Hvaðan er orðatiltækið "Það er ekki hundrað í hættunni" komið? Hvaða hundrað er eiginlega verið að tala um?Orðið hundrað er í nútímamáli notað yfir tíu tugi. Orðatiltækið ekki er hundrað í hættunni er gamalt í málinu og þekkist að minnsta kosti frá síðari hluta 17. aldar. Sögulega er hundrað verðeining í svokölluðum landaurareikningi en með landaurum var átt við gjaldgengar vörur á föstu verði sem yfirvöld ákváðu. Talað var um hundrað í jörð, hundrað á landsvísu, jarðarhundrað. Með hundraði í landaurareikningi var átt við jörð sem jafngilti hundrað og tuttugu aurum silfurs (stóru hundraði). Síðar var farið að reikna í vaðmáli, jörðin jafngilti þá hundrað og tuttugu álnum vaðmáls. Til frekari fróðleiks má benda á svar Gísla Gunnarssonar við spurningunni Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða? Með orðatiltækinu það er ekki hundrað í hættu er átt við að áhættan sé lítil, ekki munar um eitt hundrað og vísar upphaflega til viðskipta. Önnur afbrigði eru til eins og ekki er hundraðið í hættu og ekki er hundrað í hættunni.
Útgáfudagur
30.8.2006
Spyrjandi
Snæbjörn Sigurðarson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hvaðan er orðatiltækið "Það er ekki hundrað í hættunni"?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2006, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6158.
Guðrún Kvaran. (2006, 30. ágúst). Hvaðan er orðatiltækið "Það er ekki hundrað í hættunni"? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6158
Guðrún Kvaran. „Hvaðan er orðatiltækið "Það er ekki hundrað í hættunni"?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2006. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6158>.