöryggi foreldra sem beita samráðsaðferð. Þeir setja börnunum mörk, hjálpa þeim með umræðum og hæfilegri leiðsögn til að laða fram eigin skoðanir og þroska eigin vilja. Þeir gleðjast yfir sjálfstæðum ákvörðunum barna sinna, viðurkenna ákvarðanir þeirra og lífshætti, hvort sem það er í maka- eða starfsvali. Þeir geta treyst þeim grunni sem þeir vita manna best hvernig var lagður.

Ekki er á færi barna að bregðast við aðstæðum eða aðferðum foreldra sinna en ungmenni og flestir fullorðnir einstaklingar geta gert það síðar meir. Margir sem óttast að bernskureynsla verði þeim fjötur um fót í maka- og foreldrahlutverkum fara í viðtalsmeðferð eða leita sér fræðslu og þjálfunar, fara í eins konar endurhæfingu. Segja má að það sé aldrei of seint að eignast hamingusama bernsku. Í því felst að hver er ábyrgur fyrir sínu lífi, að minnsta kosti innan venjulegra marka, og getur með innsæi og breyttu viðhorfi náð sjálfstæðum tökum á því sem hefur þróast við fyrri aðstæður og jafnvel út frá meðfæddum forsendum.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvað er ást? Er hún mælanleg? og svar Sigurlínu Davíðsdóttur við spurningunni Er munur á konum og körlum sem uppalendum?

Heimildir:

  • Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, 1995. Barnasálfræði. Reykjavík Mál og menning.
  • Skynner, A.C.R., 1979. One Flesh: Separate Persons. London: Constable
  • Toman, W., 1961. Family Constellation. New York: Springer.

Höfundur

Sigrún Júlíusdóttir

prófessor í félagsráðgjöf við HÍ

Útgáfudagur

4.7.2000

Spyrjandi

Árný Yrsa Gissurardóttir, f. 1987

Tilvísun

Sigrún Júlíusdóttir. „Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2000, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=613.

Sigrún Júlíusdóttir. (2000, 4. júlí). Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=613

Sigrún Júlíusdóttir. „Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2000. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=613>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?
Tengsl í fjölskyldum mótast af ýmsum áhrifaþáttum. Tengslamyndun í fjölskyldum og tilfinningasamskipti foreldra og barna má útskýra frá mörgum sjónarhornum. Þau eru rannsóknar- og meðferðarefni í fræðigreinum eins og sál-félagsfræði, félagsráðgjöf og geðfræði en líka eru þau oft skoðuð utan frá eins og til dæmis í mannfræði, menningarsögu og sagnfræði.


Þegar meta á hversu "eðlileg" tengsl og sjálfstæði barna eru gagnvart foreldrum og öfugt, koma til sögunnar mörg og misjafnlega flókin atriði eins og aldur barnsins, þroskastig og persónuleikaþættir, en líka samskiptamynstrið, hvernig hlutverk mótast, á hvaða lífsskeiði fjölskyldan er, samband foreldranna og áhrif upprunafjölskyldunnar. Hvort foreldri er eitt eða í sambúð skiptir líka máli ásamt öðrum félagsaðstæðum og menningarumhverfi.

Nauðsynlegt er fyrir sálarheill og tilfinningaþroska barns að vera nátengt og háð foreldrum sínum fyrstu árin. En ekki síður er það forsenda heilbrigðs tilfinningalífs og tengsla við aðra síðar meir að losa um þessi bönd og geta aðgreint sig sem sjálfstæð persóna. Heilbrigðir foreldrar vita þetta og skilja. Bæði meðal manna og dýra er ungunum "hrint út úr hreiðrinu" svo að þeir verði "fleygir". Langflestir foreldrar leggja sig fram um að tengjast börnum sínum traustum tilfinningaböndum í frumbernsku en losa svo um á viðeigandi hátt, á viðeigandi tíma þegar barnið fer að fikra sig frá þeim. Það er barninu eðlislægt að leita eftir sjálfstæði, en hjálp og skilningur foreldra eru nauðsynleg svo að vel takist til. Þegar þriggja ára barn "neitar" að borða eða láta klæða sig og "vill sjálft", reynir á að foreldrar bregðist við því sem merki um eðlilegt þroskaferli. Það þarf hins vegar líka að stýra barninu og geta sett því mörk.

Sama er uppi á teningnum þegar kemur að kynþroskaskeiðinu. Þá er unglingurinn oft óbilgjarn og finnst í öllu vegið að sjálfstæði sínu, jafnvel með saklausri, málefnalegri spurningu foreldris. Í báðum tilvikum reynir oft á styrk og öryggi foreldra að halda um stjórnvölinn með lagni. Eftir því sem barnið er eldra er frekar hægt að ræða málin við það og ná sameiginlegri niðurstöðu. Unglingurinn lærir þá um leið að móta sínar eigin skoðanir og þekkja eigin viðbrögð og þarfir og ná þannig sjálfstæðri stýringu með hjálp og viðurkenningu foreldrisins. Sumir unglingar eiga ekki því láni að fagna að foreldrar hirði um að leggja þetta á sig. Þeir fara þá ýmist á mis við þessa reynslu eða þeim tekst – meðvitað eða ómeðvitað - að verða sér út um hana annars staðar.

Sjálfstæðisferlið, að losa sig frá foreldrunum, hefst í raun um leið og barnið fer að aðgreina sig sem einstakling. Fyrst nokkurra vikna gamalt, með samsömun við foreldrana, síðan í umsjá annarra og í leikjum með félögum, síðan á kynþroskaskeiðinu á unglingsárum og loks þegar það myndar eigin fullorðins- eða fjölskyldutengsl. Mikil togstreita getur skapast í samskiptum foreldra og barna ef foreldrar hafa ekki skilning á að hjálpa barninu til að ná sjálfstæði í samræmi við þarfir sínar og þroska. Sömuleiðis getur komið til átaka - eða uppgjafar ef foreldrar eru of uppteknir af því að börnin mótist í þeirra anda, á þeirra forsendum og samkvæmt þeirra metnaði og markmiðum.

Börn og ungmenni eru oft næm á óskir og þarfir foreldra sinna. Þau vilja ekki bregðast eða særa þá og reyna þá oft að hegða sér samkvæmt vilja foreldranna eins og þau telja hann vera. Þau skynja stundum að pressa frá foreldum byggist á kvíða þeirra yfir áliti umhverfisins sem dæmi þau eða viðurkenni eftir lífsstefnu og frammistöðu barnanna. Stundum spilast vel úr, en stundum verða harmleikir og höfnun. Í raun er ekki hægt að tala um sökudólga eða beina orsakavalda. Það er í gagnkvæmu samspili sem hinir margvíslegu áhrifaþættir koma svo sterkt til sögunnar og verka svo ólíkt eftir því hver á í hlut og einnig hvernig ytri aðstæður eru.

Börn fæðast með ákveðnar líffræði- og erfðalegar forsendur og þau fæðast einnig inn í ákveðnar tilfinninga- og félagsaðstæður. Þannig getur eitt barn í fjölskyldu orðið nátengdara eða háðara foreldrum en annað. Fyrirburar, táplítil börn og þau sem eiga við sjúkdóma að stríða verða oft háðari foreldrum en önnur, meðal annars af því að foreldrarnir eiga erfitt með að sleppa af þeim hendinni.

Stundum þróast samspil barns og foreldris þannig að barnið tekur að sér hlutverk og ábyrgð fullorðins í fjölskyldunni eða fer að fullnægja tilfinningalegum þörfum foreldris á kostnað sinna eigin þarfa og þroska. Þetta á sér í lagi við þegar erfið áföll, ofdrykkja, makamissir, skilnaður eða veikindi leggjast þungt á foreldrið. Stundum verða þá litlar telpur hlýðnar "ambáttir" eða "litla mamma" og litlir drengir verða "eiginmenn" eða "húsbóndinn á heimilinu". Slík hlutverkabinding og hollusta getur skapað oftengsl gagnvart foreldrum og hindrað velferð í eigin hjónabandi síðar.

Rannsóknir á áhrifum frá stöðu í systkinahópi (systkinaröð og kyn) gefa meðal annars vísbendingar um að persónuleikaeinkenni sem börn þróa ákvarðist ekki síst af fjölskyldusamsetningu. Hún eigi einnig sinn þátt í því hvaða barn velst í hvaða tilfinningahlutverk gagnvart foreldrum. Ein vísbendinganna er að elsta barn verði oft bæði sjálfstæðara, stjórnsamara og axli fremur ábyrgð en yngsta systkin. Þannig hafi líka staðan í upprunafjölskyldunnni áhrif á makaval, hlutverk og samskipti í hjónabandi.

Enn einn áhrifavaldur í sjálfstæðisþroska barna og bindingu við foreldra er sú uppeldisaðferð sem beitt er. Almennt er talað um þrenns konar áherslur.

Þegar foreldri beitir (foreldra)valdi sem aðferð fær barnið ekki að þróa sínar eigin aðferðir heldur beita foreldrar sér í krafti valdastöðu sinnar til að stýra bæði skoðunum barnsins og ákvörðunum þess og gerðum. Þessir foreldrar höfða oft markvisst til sektarkenndar og samviskubits, meðal annars með því að saka barnið um höfnun og eigingirni og ná þannig sterkum undirtökum til að tryggja hlýðni og ósjálfstæði. Slíkir einstaklingar verða oft háðir vilja foreldranna og lúta þeim fram á fullorðinsár. Oft ná þeir aldrei raunverulegu sjálfstæði heldur tileinka sér þessar sömu aðferðir og beita þeim í samskiptum í sínu eigin lífi til dæmis við maka og eigin börn.

Önnur aðferð er afskiptaleysi, það er að foreldrið veitir ekki barninu aðhald eða hefur styrk og myndugleika til að leiðbeina því. Einstaklingar sem alast þannig upp verða oft ósjálfstæðir, kvíðnir og ráðvilltir eða þá láta sjálfir skeika að sköpuðu um hvernig til tekst í einkalífi og starfi.

Þriðja aðferðin er sú sem einkennist af sjálfsöryggi foreldra sem beita samráðsaðferð. Þeir setja börnunum mörk, hjálpa þeim með umræðum og hæfilegri leiðsögn til að laða fram eigin skoðanir og þroska eigin vilja. Þeir gleðjast yfir sjálfstæðum ákvörðunum barna sinna, viðurkenna ákvarðanir þeirra og lífshætti, hvort sem það er í maka- eða starfsvali. Þeir geta treyst þeim grunni sem þeir vita manna best hvernig var lagður.

Ekki er á færi barna að bregðast við aðstæðum eða aðferðum foreldra sinna en ungmenni og flestir fullorðnir einstaklingar geta gert það síðar meir. Margir sem óttast að bernskureynsla verði þeim fjötur um fót í maka- og foreldrahlutverkum fara í viðtalsmeðferð eða leita sér fræðslu og þjálfunar, fara í eins konar endurhæfingu. Segja má að það sé aldrei of seint að eignast hamingusama bernsku. Í því felst að hver er ábyrgur fyrir sínu lífi, að minnsta kosti innan venjulegra marka, og getur með innsæi og breyttu viðhorfi náð sjálfstæðum tökum á því sem hefur þróast við fyrri aðstæður og jafnvel út frá meðfæddum forsendum.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvað er ást? Er hún mælanleg? og svar Sigurlínu Davíðsdóttur við spurningunni Er munur á konum og körlum sem uppalendum?

Heimildir:

  • Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, 1995. Barnasálfræði. Reykjavík Mál og menning.
  • Skynner, A.C.R., 1979. One Flesh: Separate Persons. London: Constable
  • Toman, W., 1961. Family Constellation. New York: Springer.
...