Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:42 • sest 23:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:28 • Sest 23:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 13:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:50 • Síðdegis: 19:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er sannað að greindarpróf verki?

Sigurður J. Grétarsson

Greindarpróf sýna meðal annars talsverða fylgni, sem kallað er, við almennan námsárangur manna eða gengi í almennum skólum. Þau nýtast því til dæmis vel við greiningu og meðferð námserfiðleika. Hins vegar hefur ekki tekist að gera próf sem segi fyrir um árangur á tilteknum, afmörkuðum sviðum eins og tónlist eða íþróttum, eða þá í mannlegum samskiptum. En þó að prófin séu takmörkuð og stundum ofnotuð er ekki ástæða til að leggja þau niður.

Langflest greindarpróf sem nú eru notuð byggjast á þeirri tæknihugsun sem lýst er í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er greind?. Þessi hugsun byggist aftur í raun á tveimur grundvallarhugmyndum úr tölfræði. Í fyrsta lagi er hugmyndin um staðlaða röðun, og hins vegar hugmyndin um fylgni.

Frægust eru próf sem er kennt við Binet sjálfan og bandarísk stöðlun þess, svonefnt Stanford-Binet próf, og síðan greindarpróf sem kennt er við bandaríska próffræðinginn Wechsler. Gerð þeirra er ekki alveg eins, en hvortveggju byggjast á staðlaðri röðun sem sýnt er að hafi fylgni við námsárangur. Á sama grunni byggjast hæfnispróf, skapgerðarpróf og kunnáttupróf af ýmsum toga.

Prófin eru til margra hluta nytsamleg. Þar fást á skömmum tíma upplýsingar sem að öðrum kosti gæti tekið vikur eða mánuði að afla. Þau hafa því reynst vel í greiningu og mati á alls konar námserfiðleikum. Þau hafa líka verið grundvöllur ýmiss konar rannsókna. Til dæmis er sýnt að fylgni milli geindartölu tveggja einstaklinga er því meiri sem þeir eru skyldari og aðstæður þeirra líkari. Fylgni milli greindartölu systkina er lægri en fylgni milli greindartölu tvíeggja tvíbura, sem aftur er lægri en fylgni milli eineggja tvíbura. Greindartölur eineggja tvíburara sem alast upp hvor í sínu lagi hafa líka lægri fylgni en ef þeir alast upp saman. Af þessum rannsóknum hefur þótt sýnt að erfðir ráða allmiklu um greind fólks. Því skyldari, því hærri fylgni. En rannsóknir hafa líka sýnt ítrekað að slök lífsskilyrði tengjast minni greind eins og hún mælist á greindarprófum. Greindarpróf hafa heldur ekki farið varhluta af gagnrýni. Þar kemur ýmislegt til.

Í fyrsta lagi getur oftúlkun prófanna verið háskaleg. Fólk sem ekki áttar sig á eðli prófanna og tæknilegu baksviði þeirra oftúlkar niðurstöður og telur sig hafa í höndum tölur sem eru óyggjandi, þannig að oft hafa á grundvelli prófa verið teknar ákvarðanir sem hafa síðan reynst rangar. Sumar þessar ákvarðana hafa verið afdrifaríkar fyrir þá sem fyrir þeim verða, til dæmis þegar fólki er beint frá skólagöngu eða sett í óþarfa meðferð á grundvelli oftúlkunar á greindarprófum.

Aðrir hafa einnig lagt of mikla merkingu í greindarhugtak prófanna og talið það nánast vera mælikvarða á manngildi. Þannig hafa prófin til dæmis verið ofnotuð við val á fólki til starfa. Í lævi blandinni umræðu um mismun á kynþáttum hefur oftúlkun prófanna líka komið illu til leiðar. Þeir sem semja prófin hafa af þessum sökum lagt mikla áherslu á að aðeins fólk sem hefur fengið sérstaka þjálfun í notkun þeirra og túlkun megi leggja þau fyrir og leggja í þau merkingu. Víðast hvar mega sálfræðingar einir leggja slík próf fyrir.

Einnig hefur verið gagnrýnt að greindarhugtak prófanna sé of afmarkað; það taki aðeins til hluta þess sem kalla má greind. Þetta má til sanns vegar færa; prófin spá fyrir um gengi fólks í hefðbundnu námi, því sem viðkemur lestri, rökhugsun og stærðfræði. Þau spá litlu sem engu um getu fólks í tónlist, í mannlegum samskiptum eða í íþróttum. Þetta er í raun löngu ljóst, en tilfellið er að treglega hefur gengið að semja próf sem taka til annarra eiginleika. Ýmiss konar tilraunir hafa verið gerðar til að semja próf um tilfinningalegt innsæi, tónlistarhæfileika og fleira sem sannarlega skiptir máli í lífinu, en afrakstur þeirra tilrauna er engan veginn álíka og árangurinn af greindarprófum.

Allir viðurkenna nú að greindarhugtak prófanna er afmarkað. Greind er miklu víðfeðmari eiginleiki en svo að hann verði mældur á einhlítan hátt. Enda kemur í ljós að menn skilgreina greind með ólíkum hætti eftir því hvað þeir fást við. Stærðfræðiprófessorar hafa aðrar hugmyndir um greind en prófessorar í verkfræði. Kennarar í bókmenntum kunna að meta aðra eiginleika en kennarar í félagsvísindum og þannig má áfram telja. Ekkert próf tekur til allra þessara eiginleika.

En ofnotkun prófanna og oftúlkun á ekki að verða til þess að þau séu gefin upp á bátinn. Menn hætta ekki að nota bíla þó þeir geti farið út af; menn hætta ekki að nota hnífa þó unnt sé að skera sig á þeim. Öllu skiptir að fara rétt með prófin og nota þau skynsamlega. Þau eru sannarlega til margra hluta nytsamleg. En í grundvallaratriðum byggjast þau á röðun fólks á stöðluðum mælikvörðum. Fræðileg réttlæting mælikvarðanna er í raun aðeins þekkt fylgni þeirra við tiltekin forvitnileg atriði sem hagstætt er að geta spáð fyrir um. Þau gefa ekkert ljósleiðarasamband við guðdóminn, við manngildið, við siðferðið. Þetta þarf að vera ljóst.Höfundur

Sigurður J. Grétarsson

prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

5.7.2000

Spyrjandi

Lárus Heiðar Ásgeirsson

Tilvísun

Sigurður J. Grétarsson. „Er sannað að greindarpróf verki?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2000, sótt 15. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=616.

Sigurður J. Grétarsson. (2000, 5. júlí). Er sannað að greindarpróf verki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=616

Sigurður J. Grétarsson. „Er sannað að greindarpróf verki?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2000. Vefsíða. 15. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=616>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er sannað að greindarpróf verki?
Greindarpróf sýna meðal annars talsverða fylgni, sem kallað er, við almennan námsárangur manna eða gengi í almennum skólum. Þau nýtast því til dæmis vel við greiningu og meðferð námserfiðleika. Hins vegar hefur ekki tekist að gera próf sem segi fyrir um árangur á tilteknum, afmörkuðum sviðum eins og tónlist eða íþróttum, eða þá í mannlegum samskiptum. En þó að prófin séu takmörkuð og stundum ofnotuð er ekki ástæða til að leggja þau niður.

Langflest greindarpróf sem nú eru notuð byggjast á þeirri tæknihugsun sem lýst er í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er greind?. Þessi hugsun byggist aftur í raun á tveimur grundvallarhugmyndum úr tölfræði. Í fyrsta lagi er hugmyndin um staðlaða röðun, og hins vegar hugmyndin um fylgni.

Frægust eru próf sem er kennt við Binet sjálfan og bandarísk stöðlun þess, svonefnt Stanford-Binet próf, og síðan greindarpróf sem kennt er við bandaríska próffræðinginn Wechsler. Gerð þeirra er ekki alveg eins, en hvortveggju byggjast á staðlaðri röðun sem sýnt er að hafi fylgni við námsárangur. Á sama grunni byggjast hæfnispróf, skapgerðarpróf og kunnáttupróf af ýmsum toga.

Prófin eru til margra hluta nytsamleg. Þar fást á skömmum tíma upplýsingar sem að öðrum kosti gæti tekið vikur eða mánuði að afla. Þau hafa því reynst vel í greiningu og mati á alls konar námserfiðleikum. Þau hafa líka verið grundvöllur ýmiss konar rannsókna. Til dæmis er sýnt að fylgni milli geindartölu tveggja einstaklinga er því meiri sem þeir eru skyldari og aðstæður þeirra líkari. Fylgni milli greindartölu systkina er lægri en fylgni milli greindartölu tvíeggja tvíbura, sem aftur er lægri en fylgni milli eineggja tvíbura. Greindartölur eineggja tvíburara sem alast upp hvor í sínu lagi hafa líka lægri fylgni en ef þeir alast upp saman. Af þessum rannsóknum hefur þótt sýnt að erfðir ráða allmiklu um greind fólks. Því skyldari, því hærri fylgni. En rannsóknir hafa líka sýnt ítrekað að slök lífsskilyrði tengjast minni greind eins og hún mælist á greindarprófum. Greindarpróf hafa heldur ekki farið varhluta af gagnrýni. Þar kemur ýmislegt til.

Í fyrsta lagi getur oftúlkun prófanna verið háskaleg. Fólk sem ekki áttar sig á eðli prófanna og tæknilegu baksviði þeirra oftúlkar niðurstöður og telur sig hafa í höndum tölur sem eru óyggjandi, þannig að oft hafa á grundvelli prófa verið teknar ákvarðanir sem hafa síðan reynst rangar. Sumar þessar ákvarðana hafa verið afdrifaríkar fyrir þá sem fyrir þeim verða, til dæmis þegar fólki er beint frá skólagöngu eða sett í óþarfa meðferð á grundvelli oftúlkunar á greindarprófum.

Aðrir hafa einnig lagt of mikla merkingu í greindarhugtak prófanna og talið það nánast vera mælikvarða á manngildi. Þannig hafa prófin til dæmis verið ofnotuð við val á fólki til starfa. Í lævi blandinni umræðu um mismun á kynþáttum hefur oftúlkun prófanna líka komið illu til leiðar. Þeir sem semja prófin hafa af þessum sökum lagt mikla áherslu á að aðeins fólk sem hefur fengið sérstaka þjálfun í notkun þeirra og túlkun megi leggja þau fyrir og leggja í þau merkingu. Víðast hvar mega sálfræðingar einir leggja slík próf fyrir.

Einnig hefur verið gagnrýnt að greindarhugtak prófanna sé of afmarkað; það taki aðeins til hluta þess sem kalla má greind. Þetta má til sanns vegar færa; prófin spá fyrir um gengi fólks í hefðbundnu námi, því sem viðkemur lestri, rökhugsun og stærðfræði. Þau spá litlu sem engu um getu fólks í tónlist, í mannlegum samskiptum eða í íþróttum. Þetta er í raun löngu ljóst, en tilfellið er að treglega hefur gengið að semja próf sem taka til annarra eiginleika. Ýmiss konar tilraunir hafa verið gerðar til að semja próf um tilfinningalegt innsæi, tónlistarhæfileika og fleira sem sannarlega skiptir máli í lífinu, en afrakstur þeirra tilrauna er engan veginn álíka og árangurinn af greindarprófum.

Allir viðurkenna nú að greindarhugtak prófanna er afmarkað. Greind er miklu víðfeðmari eiginleiki en svo að hann verði mældur á einhlítan hátt. Enda kemur í ljós að menn skilgreina greind með ólíkum hætti eftir því hvað þeir fást við. Stærðfræðiprófessorar hafa aðrar hugmyndir um greind en prófessorar í verkfræði. Kennarar í bókmenntum kunna að meta aðra eiginleika en kennarar í félagsvísindum og þannig má áfram telja. Ekkert próf tekur til allra þessara eiginleika.

En ofnotkun prófanna og oftúlkun á ekki að verða til þess að þau séu gefin upp á bátinn. Menn hætta ekki að nota bíla þó þeir geti farið út af; menn hætta ekki að nota hnífa þó unnt sé að skera sig á þeim. Öllu skiptir að fara rétt með prófin og nota þau skynsamlega. Þau eru sannarlega til margra hluta nytsamleg. En í grundvallaratriðum byggjast þau á röðun fólks á stöðluðum mælikvörðum. Fræðileg réttlæting mælikvarðanna er í raun aðeins þekkt fylgni þeirra við tiltekin forvitnileg atriði sem hagstætt er að geta spáð fyrir um. Þau gefa ekkert ljósleiðarasamband við guðdóminn, við manngildið, við siðferðið. Þetta þarf að vera ljóst....