Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Er það ekki örugglega rétt að við notum aðeins 10% heilans?

Heiða María Sigurðardóttir

Nei það er ekki rétt. Sú sögusögn að fólk noti aðeins lítinn hluta heilans virðist hins vegar ætla að verða ansi lífseig. Óhætt er samt að segja að hún er fjarri sannleikanum. Heilinn er allur meira eða minna virkur, hvort sem fólk vakir eða sefur.

Hægt er að benda á ýmis gögn því til stuðnings að fólk noti allan heilann. Fyrir það fyrsta er vitað að taugafrumur hafa tiltekna grunnvirkni sem er alltaf til staðar. Taugafrumur heilans eru því virkar svo til öllum stundum, að því gefnu að þær starfi á eðlilegan hátt og séu ekki skaddaðar, jafnvel þótt fólk sé ekki að gera neitt sérstakt.

Tækninni á undanförnum áratugum hefur fleygt svo fram að nú er hægt að skoða lifandi heilavef án þess að menn skaðist nokkuð. Með svokallaðri starfrænni segulómmyndun (e. fMRI, functional magnetic resonance imaging) er til dæmis hægt að sjá að virkni er í öllum heilanum, mismikil þó eftir því hvað fólk er látið gera. Þannig eru til dæmis sjónstöðvar heilans hlutfallslega virkari þegar fólk hefur opin augu en lokuð. Það mikilvægasta er þó að enginn hluti heilans er algjörlega óvirkur.


Segulsneiðmynd af mannsheila.

Skemmdir á heilanum sýna einnig glögglega að fólk notar allan heilann, en heilaskemmdir hafa nær undantekningarlaust áhrif á hugsun, skynjun, athygli, minni, hreyfigetu og svo framvegis. Því víðtækari sem skemmdirnar eru, þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar að jafnaði. Það eru því engir hlutar heilans sem eru algjörlega ónotaðir eða ónauðsynlegir. Reyndar má geta þess að skemmist hluti heilans geta aðrar heilastöðvar stundum tekið við hlutverki skemmda svæðisins að nokkru leyti. Það breytir því þó ekki að við erum að jafnaði betur sett með heilan heila.

Að lokum má geta þess að heilinn krefst mikillar orku. Það er því harla ósennilegt að þróun mannsheilans hafi orðið á þann veg að fólk sæti uppi með orkufrekt líffæri sem aðeins væri notað að litlum hluta.

Af þessu öllu leiðir að venjulegt fólk notar 100% af heilanum. Þannig er lítið vit í töfralausnum sem sagðar eru gefa fólki ofurmannlega andlega hæfileika með því að auka nýtni þess eða virkni á heilasvæðum sínum.

Í kjölfar þessara upplýsinga má spyrja hvaðan þessi skrýtna sögusögn sé komin um að fólk noti aðeins lítinn hluta heilans. Leiða má að því líkur að hún sé sprottin af mistúlkun fjölmiðla og annarra aðila á niðurstöðum vísindamanna, nokkuð sem því miður virðist enn vera algengt.

Fyrir nokkrum áratugum vissu menn til dæmis ekki fyllilega hvað sumar heilastöðvar gerðu, og verið getur að einhverjir hafi túlkað það á þann veg að þær gerðu ekki neitt! Einnig er vitað að aðeins sum heilastarfsemi er að fullu meðvituð. Auðvitað þýðir það samt ekki að fólk noti ekki heilastöðvar sem sjá um ómeðvitaða starfsemi. Það er svipað og að segja að fólk noti ekki nema lítið brot af meltingarfærum sínum bara af því að það er ekki meðvitað um allar sínar iðrahreyfingar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Frekara lesefni og mynd


Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um virkni heilans. Fleiri spyrjendur eru:
Friðrik Gylfason, Birgir Óli Sigmundsson, Tómas Þór, Rúnar Svavarsson, Viðar Kristinsson, Óskar Stefánsson, Margeir Margeirsson, Guðmundur Jónsson, Jósef Jósefsson, Guðbjörg Jóhannsdóttir, Jón Ólafsson, Sigurvin Jensson, Anna Katrín Einarsdóttir, Sunna Björnsdóttir, Davíð Bragason, Júlía Helgadóttir, Rúnar Þorkelsson, Hildur Berglind, Gunnar Már Árnason, Jón Rúnar Kvaran, Andri Elvar Guðmundsson, Jón Rúnar Kvaran.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

6.9.2006

Spyrjandi

Arnar Freyr Þrastarson
Rúfus Máson
Jón Rúnar Kvaran

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er það ekki örugglega rétt að við notum aðeins 10% heilans?“ Vísindavefurinn, 6. september 2006. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6174.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 6. september). Er það ekki örugglega rétt að við notum aðeins 10% heilans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6174

Heiða María Sigurðardóttir. „Er það ekki örugglega rétt að við notum aðeins 10% heilans?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2006. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6174>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er það ekki örugglega rétt að við notum aðeins 10% heilans?
Nei það er ekki rétt. Sú sögusögn að fólk noti aðeins lítinn hluta heilans virðist hins vegar ætla að verða ansi lífseig. Óhætt er samt að segja að hún er fjarri sannleikanum. Heilinn er allur meira eða minna virkur, hvort sem fólk vakir eða sefur.

Hægt er að benda á ýmis gögn því til stuðnings að fólk noti allan heilann. Fyrir það fyrsta er vitað að taugafrumur hafa tiltekna grunnvirkni sem er alltaf til staðar. Taugafrumur heilans eru því virkar svo til öllum stundum, að því gefnu að þær starfi á eðlilegan hátt og séu ekki skaddaðar, jafnvel þótt fólk sé ekki að gera neitt sérstakt.

Tækninni á undanförnum áratugum hefur fleygt svo fram að nú er hægt að skoða lifandi heilavef án þess að menn skaðist nokkuð. Með svokallaðri starfrænni segulómmyndun (e. fMRI, functional magnetic resonance imaging) er til dæmis hægt að sjá að virkni er í öllum heilanum, mismikil þó eftir því hvað fólk er látið gera. Þannig eru til dæmis sjónstöðvar heilans hlutfallslega virkari þegar fólk hefur opin augu en lokuð. Það mikilvægasta er þó að enginn hluti heilans er algjörlega óvirkur.


Segulsneiðmynd af mannsheila.

Skemmdir á heilanum sýna einnig glögglega að fólk notar allan heilann, en heilaskemmdir hafa nær undantekningarlaust áhrif á hugsun, skynjun, athygli, minni, hreyfigetu og svo framvegis. Því víðtækari sem skemmdirnar eru, þeim mun alvarlegri verða afleiðingarnar að jafnaði. Það eru því engir hlutar heilans sem eru algjörlega ónotaðir eða ónauðsynlegir. Reyndar má geta þess að skemmist hluti heilans geta aðrar heilastöðvar stundum tekið við hlutverki skemmda svæðisins að nokkru leyti. Það breytir því þó ekki að við erum að jafnaði betur sett með heilan heila.

Að lokum má geta þess að heilinn krefst mikillar orku. Það er því harla ósennilegt að þróun mannsheilans hafi orðið á þann veg að fólk sæti uppi með orkufrekt líffæri sem aðeins væri notað að litlum hluta.

Af þessu öllu leiðir að venjulegt fólk notar 100% af heilanum. Þannig er lítið vit í töfralausnum sem sagðar eru gefa fólki ofurmannlega andlega hæfileika með því að auka nýtni þess eða virkni á heilasvæðum sínum.

Í kjölfar þessara upplýsinga má spyrja hvaðan þessi skrýtna sögusögn sé komin um að fólk noti aðeins lítinn hluta heilans. Leiða má að því líkur að hún sé sprottin af mistúlkun fjölmiðla og annarra aðila á niðurstöðum vísindamanna, nokkuð sem því miður virðist enn vera algengt.

Fyrir nokkrum áratugum vissu menn til dæmis ekki fyllilega hvað sumar heilastöðvar gerðu, og verið getur að einhverjir hafi túlkað það á þann veg að þær gerðu ekki neitt! Einnig er vitað að aðeins sum heilastarfsemi er að fullu meðvituð. Auðvitað þýðir það samt ekki að fólk noti ekki heilastöðvar sem sjá um ómeðvitaða starfsemi. Það er svipað og að segja að fólk noti ekki nema lítið brot af meltingarfærum sínum bara af því að það er ekki meðvitað um allar sínar iðrahreyfingar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Frekara lesefni og mynd


Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um virkni heilans. Fleiri spyrjendur eru:
Friðrik Gylfason, Birgir Óli Sigmundsson, Tómas Þór, Rúnar Svavarsson, Viðar Kristinsson, Óskar Stefánsson, Margeir Margeirsson, Guðmundur Jónsson, Jósef Jósefsson, Guðbjörg Jóhannsdóttir, Jón Ólafsson, Sigurvin Jensson, Anna Katrín Einarsdóttir, Sunna Björnsdóttir, Davíð Bragason, Júlía Helgadóttir, Rúnar Þorkelsson, Hildur Berglind, Gunnar Már Árnason, Jón Rúnar Kvaran, Andri Elvar Guðmundsson, Jón Rúnar Kvaran.
...