Sólin Sólin Rís 05:33 • sest 21:22 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:14 • Sest 05:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:26 • Síðdegis: 23:41 í Reykjavík

Hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri styrkingu?

Heiða María Sigurðardóttir

Það er gífurlega mikilvægt fyrir bæði menn og dýr að geta lært af reynslunni. Rándýr sækja á þá staði þar sem þau hafa áður fengið æti. Ef geitungur stingur mann er líklegt að maður sveigi fram hjá slíkum kvikindum í framtíðinni. Brennt barn forðast eldinn. Þegar tiltekin hegðun minnkar eða styrkist í sessi vegna þeirra afleiðinga sem hún hefur er talað um virka skilyrðingu (e. operant conditioning).

Þegar afleiðingar hegðunar auka tíðni hennar kallast það styrking (e. reinforcement). Þessar afleiðingar eða áreiti kallast á tæknimáli styrkjar (e. reinforcers) en það hugtak nær í flestum tilfellum yfir það sem í daglegu tali kallast eitthvað 'gott' eða 'ánægjulegt'; allt sem lífverur sækjast eftir að fá. Algengir styrkjar eru einfaldir hlutir eins og matur, drykkur, hlýja og kynlíf, en einnig fyrirbæri eins og peningar, völd eða starfsframi.

Athuga verður þó að það sem styrkir hegðun hér og nú þarf ekki endilega alltaf að gera það. Maður sem nýlega hefur borðað þriggja rétta máltíð sækist ekki eftir mat, og börnum er eflaust slétt sama um starfsframa.

Sömuleiðis getur það sem flestu fólki finnst í einhverjum skilningi neikvætt, til að mynda skammir, í sumum tilfellum styrkt hegðun. Ef barn, sem enginn skiptir sér annars af, fær skammir fyrir að lemja aðra krakka getur sú hegðun barnsins styrkst fremur en veikst þar sem barnið fer að sækjast eftir athyglinni sem felst í skömmunum.Skammir hafa ekki alltaf tilætluð áhrif og geta jafnvel aukið þá hegðun sem skammað var fyrir.

Styrkingu er oft skipt í jákvæða og neikvæða styrkingu eftir því hvort afleiðingar hegðunar feli í sér að eitthvað birtist eða hverfi. Í báðum tilfellum styrkist upphaflega hegðunin eða eykst.

Í jákvæðri styrkingu (e. positive reinforcement) birtist tiltekið áreiti og hegðun eykst vegna þess. Dæmi um þetta er þegar krakkar fá hrós fyrir að vanda sig við heimaverkefnin sín, sem aftur leiðir til þess að þeir vanda sig enn betur næst.

Í neikvæðri styrkingu (e. negative reinforcement) hverfur aftur á móti áreiti og hegðun eykst. Dæmi er ef krakkar vinna heimaverkefnin sín betur og losna þannig við nöldur foreldra sinna. Ef auka á tiltekna hegðun er þó jafnan mælt með að nota helst jákvæða styrkingu.


Mismunandi tegundir styrkingar og refsingar.

Þegar afleiðingar hegðunar draga úr henni í stað þess að auka hana er talað um refsingu (e. punishment) í stað styrkingar. Á sama hátt og styrkingin getur refsing líka verið ýmist jákvæð eða neikvæð eftir því hvers konar afleiðingar drógu úr upphaflegri hegðun, eins og betur kemur fram í töflunni hér á undan.

Að lokum er rétt að minnast á að orðin 'jákvæður' og 'neikvæður' eru hér ef til vill nokkuð villandi. Jákvæð styrking eða refsing þarf ekki endilega að hafa jákvæðari afleiðingar (í skilningnum betri eða æskilegri) en neikvæð styrking eða refsing. Orðin vísa fremur til þess hvort afleiðingar hegðunarinnar feli í sér að áreiti birtist (jákvæð styrking/refsing) eða hverfi (neikvæð styrking/refsing).

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: W. W. Norton.
  • Pierce, W. D. og Epling, W. F. (1999). Behavior analysis and learning (2. útgáfa). Upper Saddle River: Prentice Hall.
  • Myndin er tekin af Family support center.
  • Töfluna gerði höfundur.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

20.9.2006

Spyrjandi

Margrét Magnúsdóttir

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri styrkingu?“ Vísindavefurinn, 20. september 2006. Sótt 21. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6199.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 20. september). Hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri styrkingu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6199

Heiða María Sigurðardóttir. „Hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri styrkingu?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2006. Vefsíða. 21. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6199>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á jákvæðri og neikvæðri styrkingu?
Það er gífurlega mikilvægt fyrir bæði menn og dýr að geta lært af reynslunni. Rándýr sækja á þá staði þar sem þau hafa áður fengið æti. Ef geitungur stingur mann er líklegt að maður sveigi fram hjá slíkum kvikindum í framtíðinni. Brennt barn forðast eldinn. Þegar tiltekin hegðun minnkar eða styrkist í sessi vegna þeirra afleiðinga sem hún hefur er talað um virka skilyrðingu (e. operant conditioning).

Þegar afleiðingar hegðunar auka tíðni hennar kallast það styrking (e. reinforcement). Þessar afleiðingar eða áreiti kallast á tæknimáli styrkjar (e. reinforcers) en það hugtak nær í flestum tilfellum yfir það sem í daglegu tali kallast eitthvað 'gott' eða 'ánægjulegt'; allt sem lífverur sækjast eftir að fá. Algengir styrkjar eru einfaldir hlutir eins og matur, drykkur, hlýja og kynlíf, en einnig fyrirbæri eins og peningar, völd eða starfsframi.

Athuga verður þó að það sem styrkir hegðun hér og nú þarf ekki endilega alltaf að gera það. Maður sem nýlega hefur borðað þriggja rétta máltíð sækist ekki eftir mat, og börnum er eflaust slétt sama um starfsframa.

Sömuleiðis getur það sem flestu fólki finnst í einhverjum skilningi neikvætt, til að mynda skammir, í sumum tilfellum styrkt hegðun. Ef barn, sem enginn skiptir sér annars af, fær skammir fyrir að lemja aðra krakka getur sú hegðun barnsins styrkst fremur en veikst þar sem barnið fer að sækjast eftir athyglinni sem felst í skömmunum.Skammir hafa ekki alltaf tilætluð áhrif og geta jafnvel aukið þá hegðun sem skammað var fyrir.

Styrkingu er oft skipt í jákvæða og neikvæða styrkingu eftir því hvort afleiðingar hegðunar feli í sér að eitthvað birtist eða hverfi. Í báðum tilfellum styrkist upphaflega hegðunin eða eykst.

Í jákvæðri styrkingu (e. positive reinforcement) birtist tiltekið áreiti og hegðun eykst vegna þess. Dæmi um þetta er þegar krakkar fá hrós fyrir að vanda sig við heimaverkefnin sín, sem aftur leiðir til þess að þeir vanda sig enn betur næst.

Í neikvæðri styrkingu (e. negative reinforcement) hverfur aftur á móti áreiti og hegðun eykst. Dæmi er ef krakkar vinna heimaverkefnin sín betur og losna þannig við nöldur foreldra sinna. Ef auka á tiltekna hegðun er þó jafnan mælt með að nota helst jákvæða styrkingu.


Mismunandi tegundir styrkingar og refsingar.

Þegar afleiðingar hegðunar draga úr henni í stað þess að auka hana er talað um refsingu (e. punishment) í stað styrkingar. Á sama hátt og styrkingin getur refsing líka verið ýmist jákvæð eða neikvæð eftir því hvers konar afleiðingar drógu úr upphaflegri hegðun, eins og betur kemur fram í töflunni hér á undan.

Að lokum er rétt að minnast á að orðin 'jákvæður' og 'neikvæður' eru hér ef til vill nokkuð villandi. Jákvæð styrking eða refsing þarf ekki endilega að hafa jákvæðari afleiðingar (í skilningnum betri eða æskilegri) en neikvæð styrking eða refsing. Orðin vísa fremur til þess hvort afleiðingar hegðunarinnar feli í sér að áreiti birtist (jákvæð styrking/refsing) eða hverfi (neikvæð styrking/refsing).

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: W. W. Norton.
  • Pierce, W. D. og Epling, W. F. (1999). Behavior analysis and learning (2. útgáfa). Upper Saddle River: Prentice Hall.
  • Myndin er tekin af Family support center.
  • Töfluna gerði höfundur.
...