Sólin Sólin Rís 10:50 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:12 • Sest 15:15 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:13 • Síðdegis: 22:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:49 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík

Hvernig eru kol til að teikna með búin til?

Emelía Eiríksdóttir

Kol eru rík af frumefninu kolefni og eru fyrirtakseldsneyti þar sem þau brenna vanalega vel. Hefðbundin kol kallast einnig steinkol eða náttúruleg kol þar sem þau myndast í náttúrunni úr jurtaleifum við súrefnissnauðar aðstæður, til dæmis í mýrum og fenjum. Ummyndun jurtaleifanna í kol tekur milljónir ára og þarfnast þrýstings og hita sem fæst þegar jurtaleifarnar lenda með tíð og tíma undir ýmsum jarðlögum. Við þessar aðstæður losnar vatn, súrefni, köfnunarefni og önnur efni smám saman úr jurtaleifunum, sem verða þá æ ríkari af kolefni. Þannig innihalda steinkol um 80% kolefni en grafít, sem er meðal annars notað í blýanta, er hreint kolefni. Hefðbundin kol finnast ekki í jörðu á Íslandi en fyrirrennarar kola, það er mór (um 60% kolefnisinnihald) og surtabrandur (e. lignite), einnig kallað brúnkol (um 70% kolefnisinnihald), finnast hins vegar hér á landi og voru notaðir sem eldsneyti á Íslandi á árum áður.

Vínviðarkol (til vinstri) er hægt að nota beint til teikninga en pressuð viðarkol (til hægri) eru útbúin með því að pressa blöndu af viðarkoladufti og bindiefni.

Viðarkol (e. charcoal) eru einnig vinsæl teiknitól. Viðarkol eru afar kolefnisrík eins og hefðbundnu kolin en vegna framleiðsluaðferðarinnar innihalda viðarkolin einnig ólífræna ösku. Viðarkol finnast ekki í náttúrunni heldur eru þau búin til samkvæmt gamalli vinnsluaðgerð sem felur í sér svokallaða kolun á viði við súrefnissnauðar aðstæður.

Kolagerð, það er vinnsla viðarkola, var stunduð á Íslandi fram til byrjun 20. aldar. Hér var trjáviður, aðallega birki eða rekaviður, kurlaður og komið fyrir í kolagröf þar sem kveikt var í honum. Þegar loginn hafði læst sig í öllu kurlinu voru grafirnar þaktar með torfi til að hindra aðstreymi súrefnis og þannig komið í veg fyrir að kurlið brynni til grunna. Í staðinn hélst glóð í kurlinu og ýmis rokgjörn efni í viðnum, til dæmis lofttegundir, edikssýra og viðartjara, ruku burt. Ferlið tók um einn til fjóra daga og eftir urðu viðarkol sem notuð voru sem eldsneyti þegar kveikja þurfti undir en einnig er hægt að nýta viðarkolin til að teikna með.

Blýantar sem innihalda viðarkol í stað grafíts eru vinsælir í teiknitímum.

Í dag eru viðarkol útbúin með því að hita trjávið í þar til gerðum ofnum eða kötlum þar sem loft kemst kemst ekki að. Með þessum nýju tækjum er mun auðveldara að stjórna kolunarferlinu.

Viðarkol ganga oft undir heitinu teiknikol enda er hægt að nota þau beint til að teikna með; þau kol sem aðallega eru notuð kallast á ensku vine charcoal eða vínviðarkol. Einnig er vinsælt að nota viðarkoladuft og pressuð viðarkol við teikningar. Við framleiðslu á pressuðum viðarkolum er bindiefni blandað saman við viðarkoladuft og blandan pressuð í sívalnings- eða ferningslaga stafi. Hlutfall bindiefnis og viðarkoladufts ákvarðar hörku stafanna þar sem meira bindiefni leiðir til harðari stafa. Vínviðarkolin eru einnig fáanleg með mismunandi hörku og fást þeir eiginleikar með því að brenna viðinn mislengi.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

16.5.2012

Spyrjandi

Erna Vala Arnardóttir, f. 1995

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvernig eru kol til að teikna með búin til?“ Vísindavefurinn, 16. maí 2012. Sótt 3. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=62456.

Emelía Eiríksdóttir. (2012, 16. maí). Hvernig eru kol til að teikna með búin til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62456

Emelía Eiríksdóttir. „Hvernig eru kol til að teikna með búin til?“ Vísindavefurinn. 16. maí. 2012. Vefsíða. 3. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62456>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig eru kol til að teikna með búin til?
Kol eru rík af frumefninu kolefni og eru fyrirtakseldsneyti þar sem þau brenna vanalega vel. Hefðbundin kol kallast einnig steinkol eða náttúruleg kol þar sem þau myndast í náttúrunni úr jurtaleifum við súrefnissnauðar aðstæður, til dæmis í mýrum og fenjum. Ummyndun jurtaleifanna í kol tekur milljónir ára og þarfnast þrýstings og hita sem fæst þegar jurtaleifarnar lenda með tíð og tíma undir ýmsum jarðlögum. Við þessar aðstæður losnar vatn, súrefni, köfnunarefni og önnur efni smám saman úr jurtaleifunum, sem verða þá æ ríkari af kolefni. Þannig innihalda steinkol um 80% kolefni en grafít, sem er meðal annars notað í blýanta, er hreint kolefni. Hefðbundin kol finnast ekki í jörðu á Íslandi en fyrirrennarar kola, það er mór (um 60% kolefnisinnihald) og surtabrandur (e. lignite), einnig kallað brúnkol (um 70% kolefnisinnihald), finnast hins vegar hér á landi og voru notaðir sem eldsneyti á Íslandi á árum áður.

Vínviðarkol (til vinstri) er hægt að nota beint til teikninga en pressuð viðarkol (til hægri) eru útbúin með því að pressa blöndu af viðarkoladufti og bindiefni.

Viðarkol (e. charcoal) eru einnig vinsæl teiknitól. Viðarkol eru afar kolefnisrík eins og hefðbundnu kolin en vegna framleiðsluaðferðarinnar innihalda viðarkolin einnig ólífræna ösku. Viðarkol finnast ekki í náttúrunni heldur eru þau búin til samkvæmt gamalli vinnsluaðgerð sem felur í sér svokallaða kolun á viði við súrefnissnauðar aðstæður.

Kolagerð, það er vinnsla viðarkola, var stunduð á Íslandi fram til byrjun 20. aldar. Hér var trjáviður, aðallega birki eða rekaviður, kurlaður og komið fyrir í kolagröf þar sem kveikt var í honum. Þegar loginn hafði læst sig í öllu kurlinu voru grafirnar þaktar með torfi til að hindra aðstreymi súrefnis og þannig komið í veg fyrir að kurlið brynni til grunna. Í staðinn hélst glóð í kurlinu og ýmis rokgjörn efni í viðnum, til dæmis lofttegundir, edikssýra og viðartjara, ruku burt. Ferlið tók um einn til fjóra daga og eftir urðu viðarkol sem notuð voru sem eldsneyti þegar kveikja þurfti undir en einnig er hægt að nýta viðarkolin til að teikna með.

Blýantar sem innihalda viðarkol í stað grafíts eru vinsælir í teiknitímum.

Í dag eru viðarkol útbúin með því að hita trjávið í þar til gerðum ofnum eða kötlum þar sem loft kemst kemst ekki að. Með þessum nýju tækjum er mun auðveldara að stjórna kolunarferlinu.

Viðarkol ganga oft undir heitinu teiknikol enda er hægt að nota þau beint til að teikna með; þau kol sem aðallega eru notuð kallast á ensku vine charcoal eða vínviðarkol. Einnig er vinsælt að nota viðarkoladuft og pressuð viðarkol við teikningar. Við framleiðslu á pressuðum viðarkolum er bindiefni blandað saman við viðarkoladuft og blandan pressuð í sívalnings- eða ferningslaga stafi. Hlutfall bindiefnis og viðarkoladufts ákvarðar hörku stafanna þar sem meira bindiefni leiðir til harðari stafa. Vínviðarkolin eru einnig fáanleg með mismunandi hörku og fást þeir eiginleikar með því að brenna viðinn mislengi.

Heimildir:

Myndir:...