Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leðurblökur tilheyra ættbálknum Chiroptera sem skiptist í tvo undirættbálka; annars vegar svokallaða flugrefi eða stórblökur (Megachiroptera), sem nærast fyrst og fremst á ávöxtum og fræjum og mætti því kalla ávaxtaleðurblökur (e. fruit bats), og hins vegar smáblökur (Microchiroptera). Margar tegundir af smáblökum eru skordýraætur eða sækja næringu úr jurtaríkinu, en nokkrar tegundir sjúga blóð úr stórum spendýrum. Í dag eru samtals rúmlega 1.200 leðurblökutegundir í heiminum.
Í Japan finnast rúmlega 40 tegundir af leðurblökum. Þar af eru tvær tegundir flugrefa eða ávaxtaleðurblaka, Bonin-flugrefurinn (Pteropus pselaphon) og Ryukyu-flugrefurinn (Pteropus dasymallus). Þetta eru norðlægustu tegundir af ávaxtaleðurblökum í heiminum, en langflestar tegundir flugrefa lifa í hitabeltinu.
Bonin-flugrefurinn finnst hvergi nema í Japan og þá aðeins á fimm eyjum í Bonin eyjaklasanum, um 1000 km suður af Tokyo. Hann er um 20-25 cm á lengd og hefur dökkbrúnan feld með gráum blæ. Tegundinni hefur fækkað nokkuð á undanförnum áratugum, einkum vegna skógarhöggs og veiða, og er hún flokkuð sem í hættu (e. vulnarable) að mati Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN (International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources).
Uppstoppaður Bonin-flugrefur.
Ryukyu-flugrefurinn finnst í þéttu skóglendi á Ryukyu-eyjaklasanum, en svo kallast syðstu eyjar Japans. Hann er um 20 cm langur og dökkbrúnn að lit, en þó þekkjast einnig ljós afbrigði tegundarinnar. Flokkunarfræðingar hafa greint þessa tegund niður í fimm undirtegundir og lifa fjórar þeirra í Japan.
Þess má geta að sennilega er ein tegund japanskra flugrefa útdauð, en það er Okinawa-flugrefurinn (Pteropus lochoensis). Síðasti einstaklingurinn sem vitað er um veiddist í kringum 1870 og aðeins er vitað um tvö uppstoppuð dýr af tegundinni, en þau eru bæði varðveitt á British Museum í London.
Svokallaðar vampírur eða leðurblökur af undirættinni Desmodontinae finnast ekki í Japan. Aðeins eru þrjár tegundir sem tilheyra þessari undirætt og lifa þær allar í Ameríku. Nánar er hægt að lesa um þær í svari sama höfundar við spurningunni Getið þið sagt mér frá vampírum, til dæmis leðurblökuvampírum og iglum?
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um leðurblökur, til dæmis:
Wilson, D. E. og D. M. Reeder. 1993. Mammal Species of the World, A Taxonomic and Geographic Reference. 2. útgáfa. Smithsonian Institution Press, Washington.
Jón Már Halldórsson. „Lifa leðurblökur í Japan og ef svo, eru það vampíru- eða ávaxtaleðurblökur eða hvort tveggja?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2006, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6154.
Jón Már Halldórsson. (2006, 28. ágúst). Lifa leðurblökur í Japan og ef svo, eru það vampíru- eða ávaxtaleðurblökur eða hvort tveggja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6154
Jón Már Halldórsson. „Lifa leðurblökur í Japan og ef svo, eru það vampíru- eða ávaxtaleðurblökur eða hvort tveggja?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2006. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6154>.