Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:00 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:12 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:18 • Síðdegis: 18:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:19 • Síðdegis: 12:23 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er síðnýlendustefna?

Ólafur Rastrick

Síðnýlendustefna er ýmist þýðing á neo-colonialism eða post-colonialism. Bæði hugtökin skírskota til afleiðinga af nýlendustefnu (e. colonialism) 18.-20. aldar í þriðja heiminum og á Vesturlöndum. Kenningar um neo-colonialism byggja einkum á marxískum hugmyndum um samband fyrrum nýlendna og nýlenduherra. Þótt nýlendur evrópskra ríkja, einkum í Asíu og Afríku, hafi á 20. öld öðlast nokkra sjálfstjórn, þá voru margar þeirra eftir sem áður háðar vestrænum ríkjum. Neo-colonialism vísar til þess ástands þar sem auðug ríki, yfirleitt vestræn, halda áfram að arðræna ríki í þriðja heiminum sem þó hafa öðlast formlegt pólitískt sjálfstæði.


Áhrif ásóknar vestrænna þjóða í nýlendur héldu áfram eftir að fyrrum nýlendur öðluðust formlegt sjálfstæði. Hér sést Kólumbus koma til Karíbaeyja.

Í hug- og félagsvísindum, ekki síst greinum eins og mannfræði, menningarfræði, bókmenntafræði og sagnfræði, hefur á undanförnum árum átt sér stað mikil umræða á sviði post-colonialism (sbr. postcolonial studies og postcolonial theory). Eitthvað hefur borið á því að postcolonialism (með eða án bandstriks) hafi verið þýtt sem síðnýlendustefna, en algengara er í íslensku að vísa til þess sem eftirlendustefnu, eftirlendufræði eða eftirlendurýni. Þá tíðkast einnig að láta hugtakið standa óþýtt með íslenskum rithætti, póstkólóníalismi (sbr. póstmódernismi og póststrúktúralismi). Hugtakið vísar bæði til ástands í fyrrum nýlendum og rannsókna á því ástandi í sögu og samtíð. Viðfangsefni þessa fræðasviðs er að rannsaka menningu og samskipti ólíkra þjóðfélagshópa frá tímum nýlenduvæðingarinnar til samtímans.

Aukinn áhugi á þessu fræðasviði á níunda og tíunda áratug 20. aldar er oft rakinn til bókar Edwards Saids, Orientalism, sem kom út árið 1978. Hann var undir áhrifum frá umfjöllun franska fræðimannsins Michel Foucault um tengsl valds og þekkingar, er hann greindi hvernig samskiptasaga austurs og vesturs mótaði og var mótuð af hugmyndum um framandleika hins austræna sem andstæðu hins vestræna. Þessar hugmyndir um ýmis eðliseinkenni austursins, svo sem um hið kvenlega, framandi en um leið óæðra austur, urðu þannig til samhliða þróun ímyndar af hinu karllega, skynsama og æðra vestri. Þær hafa litað pólitísk og menningarleg tengsl þessara svæða og mótað sjálfsmyndir íbúanna.

Meðal þeirra sem kannað hafa það menningarástand sem skapast hefur í kjölfar nýlendustefnunnar má nefna indversku fræðikonuna Gayatri Chakravorti Spivak. Hún hefur nýtt sér afbyggingarfræði (e. deconstructionism) Jacques Derrida í femínískri greiningu á hvernig menningarmunur getur leitt til undirokunar. Annar Indverji að nafni Homi K. Bhabha hefur svo beitt sálgreiningarfræðum Jacques Lacans, meðal annars í umfjöllun sinni um fjölmenningarsamfélög samtímans. Eftirlendustefna á það sammerkt með póstmódernisma að líta jákvæðum augum á fjölbreyttar sjálfsmyndir og margbreytilega menningu.

Eftirlendustefnunni hefur verið misjafnlega tekið. Hún hefur haft talsverð áhrif á margar fræðigreinar, ekki síst greinar á borð við mannfræði sem fjalla um snertifleti „vestrænnar“ þekkingar og framandi veruleika. Á ýmsum öðrum fræðasviðum hafa áhrifin ekki verið eins mikil, og sumir líta jafnvel á eftirlendufræðin sem lítið annað en orðagjálfur. Nauðsynlegt er þó að viðhalda gagnrýninni umræðu eftirlendustefnunnar um stjórnmálaástand og efnahagsþróun í heiminum.

Frekara lesefni á íslensku: Homi K. Bhabha, „Tvístrun þjóðarinnar. Tími, frásögn og jaðar nútímaþjóðarinnar.“ Ritið 2 (2005), bls. 177–220.

Mynd: Image:Columbus greeted by native Caribbeans.png. Wikipedia: The Free Encyclopedia.

Höfundur

sagnfræðingur

Útgáfudagur

18.8.2006

Spyrjandi

Harpa Jóhannsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Ólafur Rastrick. „Hvað er síðnýlendustefna?“ Vísindavefurinn, 18. ágúst 2006, sótt 21. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6135.

Ólafur Rastrick. (2006, 18. ágúst). Hvað er síðnýlendustefna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6135

Ólafur Rastrick. „Hvað er síðnýlendustefna?“ Vísindavefurinn. 18. ágú. 2006. Vefsíða. 21. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6135>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er síðnýlendustefna?
Síðnýlendustefna er ýmist þýðing á neo-colonialism eða post-colonialism. Bæði hugtökin skírskota til afleiðinga af nýlendustefnu (e. colonialism) 18.-20. aldar í þriðja heiminum og á Vesturlöndum. Kenningar um neo-colonialism byggja einkum á marxískum hugmyndum um samband fyrrum nýlendna og nýlenduherra. Þótt nýlendur evrópskra ríkja, einkum í Asíu og Afríku, hafi á 20. öld öðlast nokkra sjálfstjórn, þá voru margar þeirra eftir sem áður háðar vestrænum ríkjum. Neo-colonialism vísar til þess ástands þar sem auðug ríki, yfirleitt vestræn, halda áfram að arðræna ríki í þriðja heiminum sem þó hafa öðlast formlegt pólitískt sjálfstæði.


Áhrif ásóknar vestrænna þjóða í nýlendur héldu áfram eftir að fyrrum nýlendur öðluðust formlegt sjálfstæði. Hér sést Kólumbus koma til Karíbaeyja.

Í hug- og félagsvísindum, ekki síst greinum eins og mannfræði, menningarfræði, bókmenntafræði og sagnfræði, hefur á undanförnum árum átt sér stað mikil umræða á sviði post-colonialism (sbr. postcolonial studies og postcolonial theory). Eitthvað hefur borið á því að postcolonialism (með eða án bandstriks) hafi verið þýtt sem síðnýlendustefna, en algengara er í íslensku að vísa til þess sem eftirlendustefnu, eftirlendufræði eða eftirlendurýni. Þá tíðkast einnig að láta hugtakið standa óþýtt með íslenskum rithætti, póstkólóníalismi (sbr. póstmódernismi og póststrúktúralismi). Hugtakið vísar bæði til ástands í fyrrum nýlendum og rannsókna á því ástandi í sögu og samtíð. Viðfangsefni þessa fræðasviðs er að rannsaka menningu og samskipti ólíkra þjóðfélagshópa frá tímum nýlenduvæðingarinnar til samtímans.

Aukinn áhugi á þessu fræðasviði á níunda og tíunda áratug 20. aldar er oft rakinn til bókar Edwards Saids, Orientalism, sem kom út árið 1978. Hann var undir áhrifum frá umfjöllun franska fræðimannsins Michel Foucault um tengsl valds og þekkingar, er hann greindi hvernig samskiptasaga austurs og vesturs mótaði og var mótuð af hugmyndum um framandleika hins austræna sem andstæðu hins vestræna. Þessar hugmyndir um ýmis eðliseinkenni austursins, svo sem um hið kvenlega, framandi en um leið óæðra austur, urðu þannig til samhliða þróun ímyndar af hinu karllega, skynsama og æðra vestri. Þær hafa litað pólitísk og menningarleg tengsl þessara svæða og mótað sjálfsmyndir íbúanna.

Meðal þeirra sem kannað hafa það menningarástand sem skapast hefur í kjölfar nýlendustefnunnar má nefna indversku fræðikonuna Gayatri Chakravorti Spivak. Hún hefur nýtt sér afbyggingarfræði (e. deconstructionism) Jacques Derrida í femínískri greiningu á hvernig menningarmunur getur leitt til undirokunar. Annar Indverji að nafni Homi K. Bhabha hefur svo beitt sálgreiningarfræðum Jacques Lacans, meðal annars í umfjöllun sinni um fjölmenningarsamfélög samtímans. Eftirlendustefna á það sammerkt með póstmódernisma að líta jákvæðum augum á fjölbreyttar sjálfsmyndir og margbreytilega menningu.

Eftirlendustefnunni hefur verið misjafnlega tekið. Hún hefur haft talsverð áhrif á margar fræðigreinar, ekki síst greinar á borð við mannfræði sem fjalla um snertifleti „vestrænnar“ þekkingar og framandi veruleika. Á ýmsum öðrum fræðasviðum hafa áhrifin ekki verið eins mikil, og sumir líta jafnvel á eftirlendufræðin sem lítið annað en orðagjálfur. Nauðsynlegt er þó að viðhalda gagnrýninni umræðu eftirlendustefnunnar um stjórnmálaástand og efnahagsþróun í heiminum.

Frekara lesefni á íslensku: Homi K. Bhabha, „Tvístrun þjóðarinnar. Tími, frásögn og jaðar nútímaþjóðarinnar.“ Ritið 2 (2005), bls. 177–220.

Mynd: Image:Columbus greeted by native Caribbeans.png. Wikipedia: The Free Encyclopedia....