Sólin Sólin Rís 11:12 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:42 • Sest 07:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:28 • Síðdegis: 15:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:48 • Síðdegis: 22:07 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:12 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:42 • Sest 07:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:28 • Síðdegis: 15:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:48 • Síðdegis: 22:07 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er þroskasálfræði og hvað er fjallað um í greininni?

Aldís Guðmundsdóttir

Þroskasálfræði er sú fræðigrein sem leitast við að skýra þær breytingar sem verða á huga, heila og hátterni samfara aldri. Breytingarnar eiga rætur að rekja til líffræðilegra þátta (eins og erfða), líffræðilegs þroska (bæði háður erfðum og næringu), sálfræðilegra þátta (til dæmis greindar og tilfinninga) og síðast en ekki síst umhverfisþátta. Eins og sjá má eru því viðfangsefni þroskasálfræðinnar fjölbreytileg og greinin fylgir eftir þroskaferli einstaklingsins allt frá frjóvgun til æviloka.

Stundum er orðunum þroskasálfræði og þróunarsálfræði blandað saman í íslensku. Síðarnefnda greinin snýst aftur á móti frekar um að rannsaka hvernig gerð taugakerfisins og andlegt atgervi hefur þróast í gegnum aldirnar.

Þroskasálfræði er í sjálfu sér jafn gömul sálfræðinni í heild sinni enda fengust margir af fyrstu sálfræðingunum við rannsóknir sem tengdust þroska. Venjulega er miðað við árið 1879 sem upphafsár sálfræðinnar en þá var fyrstu rannsóknarstofunni í sálfræði komið á fót fyrir tilstilli Wilhelms Wundts í Leipzig í Þýskalandi. Fyrstu sálfræðingarnir störfuðu því í Þýskalandi undir forystu hans og lögðu megináherslu á tilraunasálfræði. Meira má lesa um tilraunasálfræði í svari við spurningunni Hvað er tilraunasálfræði, hvað er rannsakað í þeirri grein og hvert fer maður að læra hana? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.


Hér má sjá sálfræðinginn G. Stanley Hall fyrir miðju. Til hægri við hann á myndinni er svo Sigmund Freud og til vinstri er Carl Jung.

Nemendur komu víða að til að stunda nám hjá Wundt og út frá tilraunastofu hans og háskólanum í Leipzig bárust straumar sálfræðinnar víða um lönd. Einn nemenda hans var Bandaríkjamaðurinn G. Stanley Hall og varð hann síðar frumkvöðull á mörgum sviðum sálfræði vestan hafs.

Í rannsóknum sínum notaði Hall þá aðferð að hann samdi spurningalista sem áttu að veita upplýsingar um hegðun og viðhorf barna og unglinga. Þessa lista lagði hann svo bæði fyrir börnin sjálf, foreldra þeirra og kennara. Þarna er kominn greinilegur vísir að þroskarannsóknum. Auk þeirra gaf Hall út tímarit um þroska, Pedagogical Seminary, frá 1883. Hann fjallaði einnig töluvert um unglinga og gaf út fyrstu bandarísku kennslubókina um það æviskeið árið 1904. Hún nefndist einfaldlega Adolescence eða „unglingsár“. Áhugi Halls náði jafnframt til uppeldis- og kennslumála en Bandaríkjamenn hafa verið framarlega á því sviði allar götur síðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

Höfundur

sálfræðikennari

Útgáfudagur

18.10.2006

Spyrjandi

Hafrún Guðbrandsdóttir

Tilvísun

Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er þroskasálfræði og hvað er fjallað um í greininni?“ Vísindavefurinn, 18. október 2006, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6319.

Aldís Guðmundsdóttir. (2006, 18. október). Hvað er þroskasálfræði og hvað er fjallað um í greininni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6319

Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er þroskasálfræði og hvað er fjallað um í greininni?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2006. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6319>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er þroskasálfræði og hvað er fjallað um í greininni?
Þroskasálfræði er sú fræðigrein sem leitast við að skýra þær breytingar sem verða á huga, heila og hátterni samfara aldri. Breytingarnar eiga rætur að rekja til líffræðilegra þátta (eins og erfða), líffræðilegs þroska (bæði háður erfðum og næringu), sálfræðilegra þátta (til dæmis greindar og tilfinninga) og síðast en ekki síst umhverfisþátta. Eins og sjá má eru því viðfangsefni þroskasálfræðinnar fjölbreytileg og greinin fylgir eftir þroskaferli einstaklingsins allt frá frjóvgun til æviloka.

Stundum er orðunum þroskasálfræði og þróunarsálfræði blandað saman í íslensku. Síðarnefnda greinin snýst aftur á móti frekar um að rannsaka hvernig gerð taugakerfisins og andlegt atgervi hefur þróast í gegnum aldirnar.

Þroskasálfræði er í sjálfu sér jafn gömul sálfræðinni í heild sinni enda fengust margir af fyrstu sálfræðingunum við rannsóknir sem tengdust þroska. Venjulega er miðað við árið 1879 sem upphafsár sálfræðinnar en þá var fyrstu rannsóknarstofunni í sálfræði komið á fót fyrir tilstilli Wilhelms Wundts í Leipzig í Þýskalandi. Fyrstu sálfræðingarnir störfuðu því í Þýskalandi undir forystu hans og lögðu megináherslu á tilraunasálfræði. Meira má lesa um tilraunasálfræði í svari við spurningunni Hvað er tilraunasálfræði, hvað er rannsakað í þeirri grein og hvert fer maður að læra hana? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.


Hér má sjá sálfræðinginn G. Stanley Hall fyrir miðju. Til hægri við hann á myndinni er svo Sigmund Freud og til vinstri er Carl Jung.

Nemendur komu víða að til að stunda nám hjá Wundt og út frá tilraunastofu hans og háskólanum í Leipzig bárust straumar sálfræðinnar víða um lönd. Einn nemenda hans var Bandaríkjamaðurinn G. Stanley Hall og varð hann síðar frumkvöðull á mörgum sviðum sálfræði vestan hafs.

Í rannsóknum sínum notaði Hall þá aðferð að hann samdi spurningalista sem áttu að veita upplýsingar um hegðun og viðhorf barna og unglinga. Þessa lista lagði hann svo bæði fyrir börnin sjálf, foreldra þeirra og kennara. Þarna er kominn greinilegur vísir að þroskarannsóknum. Auk þeirra gaf Hall út tímarit um þroska, Pedagogical Seminary, frá 1883. Hann fjallaði einnig töluvert um unglinga og gaf út fyrstu bandarísku kennslubókina um það æviskeið árið 1904. Hún nefndist einfaldlega Adolescence eða „unglingsár“. Áhugi Halls náði jafnframt til uppeldis- og kennslumála en Bandaríkjamenn hafa verið framarlega á því sviði allar götur síðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd

...