Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig má skilgreina hugtakið þýði og hvað greinir það frá úrtaki?

Heiða María Sigurðardóttir

Þýði er samansafn eða mengi allra einstaklinga eða staka með tiltekna eiginleika. Í rannsóknum er þetta sá hópur sem ætlunin er að draga einhverja ályktun um. Í rannsókn á menntamálum á Íslandi gæti því þýðið til dæmis verið „öll íslensk grunnskólabörn“. Sömuleiðis gæti þýðið í vistfræðirannsókn verið „allt mólendi“.

Þar sem álykta á um þýðið væri að sjálfsögðu besti kosturinn að rannsaka það í heild sinni. Því miður er þetta sjaldnast raunhæfur möguleiki. Það gæti orðið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að rannsaka hvert einasta íslenska grunnskólabarn, og ógjörningur væri að skoða öll dæmi um mólendi í heiminum. Þetta er aðalástæðan fyrir því að yfirleitt er tekið úrtak úr þýðinu og það rannsakað í staðinn. Úrtak er safn einstaklinga eða hluta sem er valið úr skilgreindu þýði.

Markmiðið með því að skoða eiginleika úrtaksins er að fá að vita eitthvað um þýðið. Það skiptir því höfuðmáli að úrtakið sé valið á þann hátt að líklegt sé að eiginleikar þess líkist eiginleikum þýðisins.

Ef ofangreind menntarannsókn snerist til að mynda um að kanna lestraráhuga grunnskólabarna væri líklega óheppilegt að rannsakandinn kannaði bara lestur allra grunnskólabarna sem hann þekkti persónulega. Það væri vel hægt að hugsa sér að þau börn hefðu meiri eða minni áhuga á lestri en gengur og gerist meðal íslenskra grunnskólabarna almennt; úrtakið væri með öðrum orðum ekki dæmigert fyrir þýðið.

Betri leið væri að taka svokallað tilviljunarúrtak úr þýðinu, þar sem tilviljun ræður hverjir úr þýðinu lenda í úrtakinu. Þannig mætti til dæmis fá lista úr þjóðskrá yfir öll börn á grunnskólaaldri og draga af tilviljun út nöfn 500 barna. Þessi börn tækju síðan þátt í lestrarrannsókninni.

Með þessari aðferð er tryggt að öll íslensk grunnskólabörn væru jafnlíkleg til að lenda í úrtakinu. Að jafnaði gildir líka að því stærra sem tilviljunarúrtakið er því líkara verður það þýðinu. Ef tekið er stórt tilviljunarúrtak úr þýði er því hægt að vera nokkuð öruggur um að eiginleikar úrtaksins séu sambærilegir eiginleikum þýðisins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Hoyle, R. H., Harris, M. J. og Judd, C. M. (2002). Research methods in social relations. Stamford, CT: Thomson Learning.
  • Agresti, A. og Finlay, B. (1997). Statistical methods for the social sciences. Upper Saddle River, NJ: Prentice Hall.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

1.11.2006

Spyrjandi

Rannveig Erlingsdóttir

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig má skilgreina hugtakið þýði og hvað greinir það frá úrtaki?“ Vísindavefurinn, 1. nóvember 2006, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6352.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 1. nóvember). Hvernig má skilgreina hugtakið þýði og hvað greinir það frá úrtaki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6352

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig má skilgreina hugtakið þýði og hvað greinir það frá úrtaki?“ Vísindavefurinn. 1. nóv. 2006. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6352>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig má skilgreina hugtakið þýði og hvað greinir það frá úrtaki?
Þýði er samansafn eða mengi allra einstaklinga eða staka með tiltekna eiginleika. Í rannsóknum er þetta sá hópur sem ætlunin er að draga einhverja ályktun um. Í rannsókn á menntamálum á Íslandi gæti því þýðið til dæmis verið „öll íslensk grunnskólabörn“. Sömuleiðis gæti þýðið í vistfræðirannsókn verið „allt mólendi“.

Þar sem álykta á um þýðið væri að sjálfsögðu besti kosturinn að rannsaka það í heild sinni. Því miður er þetta sjaldnast raunhæfur möguleiki. Það gæti orðið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að rannsaka hvert einasta íslenska grunnskólabarn, og ógjörningur væri að skoða öll dæmi um mólendi í heiminum. Þetta er aðalástæðan fyrir því að yfirleitt er tekið úrtak úr þýðinu og það rannsakað í staðinn. Úrtak er safn einstaklinga eða hluta sem er valið úr skilgreindu þýði.

Markmiðið með því að skoða eiginleika úrtaksins er að fá að vita eitthvað um þýðið. Það skiptir því höfuðmáli að úrtakið sé valið á þann hátt að líklegt sé að eiginleikar þess líkist eiginleikum þýðisins.

Ef ofangreind menntarannsókn snerist til að mynda um að kanna lestraráhuga grunnskólabarna væri líklega óheppilegt að rannsakandinn kannaði bara lestur allra grunnskólabarna sem hann þekkti persónulega. Það væri vel hægt að hugsa sér að þau börn hefðu meiri eða minni áhuga á lestri en gengur og gerist meðal íslenskra grunnskólabarna almennt; úrtakið væri með öðrum orðum ekki dæmigert fyrir þýðið.

Betri leið væri að taka svokallað tilviljunarúrtak úr þýðinu, þar sem tilviljun ræður hverjir úr þýðinu lenda í úrtakinu. Þannig mætti til dæmis fá lista úr þjóðskrá yfir öll börn á grunnskólaaldri og draga af tilviljun út nöfn 500 barna. Þessi börn tækju síðan þátt í lestrarrannsókninni.

Með þessari aðferð er tryggt að öll íslensk grunnskólabörn væru jafnlíkleg til að lenda í úrtakinu. Að jafnaði gildir líka að því stærra sem tilviljunarúrtakið er því líkara verður það þýðinu. Ef tekið er stórt tilviljunarúrtak úr þýði er því hægt að vera nokkuð öruggur um að eiginleikar úrtaksins séu sambærilegir eiginleikum þýðisins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Hoyle, R. H., Harris, M. J. og Judd, C. M. (2002). Research methods in social relations. Stamford, CT: Thomson Learning.
  • Agresti, A. og Finlay, B. (1997). Statistical methods for the social sciences. Upper Saddle River, NJ: Prentice Hall.
...